27.03.1924
Efri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (1952)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Guðmundur Ólafsson:

Mjer fanst byrjunin á ræðu hæstv. forsrh. (JM) satt að segja eigi koma málinu við. Hann var að tala um það, hvað fyrir þinginu 1911 hefði vakað í máli þessu. Hann gaf þær upplýsingar, að menn hefðu verið að hugsa um að hafa 45 landsk. þingmenn, og skyldi kjósa 1/3 þeirra 4. hvert ár. Það var töluvert öðruvísi ástatt þá, enda er jeg ekki viss um, að jeg hefði þá haft kjark til að koma með slíka brtt. sem þessa. Það er eigi rjett að miða þetta nú við það, sem þingið einhverntíma fyrir löngu hefir hugsað í þessu efni, undir alt öðrum kringumstæðum. Þá útnefndi konungur helming Ed., og munu þeir venjulega hafa staðið saman að málunum, og því getað haft áhrif á úrslit þeirra í deildinni, en slíku er ekki til að dreifa nú með þá landskjörnu. Það vita allir, að þetta ástand, sem nú er, hefir ekki staðið nema síðan 1916. Jeg var á þingi þá, og jeg man, að mikið var um það talað, hvernig koma ætti fyrir landskosningunum. Sumir sparsemdarmennirnir, og þar á meðal jeg, vildu láta kjósa alla, bæði kjördæma- og landskjörna þingmenn, sama dag. En með því var skotið loku fyrir það, að sá maður, er fjelli við landskjörið, gæti boðið sig fram í kjördæmi, Jeg held, að það, að þetta fjekst eigi í gegn, hafi aðallega stafað af því, að sumir þingmenn hafi ætlað sjer að fara á landskjörlista, en hafi hinsvegar ekki viljað missa tækifærið til að bjóða sig fram í kjördæmi, ef illa tækist til fyrir þeim við landskjörið. Annars virtist mjer mótbárur hæstv. forsrh. (JM) heldur veigalitlar; þær sýna aðeins, að hann er breytingunni mótfallinn, án þess að hann byggi þá skoðun sína á nokkrum rökum. Hann var að tala um það, að skipulag þingsins mundi breytast við þetta. Jeg fæ ekki betur sjeð, en þessi mótbára sje einber hjegómi. Eða hvað mundi breytast í þessari hv. deild, þó að þingmennirnir væru allir kjördæmakosnir. Hæstv. forsrh. sagði, að samskonar brtt. og þessi hefði verið á ferðinni í hv. Nd. í fyrra, og hafði hann þá haldið, að það væri aðeins fleygur. Jeg man satt að segja ekki eftir því, að nein slík brtt. kæmi fram í fyrra í hv. Nd.; hygg þó, að svo hafi ekki verið. Jeg man, að það kom fram till. frá þáverandi þm. Strand., Magnúsi Pjeturssyni, um það, að breyta þingmannatölunni og hafa aðeins eina málsstofu. Annars býst jeg við, að þeir verði fleiri en jeg, sem ekki taka mótbárur hæstv. forsrh. (JM) alvarlega. Við vitum það, að hjer er ekki um aðra breytingu að ræða en að fella niður landskjörnu þingmennina, og finst mjer, að landskjörnu þm. hjer í deildinni þurfi eigi að amast við því frekar en við hinir. Þeir hafa þá sömu aðstöðu og kjördæmakjörnir til að eiga sæti á Alþingi framvegis. Jeg kem einnig auga á einn kost, sem breytingu þessari fylgir, eins og þingið er nú skipað, en hann er sá, að stjórn, sem nú er nýmynduð, hefði eigi fæðst með jafnmiklum harmkvælum, sem raun varð á, ef landskjörnu þingmennirnir hefðu ekki verið til, því að þá hefði íhaldið verið nógu sterkt til þess að stilla upp mönnum í stjórnina í snatri. Því, eins og kunnugt er, skiftast nú háttv. landsk. Í 3 jafna flokka hjer í deildinni. Það, sem vakir fyrir okkur flm., er alls ekki það að bola vissum mönnum burt úr þinginu, heldur aðeins að fækka þingmönnum; enda geri jeg ráð fyrir, að þeir þingmenn, sem landskjörnir eru, eigi ekki erfitt með að ná kosningu í kjördæmum við næstu alþingiskosningar. Get jeg ekki að því gert, að jeg vorkenni hæstv. forsrh. (JM) að hafa á móti þessu með jafnveigalitlum rökum.