08.03.1924
Efri deild: 14. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (1885)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Flm. (Jón Magnússon):

Á Alþingi 1909 báru þessir þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum: Björn Jónsson, Björn Kristjánsson, Hálfdán Guðjónsson, Sigurður Gunnarsson og Bjarni Jónsson frá Vogi fram frumvarp, nokkuð svipað því, er hjer er nú á ferðinni. Jeg skal láta þess getið, að jeg var þá fremur andvígur frumvarpinu, og jeg má segja yfirleitt aðrir Heimastjórnarmenn á þingi. Það hafði jeg þá sjerstaklega á móti málinu, að gert var ráð fyrir, að sumt af umræðunum væri prentað, en sumt ekki, og að þær væru stundum prentaðar og stundum ekki, og jafnvel, að umræðurnar væru alls ekki skrifaðar.

Meðmælendur frumvarpsins þá, fyrst og fremst Björn Jónsson, hjeldu því fram, að ástæða væri til að ljetta af kostnaðinum við prentun umræðupartsins, og jafnvel láta hætta að skrifa ræðurnar. Kostnaðinn við prentunina töldu þeir allmikinn, einar 9000 krónur, og væri rjett að spara þennan kostnað og gera eitthvað þarfara með fjeð. Skýrði Björn Jónsson frá því, að heyrst hefðu raddir almennings í þá átt, að rjettara væri að spara þennan kostnað, ein 5 eða 6 kjördæmi hefðu samþykt ályktun um að fella niður prentun umræðna, og áskoranir komið frá mörgum merk- um mönnum í þá átt. Hafði málinu verið hreyft hjer á þingmálafundi þann vetur, og síðan leitað hófanna meðal ýmsra nafnkendra manna út um land. Svörin flest á eina leið, að spara umræddan kostnað, og það gefið í skyn, að menn leituðu helst í Þingtíðindunum að skömmum.

Af mótstöðumönnum málsins var þá einkum haldið fram, að það hefði talsverða þýðingu fyrir sögu vora, að umræðurnar væru prentaðar, einnig til skýringar lögunum, og að kjósendurnir, þjóðin, ætti rjett á að fá að heyra, hvað gerðist hjer í þinginu, ætti í rauninni heimting á því, að missa ekki það færi, sem Þingtíðindin gefa, til þess að fá að vita, hvað í þinginu gerðist. Þótt allmikill meirihluti virtist vera málinu fylgjandi, náði það þó ekki fram að ganga.

Aftur var málið borið fram 1919, og þá af Einari Arnórssyni, aðalflutningsmanni, og 10 öðrum þm. Var ástæðan enn aðallega sú, að kostnaður við prentun væri mikill, of mikill í samanburði við gagnið við að fá umræðurnar prentaðar. Annars svipaðar ástæður með og móti. Gegn þeirri ástæðu, að þjóðin ætti heimting á að fá í Þingtíðindunum fregnir af þinginu, var það þá tekið fram, að það væri þá sennilega átt við sannar fregnir, en ræðurnar í Þingtíðindunum væru einatt nokkuð á annan veg en þær væru fluttar í þingsölunum. Þingtíðindin ættu að vera spegill þingsins, en væri spjespegill. Frv. var breytt í Nd., þannig, að fresta skyldi prentuninni, og þannig samþykt þar með 13 atkv. gegn 12, en felt í Ed. með 7:7 atkv.

Enn var borið fram frv. um að fella niður prentun umræðnanna á þingi 1922, af Einari Þorgilssyni og 10 öðrum þingmönnum. Frv. var endanlega samþykt í Nd. með talsverðum atkvæðamun, en felt við 3. umr. í Ed.

Það er sannast að segja, að í þessu máli hefir oltið á ýmsu fyrir allmörgum þm., bæði mjer og öðrum.

Fyrst, þegar tillagan kom fram um að fella niður prentunina á Þingtíðindunum, fanst mjer þetta afar athugavert, en eftir því sem jeg hefi farið að athuga þetta mál betur, hefi jeg komist að þeirri niðurstöðu, að Þingtíðindin sjeu ekki þess virði, umræðurnar, að rjett sje að verja til prentunar þeirra svo miklu, sem hún nú og í fyrirsjáanlegri framtíð kostar. Vegna sögu landsins hygg jeg þess þurfi ekki; það er gert ráð fyrir því að skrifa umræðurnar, og geyma þær í svo sem fjórum eintökum, eitt eintakið þá í Þjóðskjalasafninu, til afnota fyrir þá fáu, er athuga vilja þær fyrir sögu landsins. Til þess, að lögfræðingar eigi hægra með að skýra lögin, tel jeg ekki nauðsynlegt að prenta þær, því síður sem mjer finst oftast nær fremur lítið að græða á umræðunum í þessu efni, altaf minna og minna. Þar að auki altaf hægt að ná í eitthvert hinna skrifuðu eintaka, ef mikils þykir við þurfa. Þá er loks þessi ástæða, að þjóðin eigi heimtingu á að sjá umræðurnar prentaðar. Jeg efast um, að þjóðin kæri sig svo afarmikið um það nú orðið. Að minsta kosti bendir ekki á það kaupendatalan. Hún er nú aðeins tæpir 70, og 25 þar af í Reykjavík. Árið 1922 voru þeir 115, og þar af 25 í Reykjavík. Fækkaði því kaupendum, er verðið hækkaði.

Það er að vísu svo, að talsvert er sent út um land gefins af Þingtíðindunum. En yfirleitt er það venjan, að menn lesa minna þær bækur, sem þeir fá gefins, heldur en þær, sem þeir kaupa. Auðvitað er þetta misjafnt, og jeg skal játa, að Þingtíðindin eru sumstaðar lesin. Þó skal jeg leyfa mjer í þessu sambandi að geta þess, að einn hv. þm. sagði mjer fyrir skömmu, að hann hefði um 20 ára skeið verið hreppstjóri og oddviti, en aðeins 2 sinnum verið beðið um Þingtíðindin hjá sjer. Nú er mikið hægra en áður að fella niður prentun Þingtíðindanna, þegar af þeirri ástæðu, að blöð koma nú út daglega og geta þingmenn fengið þau til þess að flytja ræður sínar, ef þeim þykja þær þess verðar. Geri jeg ráð fyrir, að fáir þingmenn sjeu svo heillum horfnir, að þeir fái eigi inni hjá neinu blaði með ræður sínar. Annars tel jeg eigi nauðsynlegt að halda langa ræðu um þetta mál, heldur ætla jeg að fara svipað að og Sturla Þórðarson eftir fundinn við Hvítárbrú, er hann var beðinn um að inna mál sitt, þá kvaðst hann eigi inna nema eitt mál, en það var víg Snorra. Eins ætla jeg aðeins að geta þess eins, að með þessu máli eru sparaðar 20 þús. krónur.