08.03.1924
Efri deild: 14. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (1888)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Flm. (Jón Magnússon):

Jeg vil fyrst svara hæstv. forsrh. (SE) nokkrum orðum, enda þótt ræða hans gefi varla tilefni til mikilla orðalenginga, því að hann hjelt þar fram hinu sama og hann hefir áður gert í þessu máli og hinu sama, sem andstæðingar þess hafa yfirleitt haldið fram, hvenær sem það hefir verið rætt. Aðeins færði hann andmæli sín í fallegri búning en títt er. Sagði hann, að með því að hætta að prenta umræðupart Þingtíðindanna væri Alþingi lokað fyrir þjóðinni, og að það væri tilraun til að hindra það, að heilbrigt almenningsálit gæti skapast um þingið. Þetta eru orð, sem láta vel í eyrum, en það eru heldur ekkert nema orð. Því það, sem skapar almenningsálitið — því miður, má segja — eru blöðin. Hæstv. forsrh. (SE) segir það satt, að þau lita oft frásögn sína um störf þingsins, en sami litblær er einmitt oft yfir Þingtíðindunum, og enda er alþýða manna búin að drekka í sig frásögn blaðanna, þegar Þingtíðindin koma út, og fá þau því venjulega litlu um breytt, með því líka að svo sárafáir lesa Þingtíðindin, en margir blöðin. Þá fá menn og þingfrjettir á leiðarþingum og svo á margan annan hátt. Sem sagt, þjóðin fær allar þær þingfrjettir, sem nokkru skifta, að langmestu leyti utan Þingtíðindanna og langtum fyr en þau koma út. Ef nokkrir sakna Þingtíðindanna, mun það einkum vera vegna þess, að þeim gefst síður færi á að kasta framan í þm. hinu og þessu úr þeim.

Jeg sagði, að þeir þm. væru fremur fáir, sem eigi ættu kost á því að fá birtar í blöðum landsins þær ræður sínar, sem þeim þætti máli skifta, að kæmust fyrir augu alþjóðar. Og þegar hæstv. forsrh. (SE) segist ekki hafa ráðið yfir neinu blaði í 2 ár, þá verð jeg að draga það í efa, að þau hafi neitað honum að birta ræður hans. Það mun að vísu satt vera, að hann hafi engin blöð haft beint til umráða, en um leið verður að geta hins, að jeg minnist þess ekki, að blöð landsins hafi yfirleitt nokkurntíma verið eins vinsamleg í garð nokkurrar stjórnar og einmitt þetta tímabil, svo að jeg hygg, að hann hafi engu tapað og þurfi síst að kvarta.

Hæstv. forsrh. (SE) spurði, hvort jeg vissi til, að annarsstaðar væri hætt að prenta þingtíðindi, eða umræðupart þeirra. Jeg er þessu ekki vel kunnugur, nema hvað jeg veit, að þau eru ennþá gefin út á Norðurlöndum.

Hitt veit jeg, að nákvæmar og óhlutdrægar þingfrjettir koma í öllum helstu blöðum þessara þjóða, og munu því sjálf þingtíðindin ekki lesin nema af grúskurum. Að vísu er satt, að þar eru blöðin mun stærri en okkar blöð, en við verðum að sætta okkur við smæð okkar, jafnt í þessum efnum sem öðrum.

Hæstv. forsrh. (SE) sagði, að það væri gömul og góð regla að fara hægt, þegar slæðingur væri á ferðum. Jeg fæ ekki sjeð, að við höfum farið svo hart í þessu máli. Það hefir nú verið á döfinni öðru hvoru í 15 ár, og hefir þó ekki miðað betur áfram.

Ekki er heldur hægt að segja með neinum sanni, að með þessu frv. sje gripið til óþektra örþrifaráða. Jeg man ekki betur en að flestir hinna eldri hv. þm., sem nú eiga sæti á þingi, hafi einhvern tíma greitt atkvæði með þessu máli, — og sumir ýmist með eða móti.

Jeg skal ekkert um það segja, hvort frv. þetta kemst í gegnum hv. Ed. Er mjög örðugt að spá líklega um afdrif svona mála. En reynslan hefir sýnt, að það hefir oftast fengið meirihl. í hv. Nd., og stundum jafnvel alls þingsins, enda þótt það hafi ekki sloppið enn í gegn.

Jeg get látið það, sem jeg nú hefi sagt, nægja til andmæla hæstv. forsrh. (SE).

Þá vil jeg svara hv. 5. landsk. (JJ) nokkru, enda þótt ræða hans hafi mátt heita býsna óþörf, þar sem hann andmælti í engu málinu sjálfu öðru en því, sem hæstv. forsrh. (SE) hafði áður gert. En ræðan hefir sjálfsagt verið tilbúin og hv. þm. þurft að koma henni frá, því annars er ekki gott að vita, nema hann hefði sprungið.

Það var svo sem auðvitað mál, að hv. þm. brygði ekki vanda sínum, heldur kæmi með ástæðulausar getsakir í garð þeirra manna, sem mál þetta hafa borið fram á ýmsum tímum. Fyrst tók hann fyrir Björn sál. Jónsson ritstjóra, og kvað honum hafa gengið til prentsmiðjudeila, að hann vildi láta fella niður prentun umræðupartsins. (JJ: Það var sannleikur). Nei, það er bara „Tíma“-sannleikur. Jeg held, að það sje alveg ranglega borið á þetta látna mikilmenni. Og hvernig gat prentsmiðjustyrjöld gefið honum tilefni til þess, löngu fyrir þing, að spyrjast fyrir um það, meðal ýmissa merkustu manna þjóðarinnar um land alt, hvort þeir álitu umræðupart Þingtíðindanna svo mikils virði, að eigi mætti hætta að gefa hann út. Þó að hv. 5. landsk. (JJ) hafi verið flokksmaður Björns Jónssonar (JJ: Nei.) — og þykist því máli þessu kunnugur, þá verð jeg samt að mótmæla þessum áburði. Svo vel þekti jeg Björn sál., enda þótt við værum alt af pólitískir andstæðingar. En ekki veit jeg, hvernig á því hefir staðið, að mál þetta hefir ekki komist í gegnum þingið. Hygg jeg þó, að nokkru hafi um ráðið, að menn hafa ekki viljað taka verkið af prentsmiðjunum. Vill oft verða svo, að umtölur einstakra manna hafa áhrif á úrslit mála á þingi.

Þá kom hv. þm. (JJ) að Einari Arnórssyni og gaf þær upplýsingar, að honum hafi eingöngu gengið illar hvatir til, að hann barðist fyrir því að fella niður prentun umræðupartsins. Sagði hann (JJ), að Einar hafi ekki þorað að láta afskifti sín af þingmálum koma fyrir augu almennings.

Það hefir oft verið talað um, að þær væru fremur ógeðslegar, þessar sífeldu getgátur um fjarverandi menn. Þetta, að vera alt af að gera mönnum upp illar hvatir að ástæðulausu, því að alt er þetta gripið úr lausu lofti. Jeg veit ekki til, að framkoma þessa manns, Einars Arnórssonar, hjer á þingi, hafi verið nokkurntíma á þann hátt, að hann hafi þurft að fela hana. Þvert á móti. (JJ: En orðheldni hans við fyrri undirskrift sína?) Mjer er ómögulegt að vaða með hv. þm. (JJ) um alla heima og geima. Jeg verð að láta mjer nægja að taka það blátt áfram fram, að jeg man ekki eftir neinu því í þingsögu Einars Arnórssonar, sem hann þarf að skammast sín fyrir. Væri gott, ef hægt væri að segja hið sama um hv. 5. landsk. (JJ).

Annars á hjer ekki við að ræða um Einar Arnórsson. Hv. 5. landsk. (JJ) tók sig til hjer á árunum og ritaði um hann hið ógeðslegasta rit, sem sögur fara af hjer á landi. Mun svo hafa verið til ætlast, að rit þetta riði Einari að fullu, en jeg býst við, að áhrifin hafi orðið öfug, sem betur fór.

En jeg verð að segja, að þegar hv. 5. landsk. er að dæma alla þá, sem stutt hafa mál þetta, fyr og síðar, þá heggur hann nokkuð nærri sínum eigin flokksbræðrum, því að þeir hafa, sumir hverjir, greitt því atkvæði á fyrri þingum. (JJ: Hverjir?) Jeg get nefnt til dæmis þá hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) og hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ). Jeg veit ekki, í hvaða tilgangi þeir hafa greitt málinu atkv. sitt, en hann mun víst ekki vera fagur, eftir kenningu hv. 5. landsk.

Þá sagði hv. þm. (JJ), að Einar Þorgilsson, sem var aðalflm. máls þessa síðast, þegar það var hjer til umr., hafi ekki verið mikilsvirði og því viljað fela sig fyrir eftirtímanum. Þetta er dómur háttv. 5. landsk. þm., en ekki annara; órökstuddur dómur hans, og rangur eins og vant er. En Einar Þorgilsson var ekki einn flm. málsins. Þeir voru 10 talsins og þar á meðal ýmsir, sem nú prýða flokk hv. 5. landsk. þm. Verður því að dæma þá alla jafnt. Enginn þeirra hefir víst þorað að líta framan í eftirtímann, eins og hv. þm. (JJ) komst að orði. Nei, þegar hv. þm. telur okkur frv. þetta til minkunar, þá knjesetur hann mjög marga fleiri þingmenn, sem setið hafa á þingi síðustu árin, og meðal þeirra afarmarga, sem honum hefir þótt til koma.

Hv. þm. (JJ) þótti eitthvað bogið við útreikninginn á sparnaðinum, sem af frv. hlytist. Jeg hefi áður getið þess, að það er ágiskun. Er ómögulegt að segja, hvernig kostnaðurinn verður í næstu framtíð. Árið 1922 var kostnaðurinn um 18 þús. kr., fyrir utan pappír, en 1923 hljóp hann yfir 32 þús. kr. Að vísu var þingið 1922 óvenju stutt, en þó mun þingið 1923 ekki hafa staðið nema ½ mán. lengur, þegar þess er gætt, að það tók í seinna lagi til verulegra starfa vegna þess, að þingmenn voru ekki allir komnir til þings þegar í upphafi. Að Þingtíðindin 1923 hafa bólgnað svo mjög, mun að ekki svo litlu leyti koma af því, að þá kom þessi hv. þm. (JJ) fyrst til þings. Því að ekki er nóg með það, að hann heldur sjálfur alveg ódæma langar ræður, heldur gefur hann öðrum tilefni til að tala meira en ella, því að ekki er alt af rjett að ganga framhjá ómótmæltu, öllu því, er hann segir. Nú býst jeg við, að hann sitji á þingi til ársins 1930, og verður því a. m. k. að hætta að prenta umr. þingsins til þess tíma, því að enginn ríkissjóður endist til lengdar til að bera kostnaðinn af öllu málæði þessa hv. þm.

Hv. þm. (JJ) kvartaði um, að blöðin væru ekki áreiðanleg. Jeg skal fúslega viðurkenna það, að þau eru mjög bág sum. (JJ: Sjerstaklega þó Moggi). Hv. þm. (JJ) hefir eigi ástæðu til að segja slíkt um Morgunblaðið, því að það er blaða frjálslyndast og sanngjarnast, og ræðir einatt málin frá öllum hliðum. Öðru máli er að gegna um Tímann. Það blað getur bókstaflega aldrei sagt öðru vísi en ósatt um mótstöðumenn sína og rangfærir alt, er þeim viðkemur. Annars er hv. 5. landsk. vel settur til þess að afflytja mótstöðumenn sína. Hann hefir stórt og útbreitt blað, en honum þykir þetta ekki nóg. Hans yndi og eftirlæti er að ausa auri á sjer betri menn og drita á leiði látinna mikilmenna. Og hann hefir ekki nægilegt rúm í Tímanum til þess arna, heldur þarf hann að hafa Þingtíðindin líka. En alveg varð jeg hissa, þegar hv. þm. fór að koma með Björn sáluga Jónsson inn í þessar deilur, og svo spyr þm., hvernig við, flm. þessa máls, förum að líta framan í þjóðina eftir þetta. En jeg vil spyrja: Hvernig lítur þjóðin á mann eins og Björn Jónsson? Það eru víst allir sammála um, að hann hafi verið mikilmenni. En þó leyfir hv. þm. sjer, þetta peð, að fara að knjesetja Björn Jónsson, sem gnæfir svo hátt yfir hann eins og himinhátt fjall yfir hundaþúfu.

Hv. þm. spyr mig ennfremur, hvernig jeg fari að bera fram svona mál; jeg, sem hafi eytt 600 þús. kr. í veisluhöld.

Það er eins og vant er. Þm. er alt af að hampa þessu, hvar sem er, bæði á fundum og í blöðum og á þingi. Jeg veit, að þetta var mikill kostnaður, en það var vitanlega ekki frekar jeg, sem rjeð þessu, en aðrir í stjórninni, og forsetar Alþingis, sem allir í sameiningu kusu nefnd til að sjá um móttöku konungs. Mjer þykir að vísu æra í því, að hv. þm. skuli kenna mjer þetta einum, því að það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo, að hann telji mig svo mikinn mann, að jeg hljóti að ráða öllu, þar sem jeg á annað borð er með.

En mjer dettur ekki í hug að deila frekar við hann um þetta; mjög ógeðslegt að deila um slíkt, enda ólíkt hinu gestrisna íslenska lundarfari að vera að sjá eftir, þótt nokkuð fari til risnu. En þess er raunar að gæta, að hv. þm. er í mörgu mjög óíslenskur.

En þó svo, að þetta væri nú alt saman mjer að kenna, sem ekki er, frekar en það, að mjer sje um að kenna, að stríðið byrjaði, og það, sem af því leiddi fyrir oss. En þó svo væri, þá yrði samt að taka hlutina eins og þeir eru. Ef nú er þörf á að spara, af hvaða orsökum, sem það er, þá er sjálfsagt að spara það, sem sparað verður.

Þá mintist hv. þm. (JJ) á krossana og kostnaðinn við þá. Það er nú eitt atriðið, sem hv. þm. er alt af að tyggjast á og saka mig um. En jeg var nú svo heppinn um daginn að rekast á atkvæðagreiðsluna um þetta mál í þinginu. Jeg hefi blaðið að vísu ekki með mjer nú, en jeg gæti síðar sýnt hv. þm. það, ef hann vildi, og gæti hann þá sjeð, hversu margir af hans flokksmönnum voru þessu samþykkir. Og um leið getur hann þá sjeð, að það var ekki jeg einn, sem ákvað þetta, heldur þingið alt. Og úr því að einu sinni var búið að stofna orðuna, þá var ekki hægt að búa krossana til fyrir ekki neitt, nema því að eins, að þeir, sem áttu að fá þá, hefðu verið látnir borga. (JJ: Það er gert sumstaðar erlendis). Það getur verið, og það hefði kanske mátt, en bæði er, að það er, að mjer finst, hálfleiðinlegt, og svo datt okkur, sem í stjórninni vorum, ekki sá búhnykkur í hug.

En svo sýnir það brjóstheilindi hv. þm., að hann hamast eins og hann sje að verða vitlaus, ef jeg fæ kross, en þegir eins og steinn, þegar hans eigin stjórn krækir í krossa. (JJ: Ekki satt; það hefir verið talað um það í Tímanum). Það er víst ósatt. Að minsta kosti hefir sama sem ekkert verið um þetta talað, er hans stjórn hefir átt í hlut.

Þá er það þetta með Mælifellshúsið. Það er satt, að húsið var dýrt, en það vildi svo til, að gamla húsið brann, og það varð einhvernveginn að hjálpa.

Annars finst mjer mjög heimskulegt að blanda slíku inn í umræður um þetta mál. En það er eins og vant er með þennan hv. þm. Hann þarf að fara út í alla skapaða hluti og blanda öllu saman, svo mjer dettur í hug vísan um gamla Satan:

Satan vítt

veður títt, o. s. frv.

Svo á það, að hætta að prenta Þingtíðindin, að verða til þess að skapa óheilbrigt pólitískt líf í landinu. Að þm. skuli koma með þvílíka vitleysu! En það gæti verið mikilsvert að finna ráð gegn blöðunum. Það er víða kvartað undan blöðunum, en það hefir þó ábyggilega ekkert blað spilt þjóðinni eins og Tíminn hefir gert nú á síðari árum.

Það er leiðinlegt að þurfa að fara út í atriði, sem liggja fyrir utan málið, en hjá því verður ekki komist, því þm. veður um alla heima og geima, en þó tekur út yfir, þegar hann þarf að fara að halda ræðu um stjórnarskrárbreytingar í sambandi við þetta mál; mál, sem þó verður rætt um bráðlega, svo það virðist óþarft að fara út í það núna. Og mjer finst sannarlega, að það hljóti að vera óheilbrigður heili, sem getur sett prentun Þingtíðindanna í samband við fækkun ráðherra og lenging kjörtímabilsins.

Og svo á það, að lengja kjörtímabilið og gjöra það eins og það var hjer á landi fyrir 1915, það á að verða til þess að skapa pólitíska spillingu í landinu. Jeg er svo undrandi yfir þessari staðhæfing hv. þm. (JJ), að jeg á ekki nokkurt orð til, og skal líka alls ekki svara því, því að það er ekki svaravert.

Að því er verð Þingtíðindanna úti um land snertir, þá er það rjett, að það er 10 kr., þar í innifalið flutningsgjald.

Hvað gangi málsins annars viðvíkur, þá býst jeg við, að málið fari í gegnum hv. deild, því jeg býst við, að við flm. þess stöndum jafnupprjettir, þrátt fyrir orð hv. 5. landsk. En hvernig því kann að lykta í hv. Nd., veit jeg auðvitað ekki.