22.02.1924
Efri deild: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (1939)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skal strax geta þess, að aðstaða mín til þessa máls er hin sama og á síðasta þingi. Og nú er ástæða sú, sem háttv. 1. þm. Skagf. (MG) færði þá fram fyrir breytingunni, sem sje sú, að kosningar lægju fyrir dyrum, og því væri hægt að koma breytingunni á, án sjerstaks kostnaðar, með öllu fallin í burtu.

Jeg vil taka það fram og leggja sjerstaka áherslu á það, að stjórnarskráin er aðeins fárra ára gömul, en orðin til gegnum margar eldraunir. Þau aðalatriði, sem nú eru borin fram fyrir stjórnarskrárbreytingu þessari, eru fækkun þinga og fækkun ráðherra. Þótt nú þessar kröfur sjeu ekki fleiri nú, þá er það alveg víst, að þær koma fram miklu fleiri, ef fara á að breyta stjórnarskránni á annað borð, ekki einungis frá þinginu sjálfu, heldur og líka frá allri þjóðinni. Því er nú mjög haldið fram, að þetta sje gert af sparnaðarástæðum. En það hefir sýnt sig, að á þeim tímum, sem þing átti aðeins að vera annaðhvert ár, var það venjulega á hverju ári, og jeg er sannfærður um, að þó að nú verði gerð sú breyting á, að þing skuli háð aðeins annaðhvert ár, þá verður það á hverju ári fyrir því. Hefði t. d. ekki átt að vera þing í ár, er jeg sannfærður um, að engin stjórn hefði getað annað en kallað saman aukaþing nú, fyrst og fremst vegna kjöttollsmálsins, og í öðru lagi vegna fiskiveiðalöggjafarinnar. Jeg er því sannfærður um, að þessi sparnaður sje meira í orði en á borði.

Hitt atriðið, að hafa aðeins einn ráðherra og landritara, verð jeg að telja miður heppilegt, því að í fjarveru ráðherra erlendis færi þá ábyrgðarlaus maður með æðstu völdin í landinu. Rjettast hygg jeg vera að hafa ráðherrana þrjá. Því að mál þau, sem undir þá liggja, eru svo þýðingarmikil fyrir þjóðina, að úrslit þeirra verði að fá sem ítarlegasta yfirvegun. Ef hinsvegar ætti að gera róttækan sparnað á þinghaldi, þá gæti jeg miklu betur sætt mig við, að þingmönnum væri fækkað, en þing hinsvegar haldið á hverju ári.

Annars tel jeg, að síst ætti að gera leik að því, þegar búið er að fá stjórnarskrá, sem í flestum atriðum er óaðfinnanleg, að hrapa að því að breyta henni. Jeg vil því spyrja, hvort nú sjeu þeir tímar, að rjett sje að kasta þjóðinni inn í nýjan kosningaeld, einmitt þegar kosningar eru nýafstaðnar. Jeg spyr þessa í fullri alvöru, því að hjer standa að þeir menn, sem framarlega standa í tveimur aðalflokkum þingsins. En jeg tek það fram fyrir mitt leyti, að jeg mun enga ábyrgð taka á slíkri ráðstöfun.