17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (1907)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Jóhann Jósefsson:

Jeg sá mjer ekki fært að grípa fram í við 1. umr. þessa máls. Þá lifðu hv. deildarmenn mestmegnis í gömlum endurminningum, sem þeir hafa reyndar gert aftur í dag, og vildi jeg því ekki trufla þá, enda þótt full ástæða sje fyrir okkur, sem ráðist höfum í það stórræði að flytja frv. þetta, að taka til máls um það. Fundið hefir verið að því, að við skyldum flytja frv. — og jeg mun ekki hirða um að endurtaka öll þau stóru orð, sem fallið hafa í okkar garð.

Það er sjerstaklega ein röksemd, sem tveir hv. andmælendur frv. hafa vegið að því með. Þeir hafa sagt, að með frv. væri gerð tilraun til að loka þinginu. Það, að þessir örfáu menn, sem nú lesa Þingtíðindin, fá ekki haldið því áfram, á að vera hið sama og að þinginu sje lokað fyrir þjóðinni.

En hvað er það svo, sem þessir fáu menn lesa í umræðupartinum? Þar lesa þeir ekki nærri því altaf það, sem hv. þm. hafa sagt, heldur hitt, hvað þeir vildu sagt hafa. Það þýðir sem sje ekkert að leyna því, að þm. laga ræður sínar eftir eigin geðþótta, svo að það, sem prentað er, er einungis það, sem þeir eftir á komast að raun um, að þeir vildu sagt hafa. Svo það er eiginlega ekki þingið, sem lokað verður, ef um lokun er að ræða, heldur hugur þeirra, sem þar tala, eftir að þeir hafa ráðið við sig, hvað þeir vildu hafa sagt.

Það er sagt, að þjóðin fái ekki að vita, hvernig vjer höfum skipað oss í hinum ýmsu málum, hv. deildarmenn, ef frv. þetta nær fram að ganga. En þetta er ekki rjett. Það á eftir sem áður að gefa út skjalapart Þingtíðindanna með atkvgr., — og á því verður meira að græða fyrir landsmenn en ræðum, sem máske eru eingöngu fluttar fyrir kjósendur, til þess að kitla eyru þeirra.

Jeg veit ekki betur en nú sje einmitt talað um að gera alt, sem er „praktiskt“ og miða má til sparnaðar. Og gert hefir verið alt mögulegt, og jeg vil segja ómögulegt, í þessa átt. Nú er t. d. búið að gefa út reglugerð um innflutningsbann á ýmsum vörum, sem ekki nær nokkurri átt að banna. Frv. liggja fyrir þinginu um gífurlegar tollhækkanir o. s. frv. — og samt er talinn ósómi að bera fram þetta frv. Hv. 5. landsk. (JJ) sagði, að eina skynsamlega ástæða okkar, sem ekki viljum láta prenta umræðupart Þingtíðindanna, sje sú, að við þyrftum að fela eitthvað fyrir þjóðinni. Þetta er harður dómur, ekki síst þegar þess er gætt, að hann er ekkert annað en getsakir og órökstuddur sleggjudómur.

Það er vitanlegt, að kjósendur geta fengið að vita, hvað við höfumst að hjer á þingi, þó að hætt verði að prenta umræðupartinn, því að enda þótt blöðin hafi ekki verið nægileg 1909, þá er það ástand nú gerbreytt. Við sjáum blöðin flytja daglega mjög ítarlegar þingfrjettir, stundum nærri orðrjettar ræður þm. Það er því enginn ósómi, þó að ráðist verði í að spara hjer nokkra tugi þús. og sjá hvernig fer. Að vísu efaðist hv. 2. landsk. (SJ) um, að sparnaðurinn að frv. þessu væri þess virði, sem hann væri keyptur. Hann er keyptur því verði, eins og jeg tók áður fram, að nokkrir menn geta ekki lengur lesið orði til orðs það, sem þingmenn vildu sagt hafa. Ef því þessi sparnaðartilraun er keypt of dýrt, þá hygg jeg, að sama megi segja um allar hinar, sem fram hafa komið. Þetta er því út af fyrir sig engin röksemd.

Talað hefir verið um skoðanir hv. 4. landsk. (JM) í máli þessu fyr á tímum. Hann hefir að vísu svarað fyrir sig, en jeg held satt að segja, að ástæður þjóðarinnar hafi breytst svo mjög á síðari tímum, að þeir, sem stöðugt „citera“ í skoðanir manna frá fyrri tímum, haldi á nokkuð tæpum röksemdum, og ef mikill sparnaður er að öllum þeim lestri, þá fer nú flest að verða sparnaður.

Það er eitt atriði í ræðu hv. þm. A.- Húnv. (GÓ), sem jeg vildi undirstrika. Hann sagði, að langar umræður hefðu sjer síst þótt fallnar til að skýra málin. Ef þetta er rjett, sem jeg hygg, þá ætti afleiðingin af því að vera sú, að hv. þm. stuðluðu sem mest að því að tefja ekki þingið um of með óþörfum ræðuhöldum. Og ef það mark verður sett, þá mun því betur verða náð með því að hætta að prenta umræðupartinn en ella, því að margar ræður myndu sparast, ef þm. vissu, að þær yrðu ekki prentaðar.