27.03.1924
Efri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (1951)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Forsætisráðherra (JM):

Jeg gat því miður eigi verið viðstaddur ræðu hv. þm. A.-Hún. (GÓ). Jeg var kallaður inn í hv. Nd. til þess að svara þar fyrirspurn. Jeg get þó ímyndað mjer, hvað hv. þm. hafi sagt um þetta mál, og skal jeg leyfa mjer að fara um það nokkrum orðum.

Jeg held, að það hafi verið á þingi 1911, að fyrst var talað um það, að setja landkjörna þingmenn í Ed., í stað þeirra konungkjörnu, sem áður höfðu setið þar. Var þá mikið uppi um till. um stjórnarskrána. Þá kom fram ítarlegt frv. um breytingu á stjórnarskránni, frá Jóni Þorkelssyni og fleirum, og ennfremur frá Jóni Jónssyni frá Múla og Jóni Ólafssyni. Hinir síðarnefndu lögðu það til að hafa alla Ed. landskjörna. Þingmenn skyldu vera alls 40, og var gert ráð fyrir því, að þeim yrði skift þannig, að það yrðu 15 í efri málsstofu, en 25 í neðri málsstofu. Á þetta fjelst meirihl. stjórnarskrárnefndarinnar, er sat 1911. Þegar til atkvgr. kom, þá varð það úr, að settir voru í Ed. 6 þingmenn, sem ekki voru kosnir í kjördæmum. Var þannig aðeins breytt um kjör, svo að í stað konungskjörs kom landskjör. Hefir þetta fyrirkomulag haldist enn í dag. Var þetta gert af þeim ástæðum, að menn álitu, að þessir landskjörnu þingmenn mundu halda dálítið í, þannig, að eigi mundi eins hægt að koma fram með vanhugsaðar breytingar. Það var tekið fram af þeim, sem fluttu þetta, að það yrðu kosnir 15 menn til 12 ára, en svo skyldi kjósa 1/3 þeirra 4. hvert ár. Þinginu 1911 þótti langt gengið í þessu efni. Upp úr þessari till. spratt kosning 6 landsk. til 12 ára, er færu frá 6. hvert ár, 3 í hvert skifti. Fyrir mjer horfir málið svo, að jeg tel nauðsynlegt að hafa þetta íhald, og það af sömu ástæðu og vakti fyrir þeim, sem fluttu þetta fyrst. Það er alveg satt, að það er mikið að setja á stað alla þjóðina, til þess að kjósa 3 menn, en það mein læknast ekki með því að taka þá í burtu, heldur hefði mátt breyta í því þannig, að þeir væru kosnir allir í einu, og mætti þá stytta kjörtímabilið. Annars hafði mjer ekki dottið í hug, að slík breyting sem þessi kæmi fram í hv. Ed., að fella burtu landskjörna þm. alveg. Jeg hjelt, þegar sama brtt. kom fram í hv. Nd. í fyrra, að það væri aðeins fleygur. Er það þó líklega full alvara fyrir einstaka mönnum, og álasa jeg þeim ekki fyrir það, þó að jeg álíti rangt að samþ. till. Hjer er komin fram ný brtt., algerlega annars kyns en þær brtt., sem hingað til hefir verið deilt um í þessari hv. deild í ár. Hjer er farið fram á að breyta grundvellinum undir skipun þingsins, en því er jeg alveg á móti. Jeg viðurkenni sparnaðinn við þetta. En ef fækka á þingmönnum í sparnaðarskyni, þá á að gera það á þann veg, að fækka kjördæmakosnu þingmönnunum, fækka kjördæmunum, en ekki breyta skipulagi þingsins. Ef spara á þingmannatöluna, þá er sú leiðin langrjettust. Ef samþ. verður breytingin, er gengur í þá átt að fella niður landskjörnu þingmennina, þá verður um leið að athuga það, hvort eigi þurfi að breyta fleiru í sambandi við það. T. d., hvort eigi sje gerlegt, þegar kjörið er gersamlega eins í báðum deildum að hafa aðeins eina deild. Jeg fyrir mitt leyti er á móti slíkri breytingu, því að deildaskiftingin hefir þá þýðingu, að málin eru yfirleitt betur athuguð. —