27.03.1924
Efri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (1957)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Forsætisráðherra (JM):

Svo var að skilja á hv. 5. landsk. (JJ), að enginn landsk. þm. væri nokkurs nýtur, nema hann og líklega hv. 2. landsk. (SJ). Jeg ætla ekki að svara slíkum aðdróttunum, en öruggur þori jeg að leggja þetta atriði undir dóm þjóðarinnar. Að minsta kosti fjekk jeg heldur betri svör en hv. þm. (JJ), síðast, þegar við spurðum þjóðina. Við skulum þó ekki vera að metast á þennan hátt, enda er jeg hræddur um, að við verðum hvorugur álitinn óvilhallur dómari um þessi mál, því að hætt er við, að hvor þykist góður fyrir sinn hatt. Það, sem hv. þm. (JJ) talaði um hin einstöku mál, sem hinir landsk. þm. hafa átt atkvæði um, var að mestu fánýtt hjal. Það verða aðrir en við að dæma um það, hvort sá sje betri, sem ekki vill spara nokkra tugi þúsunda með því að hætta að prenta þingtíðindi, heldur en hinn, sem berst fyrir þeim sparnaði. Og svona mætti lengi telja. Annars þótti mjer ræða háttv. þm. (JJ) svo ómerkileg, að jeg nenti ekki að skrifa hjá mjer neitt af því, sem hann sagði.

Jeg vil aðeins svara því, sem hann sagði um tölu ráðherranna. Það er enginn vafi á því, að stjórnarskráin gerir ráð fyrir þremur ráðherrum, en jeg hefi áður lýst því yfir, að forsvaranlegt muni vera, að þeir sjeu aðeins tveir, að minsta kosti um stund, sjerstaklega ef svo væri ástatt, að einn fjelli frá, t. d. milli þinga. Þetta tók jeg fram, bæði þegar jeg lagði fram stjórnarskrána á sínum tíma, og eins þegar þál. um fækkun ráðherra var til umr. á þingi 1922. Háttv. þm. (JJ) hefir líka lýst því yfir, að þetta væri sín skoðun. Þegar hann nú hefir viðurkent, sem og rjett er, að stjórnarskráin ætlist til, að ráðherrar sjeu þrír, hvernig getur hann þá ásakað mig fyrir að mynda þriggja manna stjórn, beint samkvæmt fyrirmælum stjórnarskrárinnar?

En af þessu leiðir ekki, að ráðherrar þurfi að vera þrír, og þessvegna hefi jeg borið fram þessar breytingar. Þetta sýnist vera ofurljóst, þó að það kunni að vefjast eitthvað fyrir háttv. 5. landsk. (JJ). Jeg man ekki, hvort jeg var farinn af þingi 1922, þegar endanleg úrslit voru tekin um þál. um fækkun ráðherra, án þess að breyta stjórnarskránni, en mig minnir, að hún væri feld, enda byrjaði sú stjórn, sem Framsóknarflokkurinn stóð þá sjerstaklega á bak við, með 3 ráðherrum, og var það af hreinni tilviljun, að það breyttist. Jeg get því ekki skilið, að rangt sje af mjer að fylgja því loflega dæmi, sem Framsóknarflokkurinn þá gaf. Það er rjett, að síðar urðu ráðherrarnir aðeins tveir, en margir mikilsmetnir lögfæðingar segja, að þeir eigi að vera þrír samkv. stjórnarskránni. Það er því engin mótsögn að mynda stjórn með þrem ráðherrum og bera fram breytingu um, að ráðherra sje aðeins einn. Það er fyrst eftir að breytingin er komin í kring, að hægt verður að átelja þriggja manna stjórn með nokkrum rjetti.

Hv. 5. landsk. (JJ) heldur stöðugt, að gildi þingmanna fari eftir því, hversu mikið þeir tali. Jeg held, að hið sanna þinggildi manna sje jafnvel öfugt. Mjer virðast ræður þm. vera því lakari, sem þær eru lengri og mærðarfyllri, enda mun þessi mælikvarði hv. þm. (JJ) ekki vera lagður á þingmenn annarsstaðar, og ekki heldur hjer, eftir því sem mjer er best kunnugt. Jeg þykist ekki þurfa að svara fleiru í ræðu háttv. 5. landsk. (JJ). Jeg vil helst ekki tala um önnur mál en eru til umr. í hvert skifti, ef mögulegt er að komast hjá því.