08.03.1924
Efri deild: 14. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (1886)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skal þegar taka það fram, að jeg hefi altaf verið á móti þessu máli. Jeg get játað, að það sje rjett hjá hv. flm. (JM) hvað snertir sögulegar rannsóknir, að hægt sje að nota Þingtíðindin, þó þau sjeu ekki prentuð. Hvað snertir aðgang lögfræðinga að Þingtíðindunum, þá má vel vera, að þeir græði heldur lítið á þeim, en þó getur það komið fyrir. En fyrir mjer er hvorugt þetta aðalatriði þessa máls, heldur hitt, að ef hætt verður að prenta umræðupart Þingtíðindanna, þá er þar með þinginu lokað fyrir þjóðinni. Hún getur þá ekki lengur haft vitneskju um það, sem fram fer á Alþingi. Á móti þessu má segja það, að þjóðin noti lítið þennan rjett sinn, að lesa Alþingistíðindin. Hv. flm. nefndi sem dæmi þess, að einn þm. hefði verið hreppstjóri og oddviti í 20 ár, og hafi aðeins 2 sinnum þurft á Þingtíðindunum að halda. Þetta má vel vera. En mjer er sjálfum kunnugt um það, síðan jeg var sýslumaður í Skaftafellssýslu, að þar var um enga bók meira spurt en Þingtíðindin. Annars skiftir það mestu í þessu máli, að allir leiðandi menn í þessu landi þurfa að lesa Þingtíðindin, til þess að afla sjer þekkingar á því, sem gerst hefir í stjórnmálalífi þjóðarinnar; og til þess að skapast geti heilnæmt almenningsálit í þeim efnum, má eigi loka þinginu fyrir þjóðinni, eins og hjer er reynt að gera með frv. þessu. Almenningsálitið hefir mikla þýðingu hvað stjórnmálin snertir, en til þess að það verði reist á rjettum grundvelli, verður þjóðin að fá að vita hvað fulltrúar hennar segja á Alþingi. Það kom einu sinni fram till. um það á Alþingi, að atkvgr. skyldi þar leynileg um ýms stórmál. Jeg var á móti þeirri till. þá, af því að hún gekk í sömu átt sem þetta frv., sem sje að loka Alþingi fyrir þjóðinni. Það var einnig þá sagt, að til væru blöð, sem flyttu mönnum þingsöguna. Það er alveg rjett, blöðin voru til og eru það ennþá, en þau eru lokuð öðrum mönnum en þeim, sem að þeim standa. Það er undantekning, bæði hjer og erlendis, að blöðin minnist nokkuð á það, sem þeir menn gera, sem að engu blaði standa, — nema þá helst til þess að niðra þeim. Þeir menn, sem yfir engum blöðum ráða, standa því mjög illa að vígi í hinni pólitísku baráttu, ef prentun þingtíðindanna verður lögð niður. Jeg get hjer talað af reynslu. Jeg hefi nú verið forsætisráðherra í 2 ár, en þó ekki haft neitt blað við að styðjast. Það, að þjóðin veit, hvað jeg hefi viljað, á jeg því að þakka, að Þingtíðindin hafa verið prentuð. Þingtíðindin eru að þessu leyti dýrmætasta gullnáma, ekki einungis fyrir þjóðina heldur og fyrir þingmenn sjálfa. Og þó að prentun Þingtíðindanna hafi eigi mikla þýðingu fyrir söguritunina sjálfa, þá hefir hún þýðingu um það, hvaða saga verður sköpuð með þjóðinni. Er það að mínu viti alveg nauðsynlegt, eftir að kjósendum hefir verið veittur víðtækur rjettur til þess að ráða úrlausn stórra mála, að almenningur geti fylgst sem best með öllu því, sem gerist á því sviði, og að honum þannig sje gefið tækifæri til að mynda sjer sem óhlutdrægasta skoðun á mönnum og málefnum, en reisi eigi dóma sína í því efni á moldviðri misjafnlega vandaðra blaða. Þjóðin þarf að eiga sjer öruggan stað, þar sem hún getur leitað að sannleikanum um málefni sín. Með því að fella niður prentun Þingtíðindanna er Alþingi lokað fyrir þjóðinni, einnig að þessu leyti.

Mig langar til að beina þeirri spurningu til þessarar hv. deildar, og þá sjerstaklega til hv. flm., hvort það eigi sjer stað í nokkru öðru landi hins mentaða heims, að Þingtíðindi sjeu eigi prentuð. Mjer dettur eigi í hug að halda það, að hv. flm. hafi flutt þetta mál í því skyni að taka frá þjóðinni möguleikann til að fylgjast með fulltrúum sínum og stjórnmálastarfsemi, heldur aðeins í sparnaðarskyni. Jeg neita því ekki, að það er lofsvert að vilja spara, en jeg vil þó taka það fram aftur, sem jeg sagði í ræðu minni, er Ingólfslíkneskið á Arnarhólstúni var afhjúpað nú fyrir skömmu, að það er gömul þjóðtrú, að þegar slæðingur sje í kringum menn, þá eigi þeir ekki að hlaupa, heldur fara hægt. Eins er því farið nú með okkur Íslendinga, sem höfum skuldadraugana alt í kringum okkur, við eigum ekki að hlaupa, heldur athuga vandlega, hvað við erum að gera. Jeg tel það óheppilegt og rangt að spara með því að svifta þjóðina besta möguleikanum til þess að hún geti fylgst með því, sem fram fer á Alþingi. Það hefir oft viljað brenna við í þessari hv. deild, er slík mál sem þetta hafa fram komið, að þau hafa siglt hraðbyri fyrst í stað. Og oft hefir blásið byrlega fyrir þessu máli áður hjer á þingi, en reynslan er þó sú, að þegar liðið hefir á þingin og menn hafa haft tíma til þess að átta sig, þá hefir mikill meirihluti verið á móti því, og svo mun verða reyndin nú á þessu þingi. Það veit jeg.