27.03.1924
Efri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (1953)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Eggerz:

Jeg vildi leyfa mjer að minna á það, að þegar mál þetta var fyrst fyrir hjer, þá benti jeg á það, að ef farið væri að koma með brtt. á stjórnarskránni, þá mundi ekki sitja við þá einu breytingu, heldur mundu fleiri sigla í kjölfar hennar. Hefir sú spá mín nú rætst. Jeg skildi svo hv. 5. landsk. (JJ), að það væri aðallega eitt atriði, sem flokkur hans hefði sjerstaklega hug á að kæmist fram, sem sje það, að þing verði háð aðeins 2. hvert ár. Nú hafa 2 hv. þm. komið fram með þessa brtt. um að raska skipulagi þingsins, svo að jeg þarf eigi að kvarta um það, að spá mín hafi eigi rætst. Jeg skal taka það fram, að jeg er algerlega mótfallinn brtt., og er jeg samdóma hæstv. forsrh. (JM) um, að eigi sje rjett að hreyfa við þessu atriði stjórnarskrárinnar. Álít jeg það mikinn kost við að hafa landskjörnu þingmennina, að þeir eru lausir við þetta kjördæmajag, sem aðrir þingmenn eru meira og minna bundnir við. Liggur það í hlutarins eðli, að þeir þingmenn, sem við þetta kjördæmajag eru lausir, eru að jafnaði, eða geta verið, miklu víðsýnni um stjórnmál landsins en hinir. Jeg lít því svo á, að það eigi ekki að breyta þessu. Það eiga að mínu viti að sitja á þingi 6 menn kosnir af öllu landinu. En eins og jeg tók fram áðan, þá er nú svo komið, að spá mín er að rætast. Er enginn efi á því, að þó að stjórnarskráin fari svona út úr þessari hv. deild, þá koma fram í hv. Nd. ótal brtt. við hana. Þannig er það t. d. skoðun ýmissa hv. þingmanna, að þingið eigi að vera aðeins ein málsstofa. Álít jeg eigi rjett að vera að auka eldana hjá þjóðinni í þessu efni. Væri æskilegt, að þingið ljeti þetta mál hvíla um stund, svo að það yrði hugsað betur en nú hefir verið gert. Jeg veit, að sú krafa hefir komið fram hjá þjóðinni að hafa þing aðeins 2. hvert ár. En jeg er sannfærður um það, að ef þjóðinni verður gert það ljóst, að þó að ákveðið verði í stjórnarskránni að hafa þing aðeins 2. hvert ár, þá muni þó samt sem áður þing verða háð á hverju ári, bæði vegna þess, hversu margbreytilegt líf þjóðarinnar er orðið, og þess, að mörg þau mál geta komið fyrir, sem landsstjórnin treystir sjer ekki til að ráða til lykta ein, þá mundi hún falla frá þessari kröfu. Flestar aðrar þjóðir telja það nauðsynlegt að láta þing sitt sitja á rökstólum alt árið, og ætti okkur þá ekki að veita af stuttum tíma ár hvert. Það eru sannarlega ekki tímar til þess nú að veikja Alþingi; ætti frekar að gera alt til þess að styrkja það. Jeg veit, að mál þetta er skoðað sem sparnaðarráðstöfun. Þar sem nú er fyrirfram vitað, að þessar breytingar falli, þá verður sparnaðurinn af þessum umræðum líkt og sparnaðurinn við umræðurnar um prentun Þingtíðindanna og fleiri mál, sem allir vita fyrirfram, að ganga ekki fram, eða með öðrum orðum ekki annað en eintóm óþörf útgjöld. En lítil hugfró er það fyrir þjóðina. Annars er lítil ánægja að því að horfa á þennan skilmingaleik milli tveggja stóru flokkanna, út af stjórnarskránni, sem ekki hefir annað mark en að hver um sig vill reyna að klína á hinn, að hann hafi verið banamaður stjórnarskrárinnar. En þeir, sem sjá inn fyrir grímurnar, vita, að báðir vilja dauðfegnir koma þeim draug niður, sem búið er að vekja upp í þinginu í þessu efni.