20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (1863)

82. mál, samvinnufélög

Flm. (Pjetur Ottesen):

Eins og greinargerð frv. þessa ber með sjer, þá var flutt hjer á þinginu í fyrra samskonar frv., samkv. áskorun fulltrúafundar Kaupfjelags Borgfirðinga. Auðnaðist því frv. ekki að ganga fram, og hafa nú á ný borist tilmæli um það, frá stjórn Kaupfjelags Borgfirðinga, að flytja málið aftur; því er þetta frv. fram komið.

Það er farið fram á þá einu breytingu, að þau fjelög, sem skiftast í deildir með sameiginlegri ábyrgð í hverri deild, njóti sömu ívilnana, þ. e. skattfrelsis, og fjelög með sameiginlegri ábyrgð. Breytingin er því ekki önnur en að aukið sje við 3. gr. laganna ákvæði um þetta.

Að Kaupfjelag Borgfirðinga fer fram á þetta kemur til af því, að það hefir reynt hvorttveggja fyrirkomulagið, bæði sameiginlega ábyrgð fjelagsins í heild og svo sameiginlega ábyrgð aðeins innan hverrar deildar. Reynslan hefir orðið sú, að hið síðarnefnda fyrirkomulag hefir sannast að vera heppilegra, og vill Kaupfjelag Borgfirðinga því ekki hvika frá því. Er það sannfæring þeirra Borgfirðinganna, að hyggilegast sje að byggja verslun sína á þeim grundvelli samvinnufjelagsskaparins, enda hefir það fengið viðurkenningu á því, að sú skoðun sje rjettmæt, því fjelagið nýtur fulls lánstrausts út á við.

Finst því þar af leiðandi sanngjarnt, að fjelag, sem bygt er á þessum grundvelli, fái að njóta sömu ívilnana og hin samvinnufjelögin, þ. e. skattfrelsis.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um málið, en vænti þess, að hv. deild taki því vel og vísi því að lokinni þessari umræðu til allshn.