17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (1903)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Guðmundur Ólafsson:

Manni verður oft á að taka til máls, þegar margir tala.

Þar eð meira en helmingur þessarar háttv. deildar er flytjandi þessa frv., er auðsætt, að örlög þess eru fyrirfram ákveðin. Var því óþarfi að eyða öðrum tíma í það en til nefndarstarfa og atkvgr. Mig undrar, að flm. frv. skuli eigi sjá, að því lengri sem umræðurnar verða, því betur kemur í ljós, hve frv. þetta er fráleitt, og því stærri og dýrari verða Þingtíðindin. Vita allir, að langar umr. eru og síst fallnar til þess að skýra málin vel, og hefir fyrir löngu verið sagt um þetta mál alt, sem sagt verður um það, og reyndar talsvert meira.

Háttv. frsm. sagði, að ekki væru keypt nema, að mig minnir, um 100 eint. af Þingtíðindunum; síðar sagði hann, að þau væru um 150. (JM: Ekki nærri hundrað.) (EP: Nú seinast voru keypt 115 eint.) Má vel vera, að fá eintök sjeu keypt, en 2 eint. eru send í hvern hrepp. Þar, sem jeg er kunnugur, eru eintök hreppstjóra og oddvita alveg útslitin af útlánum. Háttv. frsm. vildi spara með þessu, a. m. k. um tíma. Með því að segja þetta, viðurkennir hann nauðsynina á Þingtíðindunum. Jeg þyki ekki þingmanna ósparsamastur, en jeg get ekki talið mjer það til gildis, að jeg hafi nokkurntíma viljað spara prentun Þingtíðindanna. Jeg get ekki sagt sem háttv. 4. landsk., er hann taldi sjer til tekna, að hann væri nú orðinn sjálfum sjer ósamkvæmur, og hefði skoðun þveröfuga við þá, er hann hafði 1909. Vitaskuld er langur tími liðinn síðan, og margir þm. hafa nú breytt skoðun á skemri tíma. Jeg gæti best búist við því, að meirihluti þessara háttv. flm. þessa frv. komi áður en þessu þingi lýkur með frv. um að stofna nýtt, feitt embætti, sem æti upp meira en helming þess, er hjer á að sparast. Man jeg eftir því, að slíkt hefir komið fyrir áður, og verið borið fram af þessum sama flokki og drifið af með miklu ofurkappi og afbrigðum frá þingsköpum í þinglokin.