20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (1875)

82. mál, samvinnufélög

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. þm. Mýra. (PÞ) fyrir það, hvernig hann skar úr deilunni milli okkar háttv. þm. Borgf., og var það á þann veg, sem jeg bjóst við. En það upplýsti enn betur, að þetta samábyrgðarákvæði Kaupfjelags Borgfirðinga hefir aðeins verið gildandi á pappírnum, en aldrei haft raunverulega þýðingu. Fjelagið hefir tekið lán gegn ábyrgð einstakra manna innan fjelagsins, enda myndi samábyrgðin aldrei hafa lognast út af af sjálfu sjer nje bankarnir látið hana niður falla, hefði hún nokkurntíma átt sjer stað annarsstaðar en á pappírnum. Því þarf algerlega að fitja upp á nýtt, ef hún á að takast upp aftur.

En þetta var nú aðeins aukaatriði.

Þá þarf jeg að beina orðum mínum í aðra átt, og finn jeg þá ástæðu til að óska háttv. þm. Borgf. til hamingju með þann ágæta samherja og aðstoð, sem hann hefir fengið hjá hv. þm. Ak. (BL). Eftir að hjer hafa talað sumir hinir ötulustu forvígismenn samvinnustefnunnar á Austurlandi, í Þingeyjarsýslu og Eyjafirði, þá leyfir þessi háttv. þm. (BL) sjer að rísa upp til andmæla, sá maður, sem í kosningunni 1919 gerði mjög svæsna árás á eitt kaupfjelagið, þó honum yrði raunar sú för til lítillar sæmdar. Það verður raunar ekki sagt, að hann hafi ráðist á garðinn, þar sem hann var lægstur, enda reyndist hann hærri en svo, að hann kæmist yfir hann eða gegnum hann, og sá hann sjer líka þann kost vænstan að reyna ekki til þess í næsta skifti er honum gafst tækifæri til svipaðrar árásar.

Háttv. þm. Ak. dró ýmislegt fleira inn í þetta mál en beint kemur því við, og þar sem honum hefir leyfst að kasta hnútum að samvinnufjelagsskapnum, þá vænti jeg þess, að hæstv. forseti meini mjer ekki að svara þeim að nokkru.

Hv. þm. (BL) fór að tala um ástandið yfirleitt, og svo, að á honum mátti skilja, að hann teldi ástandið verst hjá bændum í samvinnufjelögunum. Mjer komu þessi ummæli í sjálfu sjer ekki á óvart, því samskonar hljóð hafa áður komið úr fleiri hornum. En hvað því viðvíkur, að bændafjelagsskapurinn sje því valdandi, hvernig ástandið í landinu er nú, þá er ekki ófróðlegt að líta á nokkrar staðreyndir, ef þær gætu gefið einhverjar upplýsingar um þau efni.

Og jeg vil þá fyrst og fremst spyrja hv. þm. Ak. (BL) þessarar spurningar: Eru það bændur, sem hafa fengið gefnar upp skuldir svo miljónum króna skiftir? Og hvenær hafa þeir ekki staðið við sínar skuldbindingar? Það, sem háttv. þm. Ak. flaskar á, er það, að hann leggur að jöfnu samábyrgð bænda um kaup á brýnustu nauðsynjavörum og samábyrgð útgerðarfjelaga í „spekulations“-augnamiði. Bændurnir eru hin sparsamasta stjett þjóðfjelagsins. Þeir hafa í fjelagsskap sínum undirdeildir, þar hefir hver gát á öðrum, og svo rammlega er um hnútana búið sem mögulegt er, til þess að varna því, að nokkrir misbrestir eigi sjer stað. Og það er þessi viðleitni bændanna, sem hv. þm. Ak. leyfir sjer að líkja við braskarafjelagsskap. En munurinn er samt auðsýnilegur, eins og munurinn á svörtu og hvítu. Það er himinvítt haf á milli þessara tveggja fjelagsskapa.

Þá ljet sami hv. þm. (BL) sjer um munn fara, að samvinnufjelagsskapurinn miðaði að því að gera bændur ánauðuga. En jeg get frætt hann um það, að sá ótti er alveg ástæðulaus. Það er einmitt sjálfstæðisveiðleitni bænda, sem er að ryðja sjer braut með þessum fjelagsskap. Enda er hann reistur á eins traustum „demokratiskum“ grundvelli og hugsast getur.