17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (1898)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Frsm. minnihl. (Jónas Jónsson):

Við 1. umr. þessa máls stóð nokkur deila um það, hverjar ástæður hefðu legið til þess, að mál þetta kom fyrst fram á þingi 1909. Vil jeg leyfa mjer að koma hjer fram með nokkrar skýringar á því atriði, sem mjer voru eigi kunnar þá, en jeg nú hefi aflað mjer.

Eins og hv. deild er kunnugt, var það Björn heitinn Jónsson, sem flutti málið á þingi 1909. Jeg sagði við 1. umr., að því hefði að nokkru valdið prentsmiðjustyrjöld. Var þessu mótmælt af einum háttv. þm. Skal jeg því leyfa mjer að gera nánari grein fyrir fullyrðing minni. Frá 1885 til 1903 hafði Ísafoldarprentsmiðja haft á hendi prentun Alþingistíðindanna, ef ekki að öllu leyti, þá að miklum hluta. 1905 og 1907, á þeim árum, er Heimastjórnin ríkti hjer á landi, var Ísafoldarprentsmiðja svift þessari atvinnu við prentun tíðindanna, en Gutenberg fengin hún í hendur. Þegar nú flm. málsins 1909 var eigandi þess fyrirtækis, sem þannig var svift þessari atvinnu, þá er eigi óskiljanleg óánægja hans, nje það, að einmitt hann verði til þess að flytja fram þetta mál.

Viðvíkjandi ræðu hv. 1. þm. Rang. (EP) skal jeg leyfa mjer að færa fram mótsögn, sem verður æðiþung á metunum í máli þessu, sem sje skoðun háttv. 4. landsk. (JM) á því 1909, en hann var þá, sem kunnugt er, þm. Vestmannaeyja. Háttv. þm. var þá mjög eindregið á móti því að fella niður prentímana; og þó að jeg sje ekki altaf sammála þessum hv. þm., þá er jeg í öllum atriðum samþykkur skoðun hans um mál þetta 1909. Vona jeg, að hæstv. forseti leyfi mjer að lesa upp fáeinar línur úr ræðu hv. þm. (JM) um þetta mál 1909, sem er svar við ræðu Björns Jónssonar. Talsmaður minn segir meðal annars:

„Það er að vísu lofsvert og fagurt að spara landsfje, en slíkur sparnaður og hjer ræðir um er ekki rjettmætur.“

Litlu síðar undirstrikar hann þá miklu þýðingu, sem Þingtíðindin hafi fyrir sögu landsins. Um það kemst hann svo að orði:

„Fyrir sögu landsins hefir það mikla þýðing, að umræðurnar á Alþingi sjeu prentaðar; því verður alls eigi neitað, vjer værum nú miklum mun ófróðari um sögu landsins síðan um 1850, ef við hefðum ekki Alþt. Fyrir hvern þann, er rannsaka vill sögu landsins eftir þann tíma, eru Þingtíðindin, ekki síst umræðuparturinn, óþrjótandi auðsuppspretta. Það má máske segja, að fyrir sagnfræðingana nægi, að umræðurnar sjeu skrifaðar og geymist í handriti, en fyrst er nú það, að slíkt handrit er ekki svo vel aðgengilegt fyrir marga, og svo er hitt, að þá sparaðist ekki borgunin til ritaranna. Og að segja það, að blöðin gætu flutt tíðindin af þinginu, það er ekki til neins, því að það er vitanlegt, að blöð vor eru eigi fær um, enn sem komið er, að flytja nema mjög ófullkomnar frjettir af þingi, svo að segja með höppum og glöppum.“

Og hvað lögfræðingana snertir, þá segir ræðumaður ennfremur:

„Við skýringar þeirra laga, er frá þinginu koma, er það mjög mikilsvarðandi að hafa Þingtíðindin, ekki síður oft og einatt umræðurnar en skjölin; það vita allir þeir, er nokkuð hafa þurft að eiga við lögskýringar.“

Ennfremur segir hv. ræðumaður:

„Jeg tel það afturför, ef hætt yrði að prenta Alþt., þótt ekki væri nema fyrir þá sök, að þau eru mörgum til fróðleiks og skemtunar. — — — “

Og enn bætir ræðumaður við:

„Þjóðin á rjett á að sjá, hvað hjer gerist, enda þótt fáir lesi mikið af því.“

Þetta eru aðalatriðin í ræðu háttv. 4. landsk. (JM), þá þm. Vestm. Þó vil jeg leyfa mjer að lesa upp ennþá einn kafla úr ræðu hans, þar sem hann kemst svo að orði:

„Á hinn bóginn virðast menn hafa lagt ótrúlega mikið kapp á þetta; það hafa verið gerð afbrigði frá þingsköpunum til þess að koma þessu máli á dagskrá í dag. Mætti ætla, að hjer lægi eitthvað það á bak við — ef til vill — er ekki er gert opinskátt.“

Nú urðu miklar umræður um þetta mál, og til þess að sanna, að jeg hafi eigi á röngu að standa, ef jeg segi, að á bak við málið hafi legið prentsmiðjustyrjöld, þá skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp lítið eitt úr ræðu Björns Jónssonar. Hann segir í svarræðu sinni til þm. Vestm. þáverandi (JM):

„Að öðru leyti vil jeg vísa frá mjer þeim aðdróttunum háttv. þm. Vestm. (JM), að hjer liggi eitthvað á bak við annað en málið sjálft.“

Og síðar, í annari ræðu, segir sami ræðumaður:

Háttv. 1. þm. Rvk. (Jón Þorkelsson) beindi þeirri spurningu til háttv. forseta, hvort búið væri að lofa annari prentsmiðju prentun á umræðuparti Þingtíðindanna. Mjer kemur ekki við að svara því; en jeg leyfi mjer að mótmæla því, að það sje gert, án þess að spyrja aðrar prentsmiðjur um það, hvort þær fáist til að gera verkið fyrir minna verð. Á síðasta þingi var prentunin falin einni prentsmiðju, án þess að aðrar fengju tækifæri til þess að bjóða í hana. Jeg þykist vita, að það hafi verið gert, ekki af því að þingforsetarnir þá hafi verið hluthafar í þeirri prentsmiðju, svo sem jeg hefi heyrt fullyrt, en sel ekki dýrara en eg keypti.“

Kemur í þessum orðum ræðumanns skýrt fram, hvernig á því stóð, að máli þessu var hreyft þá á þinginu.

Þá segir þáverandi þm. Vestm. (JM) í einni ræðu sinni um þetta sama mál þessi hárrjettu og eftirtektarverðu orð:

„Fyrir mjer er það mikilsvert, að það, sem gerist hjer á Alþingi, verði alþjóð kunnugt. Mjer finst það undarlegt, ef hjer á að ríkja þingræði og þjóðræði, að gera kjósendum ómögulegt að kynna sjer framkomu þingmanna sinna á Alþingi. Því er heldur ekki hægt að neita, að margur hefir fengið mikinn „pólitískan“ fróðleik úr Alþingistíðindunum, og við gerum alt of lítið úr þm., ef það er alt einskisvert, sem þeir segja. Hjer á Alþingi eru þó saman komnir alla jafna þeir menn, er eigi eru sístir meðal þjóðarinnar, og oft hafa þar verið bestu menn hennar.“

Þá kemur enn pukursmálið inn í umræðurnar í ræðu Jóns Ólafssonar. Hann segir meðal annars:

„Jeg er samþykkur háttv. flutnm. um það, að óviðurkvæmilegt sje að laumast til að prenta Þingtíðindin í kyrþey, án þess að öðrum prentsmiðjum sje gefinn kostur á að bjóða í prentunina. En því kynlegra er, ef satt er, að hv. þm. Barð. (B. J.) skuli sjálfur hafa laumast til í kyrþey að taka undir sig prentun skjalapartsins. Annars vil jeg ekki fara nánara út í þetta atvinnuspursmál, því að það er, eins og jeg tók fram áðan, málinu alveg óviðkomandi.“

Þarna kemur enn skýrar fram en áður, hvernig á máli þessu stóð 1909. — Og að lokum segir þáverandi þm. Seyðf. (JóhJóh), sá hinn sami hv. þm., er nú situr í þessari hv. deild fyrir sama kjördæmi:

„Hinsvegar hefir hann sjálfur (þ. e. B. J.) í dag komið fram með aðdróttun um það, að forsetar síðasta þings hefðu einmitt í þessum efnum misbeitt valdi sínu, og úr annari átt er gefið í skyn, að jafnvel einnig núverandi forsetar hafi eigi farið sem best með þetta vald sitt. Þetta gerir mig, sem fylgdi frumv. við 1. umr., nokkuð hikandi í máli þessu, því jeg vil ekki auka vald forsetanna til þess, að enn meiri misbeiting geti átt sjer stað.“

Jeg vil ennþá einu sinni undirstrika það, að 1909 hefir hv. núverandi aðalflm. frv. fært fram allar þær ástæður, sem fyrir því eru, að sjálfsagt er á öllum tímum að prenta Alþingistíðindin. Endirinn varð sá á málinu 1909, að það náði ekki fram að ganga, og jeg þykist vita, að svo fari einnig nú. Jeg býst við, að hv. flm. sje svo minnugur á fyrri rök sín í máli þessu, og að hann gangi eigi á móti þeim nú, sjerstaklega þar sem rök hans nú eru mjög veigalítil. Jeg skal benda á það, að eina skynsamlega ástæða hv. flm. fyrir því að vera á móti prentun Alþt. væri sú, að honum fyndist Alþt. ekki auka veg sinn í augum þjóðarinnar. Það er ekki nema eðlilegt, að þeim, sem skifta algerlega um skoðun í hinum helstu þjóðmálum, þyki það leiðinlegt og óþægilegt, að slíkt skuli vera prentað og hægt er að sanna með upplestri, eins og jeg nú hefi gert, algerð skoðanaskifti þeirra.

Hv. 6. landsk. (IHB) vjek að einu atriði í ræðu sinni, er stendur í nánu sambandi við prentun Alþt. Hv. þm. hafði sem sje orðið fyrir vantrausti norðlenskra kvenna út af afskiftum sínum af máli einu hjer á þingi í fyrra. Kemur þetta vantraust til af því, að landslýður vissi, vegna Alþt., hvað hjer gerðist á þinginu. Og þegar það frjettist, að hv. þm. hafði lagst á móti húsmæðraskólamálinu, þá þótti kvenþjóðinni það svo óskynsamlegt, að hún gaf hv. þm. þetta vantraust.

Fyrir þá þingmenn, sem komast í mótsögn við sjálfa sig, er það óneitanlega þægilegt, að Þingt. sjeu eigi prentuð. Vona jeg, að þó að frv. verði samþ. hér í þessari hv. deild, þá verði það felt með miklum meirihl. í hv. Nd. Málið er í eðli sínu hið sama og 1909, og það var rækilega tekið fram þá af þáverandi þm. Vestm. (JM), núverandi hv. 4. landsk., að sparnaðurinn við að fella niður prentunina verður aldrei svo mikill, að óhagnaðurinn við það vegi eigi upp á móti honum. Og lítið finst mjer samræmi í því, að sömu menn, sem fyrir fáum dögum feldu frá nefnd frv., er gekk í þá átt að sameina tvö embætti, menn, sem hafa svæft í nefnd till. um að skipa sparnaðarnefnd, — að þeir sömu menn skuli nú standa sem einn maður að þessu frv. Bæði frammistaða hv. flm. í sparnaðarmálunum og rök hv. 4. landsk. (JM) 1909, sem enn þá eru í gildi, sanna það, að það á að halda áfram að prenta Alþt.