20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (1870)

82. mál, samvinnufélög

Pjetur Þórðarson:

Jeg hefði ekki búist við slíkum deilum um þetta mál við 1. umr. sem nú er raun á orðin og síst, að jeg mundi kvaddur til að skera úr þessu, þótt mjer sje ljúft að gera það, eftir því sem jeg get. Í raun og veru hefir Kaupfjelag Borgfirðinga starfað um eitt skeið á þessum svokallaða samábyrgðargrundvelli. En starfsemi þess er nú söm og áður fyr. Það hafði sem sje fyrst, og lengi vel, takmarkaða ábyrgð út á við, sem bundin var við eignir manna í fjelaginu, bæði sjereignir, stofnsjóð og sameignarvarasjóð. Kaupfjelagsstjóra þótti þetta örðugt við að eiga og vildi fá sameiginlega ábyrgð, og það fjekst líka, eftir margendurteknar umleitanir. Eins og hv. 1. þm. N.-M. sagði, getur samábyrgðin verið tvennskonar, inn á við og út á við. Ábyrgðin inn á við getur verið trygg, þótt hún sje ekki til. Það er því að vissu leyti rjett, sem hv. þm. Borgf. sagði, að í fjelaginu var samábyrgð út á við, að minsta kosti í 5 ár, uns reynt var að setja því lög, sniðin eftir samvinnulögunum, og er til þess kom, varð það ljóst, að mörgum stóð stuggur af hinni ótakmörkuðu samábyrgð, enda voru þá erfiðleikar miklir og byltingar í viðskiftum. Það kom og í ljós, að sumar deildir voru töluvert skuldugri fjelaginu en aðrar, eftir þetta samábyrgðartímabil, og varð fjelagið að taka á sig þær misfellur. Niðurstaðan varð því sú, að fjelagið gekk ekki undir samábyrgðarlögin að þessu leyti út á við, en tók upp aftur takmörkuðu ábyrgðina. Mjer er ekki fjarri að halda, að Kaupfjelag Borgfirðinga hafi ekki skilið til fulls, hversu skyldi aðgreina ábyrgðina inn á við og út á við. Jeg er að vísu ekki lögfræðingur og því ekki fær að dæma um það, en tel hæpið, að lánardrotnar gerðu sjer það að góðu, ef einhver deild gæti ekki staðið í skilum, að ganga ekki að fjelaginu með þann hluta sameiginlegrar skuldar, er fjelli á gjaldþrota deild. En á slíkt hefir ekki reynt enn og gerir ekki, fyr en ef fjelagið yrði sjálft gjaldþrota. En hræddur er jeg um að þetta losi ekki fjelagið við ábyrgðina. Eins og lög fjelagsins eru nú, mundi í tæka tíð verða gengið að hverri deild fyrir sig. En við því er að vísu ekki neitt að segja hjer, hvað þetta kaupfjelag snertir, ef það eða helstu menn þess ætla, að þetta skipulag komi að haldi.