20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (1873)

82. mál, samvinnufélög

Halldór Stefánsson:

Jeg skal ekki lengja umræðurnar mikið frá því, sem orðið er. Jeg vildi aðeins koma í veg fyrir, að fyrri ræða mín yrði skilin svo, að jeg teldi óheppilegt með öllu, að fjelögin skiftust í flokka eða deildir til ábyrgðar innbyrðis. Jeg vildi aðeins reyna að gera það skiljanlegt, að ekkert eðlilegt samband væri í milli ábyrgðarskyldunnar út á við og hvort fjelagsmenn skiftust í deildir eða ekki til að ábyrgjast skil einstaklinganna gagnvart fjelaginu sjálfu, heldur væri þar um tvö óskyld atriði að ræða. En hinsvegar felst jeg á það, sem háttv. þm. Borgf. (PO) hjelt einnig fram, að deildaskiftingin ætti ekki að þurfa að verða til að rýra neitt verulega traust fjelaganna út á við, og þar af leiðandi engin þörf eða rjett rök til þess að láta deildaskiftinguna valda nokkru um það, hvort fjelögin hafa takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð út á við.

Orð hv. þm. Ak. (BL) mátti skilja svo sem hann teldi þá, sem breytingunni væru mótfallnir, vera að mæla með skuldasöfnun. Það segir sig nú auðvitað sjálft, að þetta er fáránleg firra. En við vitum, hvernig fjelögin eru stofnuð. Venjulega er ekkert stofnfje fyrir hendi, en þau þurfa ekki aðeins þess með, heldur einnig rekstrarfjár. Þeim er því þegar af þeirri ástæðu þörf lánstrausts. Þetta vita fjelögin vel, og því byrja þau jafnskjótt og þau taka til starfa að safna hvorttveggja. En sje gert ráð fyrir, að fjelagsmenn skuldi fjelagi sínu, þá er enn meiri þörf á því en ella, að þau geti notið sem mests lánstrausts, og á krepputímum, eins og nú er, er hættulegt að gera nokkuð, sem rýrt getur lánstraust þeirra.

Þar sem jeg þannig álit breytingu þessa annarsvegar óþarfa til þess að Kaupfjelag Borgfirðinga geti notið verndar samvinnufjelagalaganna um skattaálögur, og hinsvegar varhugavert að breyta skipulagsgrundvelli samvinnufjelaganna — ekki síst á þessum krepputímum — þannig, að það verði til þess að veikja lánstraust fjelaganna, þá hlýt jeg að verða á móti þessu frumvarpi.