19.03.1924
Efri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (1922)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Ingvar Pálmason:

Háttv. andmælendur mínir hafa ekkert gert annað en misherma orð mín, og það er ekki á mínu valdi að kenna þeim að taka rjett eftir, úr því að þeim hefir ekki frá forsjónarinnar hendi verið gefinn sá skilningur, sem til þess þarf.

Annars hefir hæstv. forsrh. (SE) svarað flestu því, sem svara hefir þurft, af því, sem fram kom í ræðum þeirra.

Háttv. 1. þm. Rang. (EP) taldi það mestu goðgá, að jeg skyldi voga mjer að standa upp og tala í þessu máli, af því að það gæti engin áhrif haft á úrslit þess. Er það slík harðstjórn, eins og sagt er, að áður hafi verið beitt við börnin, er þau voru látin kyssa á vöndinn sjálf. Þá reyndi þessi sami háttv. þm. að hártoga þau ummæli mín, að jeg taldi það ekki lýsa þroska kjósendanna að lesa ekki Þingtíðindin, og það, sem hann sagði þar um, voru ekki mín orð, og læt jeg hann því einan um þann útúrsnúning sinn.

Um skilgreining á orðunum „spádómur“ og „trú“ skal jeg ekki deila við hann, því að þar tel jeg hann mjer færari stöðu sinnar og lærdóms vegna. Jeg beygi mig því fyrir honum þar.

Háttv. þm. Vestm. (JJós), sessunautur minn, fór svipað að og háttv. 1. þm. Rang. (EP) með það að hártoga orð mín. Átti jeg þess síst von af honum. Hann vildi meðal annars teygja þau orð mín svo, er jeg sagði, að jeg teldi Þingtíðindin alment lesin í Suður-Múlasýslu, að þá hlyti hver einasti maður að lesa þau. En það tel jeg alment lesið, er flest heimili lesa. Um þetta ætti mjer að vera kunnara en honum, sem altaf hefir verið úti í Vestmannaeyjum og aldrei stigið fæti sínum í Suður-Múlasýslu. Það er sagt, að það þýði ekki að deila um keisarans skegg. Hið sama er hjer. Það þýðir ekkert fyrir andmælendur okkar að vera að reyna að hrekja það, sem við segjum um lestur Þingtíðindanna. Nema þá því aðeins að þeir segi: „Þú ferð með ósannindi, góði minn.“

Meðal annars, sem jeg sagði, var, að jeg teldi, að það gæti verið sanngjarnt að loka áheyrendapöllunum hjer, ef hætta ætti að prenta Þingtíðindin, ef jöfnuð ætti að gera meðal allra landsmanna í þessu efni. Þessum ummælum mínum gátu háttv. andmælendur látið sjer sæma að snúa við. Læt jeg þá alveg um það, því að eins og jeg hefi áður tekið fram, get jeg ekki gefið þeim skilninginn. Snúi þeir því út úr og misskilji, sem menn eru til þess. En jeg sje enga ástæðu til að þegja, þó aldrei nema að víst sje, að mál þetta komist út úr deildinni.

Út af þeim ummælum háttv. 1. þm. Rang. (EP), að jeg hefði staðið hjer upp og haldið langa ræðu, vil jeg geta þess, að jeg veit engan mælikvarða fyrir ræðulengd, en eflaust er þeim fjölfróða manni kunnugt um það, eins og svo margt annað.