17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (1906)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Frsm. meirihl. (Eggert Pálsson):

Hv. 5. landsk. (JJ) las kafla úr umr. á Alþingi 1909 um þetta mál. Þykir mjer lestur sá verða honum ljelegt vopn. Er hagur landsins ólíku verri nú en þá var hann, og allar ástæður aðrar orðnar. Er frv. þetta nú borið fram í hreinu og beinu sparnaðarskyni, en þá (1909) var eigi þörf slíkrar sparneytni. Þá var oftast frekar um tekjuafgang en tekjuhalla að ræða, en nú er tekjuhalli fjárlaganna talinn 1½–2 milj. kr. Gat hv. 4. landsk. (JM) þá vitanlega verið á móti slíku frv. með jafngóðri samvisku sem hann nú er því fylgjandi. Það breytist margt á skemri tíma. Fyrir nokkrum árum greiddi t. d. jeg atkv. með því að hafa í hæstarjetti 5 dómendur, en nú greiði jeg aftur á móti atkv. með því að hafa þar aðeins 3 dómara, án þess að nokkur geti talið slíkt ósjálfstæði eða hringlandaskap. Valda þessu vitanlega breyttar aðstæður. Hv. 5. landsk. (JJ) kvað okkur ekki hafa viljað spara með því að flytja grískudósentinn að mentaskólanum, eins og hann stakk upp á. Jeg mundi hafa verið með því, hefði hann komið með það á þeim tíma og í því formi, sem hægt hefði verið að fylgja. En því var ekki að heilsa. Frv. um að leggja grískudósentsembættið niður var þegar komið fram í Nd., og var því tilgangslaust hjer. En að flytja til í annað embætti mann þann, sem hefir grískukensluna við háskólann á hendi, var ekki efni í frumvarp, heldur eingöngu þingsályktun. Auk þess var einnig sá galli á, að embætti við mentaskólann, sem flytja átti manninn í, var alls ekki til, svo alt var þannig algerlega ómögulegt.

Þá gat hv. 5. landsk. (JJ) um það, hve afaráríðandi mönnum þætti að fá Alþingistíðindin og hve víða þeim væri slitið upp á örskömmum tíma. Jeg efast um þenna áhuga manna, en hitt veit jeg, að á skammri stund má slíta alveg upp óinnbundinni bók, þótt ekki sje mikið lesin eða gangi mjög margra milli.

Hv. 5. landsk. (JJ) mintist á vantraustsyfirlýsingu í tímaritinu Hlín, til hv. 6. landsk. (IHB). En mjer er spurn: Voru Þingtíðindin þá komin út, þegar sú vantraustsyfirlýsing var borin upp eða samþykt? Jeg býst við því, að þær þingfregnir, sem vantraust þetta á að hafa verið bygt á, sjeu öðru vísi til komnar heldur en beint eftir sjálfum Alþingistíðindunum. Þetta sýnir ekki annað en að forsprakkar þessa vantrausts, eða hvað sem það skal kallast, þykjast ekki hafa þurft sjálfra Alþingistíðindanna til að byggja á. (JJ: En í Þingtíðindunum er heimildin!).

Hæstv. forsrh. (SE) kvað þetta frv. mundu verða drepið í Nd., þótt það næði samþykki þessarar hv. deildar. Veit jeg ekki, hvort þessi spádómur muni rætast; það leiðir tíminn í ljós, eins og annað. En það verð jeg að segja, að mjer finst hæstv. forsrh. (SE) ekki vera sjerlega spámannlega vaxinn. Spámenn eiga, samkvæmt þjóðtrúnni, að vera lágir menn og kubbaralegir að útliti, alls ólíkir forsætisráðherranum.