15.03.1924
Efri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (1945)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meirihl. (Jón Magnússon):

Jeg er í dálitlum vafa um, hvort nokkur sjerstök ástæða sje til að svara mótmælum þeirra hv. 5. landsk. (JJ) og hæstv. forsrh. (SE). Í þeim hefir sem sagt ekkert það komið fram, sem ekki hefir verið fullkomlega tekið fram áður, t. d. af hálfu hæstv. forsrh. (SE) á þinginu í fyrra — og jeg hefi þegar svarað. Hæstv. forsrh. (SE) hefir nákvæmlega sömu afstöðu og þá; hann vill í engu breyta stjórnarskránni — og við því er í sjálfu sjer ekkert að segja, ef hann álítur, að hún sje svo ágæt eins og hún er, að í engu megi breyta henni til bóta.

Báðir þessir hv. andmælendur mínir (JJ og SE), hafa talið, að þing hafi verið haldið árlega frá því 1911. En það sannar lítið um nauðsynina á reglulegu þinghaldi ár hvert, því að fyrst eftir 1911 var stjórnarskráin á ferðinni, og þegar svo var ástatt, þurfti alt af að halda aukaþing. Síðar, eða árið 1914, kom stríðið, svo að nauðsyn bar til að kalla þing saman, en sjerstaklega er aðgætandi, að einmitt um það leyti var ákvæði um reglulegt þinghald á ári hverju sett í stjórnarskrána. Er því engin furða, þótt þing hafi verið haldið árlega síðan. Og vegna sambandslaganna var þing eitt sinn kvatt til fundar. Svo sem jeg hefi sýnt, er ekki hægt að tala um neina venju í þessu efni frá því 1911 — og sjerstaklega ekki eftir að ákveðið var, að þing skyldi halda árlega.

Fjölgun ráðherra var ekki einungis gerð vegna stríðsins, heldur var og talin þörf á því vegna þess, hve störfin höfðu aukist alment. Var og talið, að með þessu skipulagi væri fengin trygging fyrir því, að lagafrumvörp, sem stjórnin legði fyrir þingið, yrðu betur undirbúin en áður, o. s. frv.

En jeg er þess fullviss, að einn ráðherra getur komist yfir þetta alt saman, með aðstoð landritara. Hann þarf að vísu að fá aðstoð við samning lagafrv., eins og venja hefir verið upp á síðkastið. Og jeg held einmitt, að það sje holl venja, því sje notuð aðstoð lagaprófessora háskólans, eins og gert hefir verið, er betri trygging fengin fyrir samræmi í löggjöfinni.

Jeg skal ekkert um það segja, hvort hv. 5. landsk. þm. (JJ) hefir fyrst stungið upp á reglulegu þinghaldi annaðhvert ár, og sú uppástunga hans hlotið almenna undirtekt. Þetta má vel vera. En þá ætti hv. þm. (JJ) að vera ánægja að því, að þessi till. er hjer fram komin. Og kemur mjer því kynlega fyrir, að hann mælir eiginlega öðru hvoru á móti breytingunni. Jeg hefi trú á, að hún sje skynsamleg.

Hitt skal jeg viðurkenna, að til er önnur leið til að spara þingkostnaðinn, sem jeg myndi aðhyllast. Sú er, að fækka þm., t. d. niður í 24. En jeg hygg það rjett hjá hv. 5. landsk. (JJ), að örðugt muni að koma þeirri breytingu í framkvæmd.

Jeg man t. d., þegar prestum var fækkað. þjóðin var þeirri fækkun yfirleitt hlynt, en þó var það svo, að fáir vildu missa prestinn sinn. Hætt er við, að á sama hátt færi, ef fækka ætti þm. Almenningur vildi gjarna fækkunina, en enginn vildi missa sinn þm.

En á þennan hátt má sannarlega spara, og það þó að haldið yrði þing árlega. Mætti jafnvel ganga enn lengra. Hafa þm. aðeins 12. Er mjög óvíst, að þingið yrði lakara, þó að þar sætu ekki fleiri menn. Ef jeg sæi mögulegt að fara þessa leið, mundi jeg að öllum líkindum verða því fylgjandi.

Þegar hv. 5. landsk. (JJ) talaði um gengið í sambandi við tölu ráðherra, þá er því til að svara, að ekki mun hægra fyrir 2 eða 3 ráðherra að hafa hemil á því en einn. Jeg hefi ekki sjeð, að nein stjórn hafi ráðið nokkuð við gengi peninga, hvorki hjer nje annarsstaðar.

Að því er snertir það ákvæði að hafa einn ráðherra og landritara, þá skilur býsna mikið á með okkur hv. 5. landsk. (JJ).

Jeg hefi trú á, að slíkt embættiseftirlit sem landritari hafði með höndum, sje mjög nauðsynlegt og eigi að vera fráskilið pólitískum umhleypingum. Auðvitað verður ráðherra að bera ábyrgð á stjórnarathöfnum, eftir sem áður. En jeg man svo langt, að amtmenn voru hjer á landi, og held jeg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að síðan þau embætti voru feld niður, hafi eftirlitið með embættisrekstri hjer á landi verið mun lakara, og það af eðlilegum ástæðum. Jeg get ekki gert eins lítið úr landritaraembættinu og hæstv. forsrh. (SE). Það er oft vitnað til Englands, og það er vitanlegt. að þar hafa forstöðumenn stjórnardeildanna mjög mikið að segja, jafnvel svo, að ráðherrar fá eigi að gert, og þykir skipulag Englendinga fyrirmynd í þessu sem öðru. Mun þar dæmi til þess, að enda þótt ráðherra hafi lofað flokki sínum að koma fram einhverri breytingu, þá hafi stjórnardeild hans sagt, að ekki væri hægt að koma henni fram, og ráðherrann látið sjer það svar nægja, vegna þess, hversu nauðsynlegt þykir, að festa sje í allri umboðsstjórninni, svo að menn sjeu ekki í stöðugri óvissu um, hverju þeir megi eiga von á. Jeg held að það saki aldrei, þó að einhver slík festa í umboðsstjórninni komist hjer á. Að vísu má segja, að það geti orðið, þó að landritaraembættið sje ekki sett á stofn aftur, og má vera, að eitthvað sje til í því. En hætt er við, að það verði meira skrifstofukent án þessa embættis, en því mun fylgja kröftugt embættisvald, sem þjóðinni mun holt að fá. Auðvitað getur komið fyrir, að ekki verði valinn nógu góður maður í embættið, en það má sennilega gera ráð fyrir því, að oftast veldist hæfur maður í embættið, því að jeg þykist vita, að einmitt verði völ á virkilega góðum mönnum til að taka við því, þar sem það yrði bæði virðulegra og betur launað en t. d. skrifstofustjóraembættin.

Hv. 5. landsk. (JJ) vildi halda því fram, að kosningar gerðu menn betri og vitrari. Jeg held, að þessu verði aldrei haldið fram í fullri alvöru. Í Englandi er t. d. álitið, að enginn frambjóðandi komi óskemdur úr kosningabaráttu, og mun svipað gilda hjer, aðeins í meira mæli.

Ekkert hefi jeg að athuga við það, þó að hv. þm. (JJ) komi með enn frekari brtt. við frv. við 3. umr. þess, ef mínar verða samþ. Hitt er annað mál, að þeir, sem virkilega vilja breytingar á stjórnarskránni, verða að sætta sig við fleiri breytingar en þeir máske beint óskuðu eftir. Jeg mun greiða atkvæði með breytingum á stjórnarskránni hjeðan úr þessari háttv. deild, þeim sem jeg óska eftir, og það jafnt þótt jeg fái ekki öllum mínum breytingum framgengt. Mundi jeg jafnvel ekki telja frágangssök að greiða frv. hv. 5. landsk. (JJ) atkv. mitt óbreyttu, en vona þó, að til þess þurfi ekki að koma.

Jeg hefi litla trú á, að til neins sje að orðlengja frekar um mál þetta, svo að jeg mun að mestu leyti sleppa því að svara hæstv. forsrh. (SE). Hefi jeg, bæði í framsöguræðu við 1. umr. og nú, svarað öllum mótbárum hans gegn frv. Skal jeg þó minnast nokkuð á það, sem hann talaði um breytingagirni. Jeg býst við að fá tækifæri til að tala um hæstarjett síðar og sömuleiðis háskólann, þegar að þeim málum kemur. En jeg get ekki viðurkent, að nokkur sjerstök ástæða sje til að bera mjer á brýn of mikla breytingagirni, þó að jeg vilji hverfa að þeirri skipun, sem staðið hefir mun lengur en sú, sem nú er — og gefst mjög sæmilega. Jafnvel þó að farið sje lengra aftur í tímann en til ársins 1904, má segja, að þetta skipulag hafi verið, því að landritaraembættið kom að miklu leyti í stað landshöfðingjaembættisins.

Jeg bjóst ekki við því, að hæstv. forsrh. (SE) ljeti sjer sæma að bera fram þær getsakir, að þetta væri alt saman leikur. Jeg get fullvissað hann um, að mörgum er full alvara að fækka þingum og draga úr öllum þingkostnaði. Tíminn leiðir í ljós, hvort frv. þetta er spor í þá rjettu átt. Mjer skildist, að hæstv. forsrh. (SE) væri að drótta því að Alþingi, að ástand þess væri bágborið nú. Sje þetta rjett, þá hygg jeg, að ekki væri mikill skaði skeður, þó að það kæmi ekki saman nema annaðhvert ár. Og jeg held, að alt stæði jafn vel, þó að svo hefði verið undanfarið. Eins og jeg hefi áður sagt, getur að sjálfsögðu borið þau vandamál að höndum, sem gera óumflýjanlegt að kveðja þingið til stutts aukafundar, en mjög er sennilegt, að svo yrði fremur sjaldan. Nefnt hefir verið, að nú hefði t. d. verið óhjákvæmilegt að kalla saman aukaþing vegna kjöttollsmálsins, en það tel jeg mjög vafasamt, og er engin sönnun fyrir því, að stjórnin sjálf hefði ekki getað átt við það mál. Jeg óttast ekki þann eld, sem hæstv. forsrh. (SE) hyggur að kvikni af sjórnarskrárbreytingunni. Mun varla vera hægt að tala um það innan þingsins, og jeg þori að ábyrgjast, að þær till., sem jeg hefi borið fram, muni engan eld kveikja utan þings.

Till. um fækkun þinga mun yfirleitt verða mjög vel tekið, og enginn eldur mun kvikna út af lenging kjörtímabilsins, nje því, að hæstirjettur úrskurði um gildi kosninga.

Jeg mun síðar víkja nánar að landritaraembættinu, en álít best að ákveða ekki nú um það í einstökum atriðum.