19.03.1924
Efri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (1919)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Frsm. meirihl.(Eggert Pálsson):

Mjer fanst vera búið að ræða mál þetta allmikið við 1. og 2. umr. í þessari háttv. deild. Bjóst jeg því ekki við því, að nú yrði farið að ræða það enn að nýju, því að umræður um mál á þessu stigi fá venjulega litlu um þokað, og ekki síst þegar svo stendur á, sem hjer, að meira en helmingur deildarmanna eru flm. Eru því slíkar umr. sem þessar ekkert annað en helber eyðsla, þar sem fyrirsjáanlegt er, að málið kemst í gegn um þessa háttv. deild, hversu langar ræður sem haldnar eru á móti því.

Skal jeg þá nú ekki heldur, til þess að komast ekki í mótsögn við sjálfan mig, fara að halda langa ræðu. Heldur með örfáum orðum svara háttv. 2. þm. S.-M. (IP). Háttv. þm. fann sig knúðan til, af einhverri innri hvöt, að fara að standa hjer upp og halda langa ræðu um þetta mál, og notaði sjer fyrir ræðutexta þau ummæli mín, að Þingtíðindin væru yfirleitt lítið lesin, og þá að sjálfsögðu einnig í Rangárvallasýslu. Þó honum kunni nú undarlegt að þykja, stend jeg enn við það, að jeg tel þau alment lítið lesin, nema þá lítið eitt af hreppstjórum og oddvitum, sem fá þau sjer ókeypis send. Er þetta ofurskiljanlegt og getur ekki öðruvísi verið. Í hreppana koma ekki nema þessi 2 eintök til hreppstjóra og oddvita, og þar sem þetta eru bækur óbundnar, þá mundu þær fljótlega detta í blöð, þegar þær fara að ganga margra á milli. — Út af þessum ummælum mínum dró háttv. þm. svo þá ályktun, að kjósendur mínir myndu ekki vera um of pólitískt þroskaðir. Það getur nú vel verið, að svo sje — um það skal jeg ekki deila — en jeg býst við, að sama megi þá líka segja um flesta kjósendur hjer á landi, nema ef vera kynni kjósendur í Suður-Múlasýslu. Þeir eru máske orðnir of pólitískt þroskaðir af Alþingistíðindalestri, og orðnir þar af leiðandi ofvitar. En eigi nú þessi ummæli háttv. þm. að vera einhverskonar sneið til mín og Rangæinga um, að þeir hafi sýnt pólitískt þroskaleysi í því að kjósa mig á þing, ber þm. að gæta þess, að hún nær þá einnig til ráðherra Framsóknarflokksins, sem Rangæingar kusu samhliða mjer. Hlýtur því hin pólitíska vanþroskun Rangæinga að hafa lýst sjer eins í vali 2. þm. þeirra, sem 1. þm. En telji háttv. þm. það pólitíska vanþroskun af Rangæingum að kjósa ráðherra hans eigin flokks á þing, læt jeg hann alveg um þá skoðun.

Þá þóttist háttv. þm. (IP) engu vilja spá, en sagði, að þetta og þetta væri trúa sín. En jeg sje engan mun á spádómi og trú, í þessu efni. Meðal annars sagði hann, að þetta myndi verða fyrsti naglinn í hina pólitísku líkkistu flokks okkar flutningsmanna frv. Hvað er þetta, ef það er ekki spádómur? Hvort þessi spádómur hans rætist eða ekki, skal jeg ekkert um segja. En ef nú svo yrði, hvort myndi hann þá ekki frekar gleðjast en hryggjast í hjarta sínu. Jeg hygg það. Það getur tæplega verið meining hans, að hann sjái svo mjög eftir því, þótt okkur, mótflokksmönnum hans, fækkaði. En ef hann væri í raun og veru jafnsannfærður, og hann hefir gefið í skyn, um ófarir okkar Íhaldsmanna í framtíðinni, út af þessu máli, þá mætti ætla, að sjá mætti frekar gleði- en sorgarsvip á andliti hans.