20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (1871)

82. mál, samvinnufélög

Björn Líndal:

Jeg hefi lengi átt bágt með að skilja framkomu samvinnuforkólfanna á landi voru og á ekki hægara með það eftir þennan daginn. Jeg hefi haldið, að aðalhlutverk samvinnufjelaganna væri að gera bændur fjárhagslega sjálfstæða, en nú þykja þeir óalandi og óferjandi, sem á nokkurn hátt vilja reyna að takmarka ábyrgðirnar. Háttv. þm. Str. ætti að vita, að fyrsta skilyrðið til að standa í skilum er að geta staðið í skilum, og sannarlega ættu þeir herrar, forkólfar samvinnumanna hjer, ekki að vera stórorðir um ástandið í landinu eða að vera gera sig breiða. Sami hv. þm. (TrÞ) flaggar með því, að allir andstæðingar samvinnunnar sjeu með frv. þessu. Þetta er gömul venja ofstækismanna og svipuð því, þegar menn af ofstæki í trúmálum hatast meira við siðbótamennina en heiðingja. Af því að skipulag kaupfjelaganna hefir reynst illa, viljum við bæta úr því á sem heppilegastan hátt, og fyrir það verðum við að þola ofsóknir forkólfanna. Samvinnubændurnir eru neyddir til þess að taka á sig allar þær kvaðir og takmarkalausar ábyrgðir, sem forkólfunum þóknast að leggja á þá, og mega ekki ráða, hvað þeir leggja sjer til munns eða klæðast í. Þeir eiga að vera eins og púlshestar, sem engu ráða um það, hvað á þá er lagt, eða hvernig þeir eru fóðraðir. Jeg fyrir mitt leyti tel það ekki happaspor, að gera íslenska bændur að ánauðugum mönnum.