17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (1901)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Sigurður Jónsson:

Háttv. 4. landsk. kveðst hafa talað við mann á Suðurlandi, sem fengið hafi Þingtíðindin, og hafi sá hinn sami verið beðinn um þau að láni að eins einu sinni á 20 árum. Jeg veit ekki, hvað háttv. þm. hefir viljað sanna með þessu. Jeg hefi haft Þingtíðindin undir höndum í yfir 30 ár, og hefir eftirspurnin eftir þeim verið mjög mikil og þau mikið lesin.

Talað hefir verið um skrifuð eintök fyrir þingið sjerstaklega, og býst jeg ekki við, að þau verði kostnaðarlaus, og varla mun almenningur fá aðgang að þeim. Háttv. frsm. gat um, að Þingtíðindin væru lítið keypt. Má vera. En taka verður tillit til þess, hve mörg eintök eru send út og lesin á þann hátt. Og fyrst og fremst lesa þeir þau, sem mestan áhuga hafa á stjórnmálunum og mest áhrif hafa í þeim málum innan síns kjördæmis.

Talað er um, að sparnaðurinn, sem yrði með því að fella niður prentun umræðupartsins, sje nálægt 20 þús. kr. Þetta er mjög óviss upphæð. Á síðasta þingi, þegar mál þetta var þar til umræðu, var talað um, að þetta næmi um 15 þús. kr. Finst mjer, að nánari greinargerð hefði þurft að fylgja frv. Þótt jeg vilji fylgja þeim að málum, sem vilja spara, þá finst mjer, eins og nú horfir við, að þessi sparnaður sje ekki þess virði, sem hann yrði keyptur fyrir.