20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (1868)

82. mál, samvinnufélög

Tryggvi Þórhallsson:

Mjer þykir vænt um að geta komist að, áður en hv. flm. (PO) talar í 3 sinn, því að jeg þykist vita, að hann muni vilja svara því, sem jeg ætla að segja.

Jeg vil ítreka það, sem hv. þm. S.-Þ. (IngB) sagði um Kaupfjelag Borgfirðinga. Jeg hef sjálfur verið fjelagsmaður í því um hríð og fylgst með starfsemi þess jafnan síðan jeg flutti úr hjeraðinu. Mjer er því kunnugt um tilhögun fjelagsins, og hefir hún aldrei verið á þann veg, í raun og veru, að fullkomin samábyrgð væri milli allra fjelagsmanna. Það var að vísu reynt að koma því skipulagi á, og komst það inn í lögin. Voru þá sendir út menn til að safna undirskriftum, en gekk treglega, svo að jafnskjótt var hætt við þetta. Þó að þetta fyrirkomulag hafi því staðið um stund á pappírnum, hefir það í raun og veru alls ekki verið tíðkað í Kaupfjelagi Borgfirðinga.

Þá er annað atriði í ræðu hv. flm. (PO), sem jeg vil víkja að. Hann kvaðst ekki sjá neina ástæðu fyrir samvinnumenn, að leggjast á móti þessu frv. Jeg vil skjóta því til hans, hvort honum þyki það ekki undarlegt, að þeir, sem unnið hafa fyrir samvinnufjelagsskapinn, skuli standa sem einn maður á móti honum í þessu máli, en mótstöðumenn samvinnustefnunnar eru nálega allir með honum í því. Hjer sannast málshátturinn: Sýndu mjer, hverja þú umgengst, þá skal jeg segja þjer, hver þú ert. Samvinnumenn vilja sem einn maður vernda þá löggjöf, sem þeir hafa borið gæfu til að bera til sigurs gegnum þingið. Þeir vilja sporna við því, að inn í þau lög verði settur fleygur, sem geti haft óþægilegar afleiðingar fyrir samvinnumálin. Þeir vilja hafa frið í löggjöfinni, svo að þeir geti unnið óáreittir af henni, þó að þeir sjeu að vísu áreittir af öðrum. Jeg veit, að hv. flm. (PO) muni ekki ganga ilt til að vilja setja þennan fleyg í lögin, en mjer er ekki grunlaust um, að honum fylgi ýmsir þeir menn, sem sjá, að hjer er fleygur, sem gæti skaðað þessa stofnun.

Jeg vil benda háttv. flm. á, hverjar afleiðingar það gæti haft, ef þetta frv. yrði að lögum. Hann vill samábyrgð innan hverrar deildar, en ekki í öllu fjelaginu, og liggur þá nærri að segja, að þá verði einungis deildasamábyrgð út á við. Nú gæti hugsast, að hinir efnaðri bændur færu saman í sjerstaka deild en fátæklingar einir í aðra deild, og ef sú deild stendur ekki í skilum, verða það ekki fjelagsmenn, sem standa saman um lífsnauðsynjar sínar, heldur verða þeir fyrir tjóni, sem hafa lánað fjelaginu af góðum hug. Þetta getur legið við. En samvinnumenn vilja ganga svo frá löggjöfinni, að fjelagsmenn skuli sjálfir standa við skuldbindingar fjelagsins. Hjer er því búinn til fleygur, er menn gætu misnotað, ef þeir vildu, til þess að draga úr ábyrgð fjelaganna. Því segi jeg eins og þeir 2 ágætu forystumenn samvinnustefnunnar, sem nú hafa talað, annar af Norðurlandi, en hinn af Austurlandi, að jeg treysti mjer ekki til að greiða þessu frv. atkvæði.