19.03.1924
Efri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (1923)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Jón Magnússon:

Jeg veit engan mælikvarða fyrir ræðulengd. En það veit jeg, að jeg ætla ekki að halda langa ræðu nú, því að jeg tel það engan verksparnað að taka alt upp við 3. umr., sem búið er að segja við 2. umr. En jeg vil aðeins mótmæla því, sem háttv. 5. landsk. (JJ) hefir haldið fram, að það hafi verið prentsmiðjustríð, er hafi valdið því, að frv. þessu líkt kom fram á þinginu 1909. Slíkt er alveg ósannað. En það var þáverandi þm. Barðstrendinga, Björn Jónsson, sem bar frv. fram, af því að hann taldi, að þetta fje mætti spara með góðu móti. Og jeg er viss um, að það hefir verið sannfæring hans. Því að jeg hefi alt af haldið því fram um þann mann, þó að stundum kastaðist í kekki milli okkar Heimastjórnarmanna og hans, að hann hafi þó aldrei haldið öðru fram en því, er hann taldi satt og rjett.

Því hefir verið haldið fram, að þetta mál gæti orðið hættulegt fyrir Íhaldsflokkinn. Það má vel vera, að svo verði. En jeg gæti þá búist við, að það yrði þá líka hættulegt fyrir Framsóknarflokkinn, því að formaður hans, Þorleifur Jónsson, hefir altaf greitt atkv. með því að fella niður prentun umræðupartsins, og fleiri úr þeim flokki hafa áður fylgt því máli.