08.03.1924
Efri deild: 14. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (1892)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Jónas Jónsson:

Háttv. 4. landsk. þm. (JM) gleymdi að taka það fram í ummælum sínum um ritstjóra Lögrjettu, að nú hefir honum verið sagt upp, af því hann þykir ekki nógu deilugjarn við Framsóknarflokkinn. En meðan hv. 4. landsk. þm. var riðinn við blaðið, var það mjög ósanngjarnt, og var það ekki ritstjóranum að kenna, heldur eigendunum, sem eins og nú með Morgunblaðið þykir aldrei nóg af persónulegum árásum um andstæðingana. Dugir hv. þm. (JM) ekki að vera með neinn Pílatusarþvott í sambandi við Björn Jónsson. Hv. 4. landsk. þm. stóð altaf framarlega í flokki þeim, sem ofsótti hann.

Ekki þýðir háttv. þm. að vera að draga inn seglin í eyðsluseminni og þykjast sparnaðarmaður. Það vita allir, að hann hefir staðið fyrir bruðlun þeirri, er fjárhagshruninu veldur. Fjárhagur landsins hefir komist í það hörmungarástand, sem nú ríkir, á árunum frá 1916–1922, þegar hv. 4. landsk. þm. var stjórnarformaður. 1919 voru með hans ráði sett launalög og embættum fjölgað stórkostlega. En svo kom enska lánið vegna braskaranna í kaupstöðunum, 600 þús. í veislur o. s. frv. Alt þetta eru hans góðu gerningar.

Misminni er það hjá háttv. þm., er hann kveður hæstarjettarfrv. sitt lánað frá sparnaðarnefndinni 1922. Hún lánaði það frá Tímanum, var þar fyrst skrifað um það mál nokkru áður, og gerði jeg það.

Háttv. þm. var að sverja fyrir öll blöð, en vitanlegt er, að hann er studdur af eitthvað 10 blöðum Íhaldsflokksins, sem altaf hafa vopn á lofti fyrir hann, og má mikið vera, ef ekkert kemur á móti frá hans hálfu. Og altaf barðist Austanfari fyrir flokksmann hans, hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), fyrir utan það, sem ritstjórinn sagði um mig og aðra Framsóknarmenn til að gleðja „launföður“ blaðsins.

Það eru gömul ósannindi, að brennivínsgróðinn sje 800 000 kr. Er þar altaf flaggað með eins árs tekjum, eins og þær voru áætlaðar það ár, sem gerð voru upptæk nokkur skip, sem smygluðu. Og alt annað virtist það vera að eyða þeim gróða til mentunar þjóðinni, vísinda og lista en í óþarfar veislur, einkum þegar þær eru aðeins þeim til leiðinda, sem þær eru haldnar fyrir. Annars væri gaman að fá skýrslu frá hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), sem er í fjárveitinganefnd og hefir væntanlega yfirlit um hag verslunarinnar, hve mikill gróðinn er. Skilst mjer, að síðastliðið ár hafi aðeins komið örlítið inn fyrir spönsku vínin.

Seinast vill háttv. þm. (JM), auk þess að skera niður Þingtíðindin, neyða hæstv. forseta (HSteins) til að hindra mig frá umræðum, af því að jeg fari út fyrir málið. En hver hafi byrjað á því að fara út fyrir efnið, sjest greinilega á Þingtíðindunum í fyrra, er fyrirspurn mín um utanfarir ráðherra kom fram. Tók þá hv. 4. landsk. hvern slaginn á fætur öðrum út um alla heima og geima.

Sannsögli hv. 4. landsk. sjest vel á hinum frægu Claessenslaunum. Hann kveðst hafa ákveðið sjálfur 20 þús., en bankaráðið hitt — en þar á hann sjálfur sæti og var formaður bankaráðsins og rjeði bæði launum sem ráðherra og uppbótum sem bankaráðsmaður. Sjálfur samdi hann og við þennan bankastjóra. Laun landsbankastjóranna eru ekki nema rúmur helmingur á við laun Claessens. Þótti mjer og öðrum þm. í fyrra leitt, að forstöðumenn þjóðbankans væru minna en hálfdrættingar á við trúnaðarmenn útlendu hluthafanna. Átti það sjerstaklega illa við, þar sem Landsbankinn hefir undir stjórn þessara manna verið hjálparhella þjóðarinnar um öll fjármál. En sama verður varla sagt um hlutabankann.

Hv. 6. landsk. (IHB) talar svo undarlegt mál, að það vekur eftirtekt hjer í deildinni. Ef til vill hefir hún reynt að komast í „kallfæri” við einhverja menn, fyr eða síðar, en jeg hefi aldrei reynt að komast í slíkt færi við þennan hv. þingmann. Annars má hún ekki kippa sjer upp við það, þótt hún þurfi að standa fyrir máli sínu, úr því hún ljet velja sig til þings. Konur hafa nú jafnrjetti, og sú kona, sem gengur út í baráttu stjórnmálalífsins, hefir þar sömu skyldur og rjettindi eins og karlmenn, en engin sjerrjettindi. Atkvæði konu, sem er greitt til að hlynna að víndrykkjumöguleikum í landinu eða til að hindra aukna mentun kvenþjóðarinnar, er jafnþungt á metunum eins og atkvæði karlmannanna. Þessvegna standa allir þingmenn jafnt til reikningsskila fyrir dómi þjóðarinnar. Hv. 6. landsk. var kosin á sjerstökum flokkslista. Ýmsar konur gerðu sjer von um, að hún mundi bæta „tóninn“ í þinginu, standa utan og ofan við flokkadeilur, væntanlega geta fylgt málefnum fremur en mönnum. En hver hefir orðið raunin á? Háttv. 6. landsk. hefir gleymt kynsystrum sínum og áhugamálum þeirra, en elt Íhaldsflokkinn, og þó einkum hv. 4. landsk. (JM) út á allar hans pólitísku villigötur.

En það má hv. 6. landsk. vita, að kunnugt mun þjóðinni um, hversu sjálfstæð sannfæring hennar er, því jeg hefi við margar atkvæðagreiðslur gert háttv. 6. landsk. þann grikk að biðja um nafnakall, svo sjást mætti, hversu leiðitöm hún er sessunaut sínum og forsjármanni í landsmálum, hv. 4. landsk.