24.03.1924
Efri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (1931)

43. mál, sameining kennarastarfs í hagnýtri sálfræði forstöðu Landsbókasafnsins

Flm. (Jónas Jónsson):

Þetta mál hefir beðið, sökum þess, að fyrir Nd. liggja till., sem fara í svipaða átt. En þar sem enn er ósjeð um framgang þeirra, hefir þess verið óskað, að þetta mál yrði tekið hjer á dagskrá, og að því síðar yrði vísað til nefndar. Er hjer um tvent að ræða. Hið fyrra er að fella niður embættið í hagnýtri sálarfræði við Háskólann. Hitt er að fá hæfan mann til þess að veita forstöðu Landsbókasafninu.

Það hefir mikið verið deilt um það, hvort embættið í hagnýtri sálarfræði væri nauðsynlegt. Hitt verður ekki deilt um, að maðurinn, sem í þeirri stöðu situr, er mjög merkilegur rithöfundur. Jeg hefi jafnan litið svo á, að embættið væri til þess til orðið, að hann gæti fengið tækifæri til þess að gefa sig við ritstörfum. En nú er ljóst, að það er óvíst, að þingið geti lagt niður þetta embætti, þótt það vildi, af því að það er bundið við nafn ákveðins manns. — Og þótt það væri hægt, álít jeg það enga búmensku að kasta burt úr þjónustu landsins ágætum og afkastamiklum starfsmanni. Aftur á móti er ekki hægt að gefa honum víðara starfssvið, nema með sjerstökum samningi við hann. Ennfremur álít jeg, að slíkur samningur eigi að fara fram milli landsstjórnarinnar og þess manns, sem færður er til í embætti. Er þó óvíst, hversu langt stjórnin kynni að ganga í þessu efni, ef hún hefði ekki yfirlýstan þingvilja að baki sjer. Og jafnvel þótt svo væri, er ekki full trygging fyrir því, að hún verði við þeirri ósk, og einnig getur mál þetta fallið niður, ef hlutaðeigandi maður neitar samningum. Hjer í deildinni hefir verið deilt um það, hve mikið væri vald þingsins til þess að skifta sjer af starfrækslu embætta. Sumir líta svo á, að þótt embætti sje illa rækt, eigi þingið aldrei að tala um það. Hlýt jeg að vera annarar skoðunar. Öllum bæjarbúum, sem eitthvað vita, er kunnugt, að stjórn Landsbókasafnsins hefir verið mjög áfátt í mörg ár. Liggja fyrir þessu áþreifanlegar sannanir. Eftirlitsnefnd safnsins lagði niður starf sitt árið 1919, þar eð hún ekki treystist til þess að vinna með forstöðumanni safnsins. Í nefnd þessari áttu sæti 3 kennarar háskólans, einn úr hverri þessara þriggja deilda, lækna-, guðfræðis- og lagadeild. Eru þetta alt þjóðkunnir og mikilsmetnir menn. Taldi nefndin forstöðumanninn ófæran til að standa fyrir safninu. Var því skylda landsstjórnarinnar að hlutast til um, að breytt yrði um stjórn. Var ekkert gert í þessu máli þar til í vetur, að hv. 1. landsk. (SE), þáverandi forsrh., mun hafa sjeð, að við svo búið mátti ekki standa. Mun hann hafa skrifað háskólaráðinu og farið fram á, að það kysi nefnd að nýju til þess að fullnægja fyrirmælum laganna. En háskólaráðið neitaði að verða við tilmælum stjórnarinnar og sendi henni harðort brjef. Vona jeg, að hæstv. forsrh. (JM) vildi skýra frá því, hversvegna landsstjórnin gerði ekkert í þessu máli 1919.

Þetta frv. gerir ráð fyrir þeirri skyldu stjórnar og þings að sjá um, að hið megna óstand, sem nú er í Landsbókasafninu, verði ekki látið haldast. Landsbókasafnið hefir að geyma dýrmæta fjársjóði og handrit. Það má ekki vera í því ástandi, að háskóli vor, sem lögum samkvæmt ber skylda til þess að hafa eftirlit með því, neiti að framkvæma umsjónina sökum vanrækslu landsstjórnarinnar um stjórn safnsins. Jeg býst við, að einhverjir sjeu hjer í þessari hv. deild, sem ekkert vilja heyra um þetta, en enginn mun þó efast um, að hjer er rjett skýrt frá. Enginn efast heldur um, að hjer verði að breyta til. Þrátt fyrir þetta get jeg eins vel búist við því, að frv. þetta verði felt, því að síst er Landsbókasafninu vandara um en smyglurunum í fyrra.

Tillaga mín, að láta hinn miður hæfa forstöðumann safnsins sem fyrst láta af stjórn þess, en við taka duglegan og merkilegan rithöfund, miðar að því, að Landsbókasafninu verði komið í gott lag, og endurbætt það, sem aflaga fer. Jeg tek það fram, að jeg kippi mjer ekki upp, þótt frv. verði felt. Það er á ábyrgð þeirra, sem það gera, og munu þeir fá óskertan heiðurinn af því að láta hið gamla vandræðaástand halda áfram. Fyrir mjer vakir það eitt með þessu frv. að fá að Landsbókasafninu hraustan, duglegan, vel færan mann, í staðinn fyrir heilsubilaðan mann, sem eftirlitsnefnd safnsins hefir sýnt alveg óvenjulegt vantraust.