17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (1902)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg ætla ekki að verða langorð að þessu sinni. Jeg var ein af átta, sem frv. þetta flutti. Hefir háttv. 5. landsk. (JJ) beint því til mín, að jeg myndi vera meðal þeirra, sem kæmi betur, að Þingtíðindin væru ekki prentuð. Hann vitnaði, máli sínu til stuðnings, til ummæla í ársriti norðlenskra kvenna (Hlín), þar sem lýst sje yfir óánægju yfir framkomu fulltrúa kvenna á þingi 1923, sökum þess, að hann hafi verið því mótfallinn, að Staðarfellsskólanum yrði komið á fót þá þegar. Vitanlega án alls undirbúnings! En hvað gerir það svo sem til? Og ennfremur vegna þess, að kvenfulltrúinn hafi greitt atkv. með undanþágunni frá bannlögunum. Þetta eru nú syndir mínar í þessu falli. En þótt mjer sje borið þetta á brýn, get jeg tekið því með stillingu. Og vil jeg taka það fram, að þótt jeg ætti kost á að greiða atkv. á ný um þessi mál, þá mundi jeg gera það á sama veg og áður.

Síðastliðið sumar, á landsfundi kvenna hjer í Reykjavík, hafði jeg tækifæri til þess að skýra frá afstöðu minni í Staðarfellsskólamálinu og framkomu minni í því á þingi. Rakti jeg þar á fjölmennum fundi í Bárubúð allan gang þessa máls, og virtist fundarkonum það þá fyllilega ljóst, að ekki var hægt að hrapa að jafnmikilsverðu máli undirbúningslaust.

Síðan hefir ekkert gerst í þessu máli. Viðvíkjandi atkvgr. um undanþáguna frá bannlögunum vil jeg geta þess, að jeg varð þá, eins og svo margir góðir og gildir bannmenn í þinginu, að beygja mig fyrir nauðsyninni. Fann enga hvöt hjá mjer til þess að skerast úr leik eingöngu í því augnamiði að látast. Í Nd. greiddi aðeins einn maður atkv. á móti undanþágunni og í Ed. ekki heldur nema einn. Fann jeg eigi, að vegur minn myndi á neinn hátt vaxa, þótt jeg hefði greitt atkv. öðruvísi en jeg gerði. — Álít jeg, að ásökununum í minn garð sje þar með svarað.