24.03.1924
Efri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (1934)

43. mál, sameining kennarastarfs í hagnýtri sálfræði forstöðu Landsbókasafnsins

Flm. (Jónas Jónsson):

Mjer þykir mikið mein, að hæstv. forsrh. (JM) hefir ekki getað tekið ítarlegan þátt í umr. Tel jeg þá skýringu, sem hann gaf, vera ófullnægjandi. Játaði hann þó, að lögskipuð nefnd hafi neitað því árið 1919 að vinna með landsbókaverði. Gerði hún það vafalaust af því, að hún áleit hann ófæran til þess að gegna þessu starfi sökum heilsubilunar.

Hæstv. forsrh. (JM) segist hafa lagt brjef þetta fyrir þingnefnd, en hún ekki sjeð ástæðu til að gera neitt í þessu efni. Af ummælum hæstv. forsrh. (JM) má glögt sjá, að hann er mjer samdóma um, að þingið hefir í raun og veru fult vald til að skifta sjer af slíku og þvílíku, en ekki varð betur skilið, en að hann teldi rjettmætt, að stjórnin hirti ekkert um framkvæmd laga, ef þingmenn skiftu sjer ekkert af því. Nefndin skilaði að vísu engu áliti, að því er sjeð verður, en það er fullkominn kisuþvottur hjá þeim stjórnum, sem með völd hafa farið síðan, að afsaka eftirlitsleysi sitt með því, að einstakir þm. hafi máske fremur latt þær en hvatt til framkvæmda í þessu máli. Háttv. 1. landsk. (SE) viðurkendi meira að segja, að hann hefði ekki veitt því athygli, að umrædd nefnd væri til, fyr en það hefði borist í tal í hv. Nd. á síðasta þingi. Síðan hefir hann þó snúið sjer til háskólans og mentaskólans með tilmælum um, að þær stofnanir skipuðu hvor sinn manninn í nefndina. En hvað skeður? Háskólinn neitar að verða við þeim tilmælum og ber fyrir sig, að hann vilji ekki skifta sjer af safninu, fyr en skift sje þar um stjórn. Hjer rís hvert valdið móti öðru. Háskólinn gerir verkfall, eins og hann hafði áður gert 1919. Þá fengust við málið frá hans hálfu Lárus H. Bjarnason, Guðm. Hannesson og Haraldur Níelsson. Þarna eru því þrír af þektustu kennurum háskólans — og einn þeirra er nú orðinn hæstarjettardómari. Má gera ráð fyrir, að hann að minsta kosti sje betur að sjer í lögum en svo, að hann stofni til verkfalls, nema rjettmætt sje. Jeg hefði a. m. k. ekki verið með því að fækka dómendum í hæstarjetti, ef jeg gengi ekki út frá því, að þá hendi ekki slík fásinna að brjóta landslögin.

Hv. 1. landsk. (SE) hjelt því fram, að starf nefndarinnar ætti eingöngu að vera fólgið í því, að reyna að leiðbeina í einhverju um stjórn safnsins. En þegar nefndin neitar að vinna með núverandi stjórnanda þess, þá er skýlaus skylda landsstjórnarinnar að grípa til sinna ráða og gera þær breytingar, sem til heilla horfa. Því hvernig getur hæstv. stjórn búist við því, þegar prófessorar háskólans, sem eru safninu allra manna kunnugastir, neita að viðurkenna stjórn þess, að því sje þá forsvaranlega stjórnað. Jeg hefi nú fengið tvo hæstv. ráðherra, bæði núverandi og fyrverandi, til að viðurkenna ólagið á safninu. En samt hafa þeir látið við svo búið standa um mörg ár, þrátt fyrir mótþróa háskólans gegn því að nota löglegan eftirlitsrjett sinn vegna þess, að hann vildi ekki viðurkenna stjórn safnsins eins og hún hefir verið. Stjórninni bar því skylda til að taka í taumana, og það því fremur, sem landsbókavörður hefir játað vanmátt sinn, að því er háttv. 1. landsk. þm. (SE) hefir upplýst, og jafnvel haft á orði að segja af sjer embættinu. (SE: Hann hefir ekki játað neinn vanmátt.) Ekki var annað að heyra á hv. 1. landsk. (SE), og enda ekki óeðlilegt, eins og málavöxtum er háttað.

Þá verð jeg að biðja hv. þingdeildarmenn vel að athuga, að hæstv. forsrh. (JM) er á móti frv. því, sem liggur fyrir hv. Nd. um afnám embættis Guðm. Finnbogasonar við háskólann. Verður því eigi að vænta neinna framkvæmda í hans tíð, að því er þann hluta verksins snertir. Þessi hv. deild á því ekki önnur ráð en að vísa frv. mínu til mentmn., að lokinni þessari umr., til þess að hún reyni að ráða fram úr málinu. Jeg hygg, að það orki ekki tvímælis, að hæstv. stjórnir hafa undanfarið of lítið skeytt aðvörunum háskólakennaranna í þessu efni. Er því ekki nema sjálfsagt, að þingið láti sig það einhverju skifta.