20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (1867)

82. mál, samvinnufélög

Ingólfur Bjarnarson:

Það eru aðeins tvö atriði, sem jeg vil drepa á. Þar sem hv. flm. (PO) skýrði frá samábyrgðarfyrirkomulagi Kaupfjelags Borgfirðinga, skildist mjer sem hann þekti það ekki af eigin reynd, heldur hefði þetta eftir öðrum. Eins er um mig, að vísu. En jeg hefi það eftir gömlum og góðum fjelagsmönnum Kaupfjelags Borgfirðinga og einum framkvæmdastjóra fjelagsins, þó ekki þeim, sem nú er, að aldrei hafi þar verið fullkomin samábyrgð. Jeg hefi einnig sjeð lög fjelagsins, sem voru í gildi fyrir 4 árum, og er þar engin samábyrgð. Jeg tel því ósannað, að fjelagið hafi nokkurntíma starfað með því fyrirkomulagi.

Hitt atriðið er það, hvernig deildaábyrgð sje notuð í þeim fjelögum, sem hafa deildafyrirkomulagið, en ótakmarkaða samábyrgð og hvern lagaskilning beri að leggja í það atriði. Í því efni verður mest bygt á reynslunni. Vil jeg í því sambandi upplýsa, að í elstu kaupfjelögunum, svo sem í 3 þingeysku kaupfjelögunum, sem nú hafa starfað undir þessu fyrirkomulagi 30–40 ár, hefir sá skilningur altaf verið lagður í þetta og framkvæmdinni hagað þar eftir, að fyrst er hver deild krafin um fulla skilsemi, áður en til þess getur komið, að aðrar deildir þurfi að svara til. Verð jeg að telja þetta fullkomna sönnun þess, hvernig skilja beri samábyrgðarákvæðið og framkvæma það, þar sem um deildaskipulag er að ræða með fullkominni samábyrgð.