27.03.1924
Efri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (1958)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Jónas Jónsson:

Jeg er mjög ánægður með það, að hæstv. forsrh. (JM) hefir ekki sjeð sjer fært að verja meinlokur þær, sem felast í frv. hans, sem sje þær, að fækka ráðherrum, auka skrifstofuvaldið í Reykjavík og lengja kjörtímabilið.

Jeg tel þetta gleðilegan vott þess, að hæstv. forsrh. (JM) sje altaf meira og meira að verða mjer samdóma, og er ekki ósennilegt, að það komi fram í meðferð flokksmanna hans í háttv. Nd. Jeg þarf ekki að vera langorður um aðalatriðið, þing annaðhvert ár, því að svo virðist, sem það muni ná samþykki háttv. deildar. Hæstv. forsrh. (JM) byrjaði ræðu sína á því, að jeg teldi enga landsk. þm. nokkurs nýta, nema mig og hv. 2. landsk. (SJ). Mín ummæli hafa nú aldrei gefið tilefni til slíkrar ályktunar. Jeg dæmi þessa háttv. þm. eftir framkomu þeirra í ýmsum málum, orðum þeirra og atkvgr., en mintist ekki á aðra en þá, sem hafa í verki brotið af sjer traust kjósenda.

Þá kem jeg að öðru atriði, sem mjer fanst hæstv. forsrh. ekki leysa á viðunandi hátt, hversvegna hann sá ástæðu til að mynda stjórn með þrem mönnum, þar sem flokkur hans þykist vera sparnaðurinn íklæddur holdi og blóði, og þar sem gera hefði mátt ráð fyrir, að forkólfarnir sýndu hinn ítrasla sparnað í þessu efni. Jeg er að vísu sammála honum um það, að stjórnarskráin virðist gera ráð fyrir fleirum en tveimur ráðherrum, en orðalag hennar og andi bannar hvergi, að komist verði af með tvo. Enda hefir því ekki verið haldið til streitu, að tala þeirra yrði ákveðin með lögum 2, vegna þess fordæmis, sem hæstv. forsrh. hafði gefið árið 1922, þegar hann sat í stjórn við annan mann fram á mitt þing, án þess að fundið væri að því. Við höfum altaf haldið því fram, að ráðherrar ættu að vera tveir, en kannske þrír á sjerstaklega erfiðum tímum, og ætti formaður stjórnarinnar að ráða fram úr því spursmáli, og gæti hann með því sýnt sparnaðarviðleitni sína. Því er ekkert ósamræmi í því, að við árið 1922 styddum þriggja manna stjórn, en værum í fyrra ánægðir með tvo. Við viðurkendum sparnaðinn að fækka þeim í fyrra, og töldum þá tölu lægsta, sem komist yrði af með.

En engar slíkar afsakanir duga þeim, sem leggja líf og blóð í sölurnar fyrir að fækka ráðherrum niður í einn. Því að þegar stjórnarskráin bannar hvergi, að þeir sjeu 2, þá er engu nú til að dreifa, öðru en því, að í Íhaldsflokknum hafa a. m. k. verið þrír menn, sem vildu gera það fyrir fósturlandið að taka sæti í stjórn á þessum erfiðu tímum, jafnvel þó að með því yrði brotið eitthvað og beiglað af „principunum“. Það myndi allrasíst vera átalið, heldur þakkað, bæði af þingi og vafalaust af kjósendum, ef ráðherrar væru aðeins 2.

Þá virtist svo, sem hæstv. forsrh. (JM) vildi halda því fram, að þingmenn væru því betri, sem þeir töluðu minna. Jeg hefi aldrei litið svo á, að óhjákvæmilegt væri, að þm. töluðu mikið, en hinu hefi jeg haldið fram, að þörf væri á því fyrir hvern þm. sem er, að geta talað fyrir atkvæði sínu, ef þörf krefði. Jeg held t. d. að hæstv. forsrh. væri illa staddur í sinni vandasömu stöðu, ef hann væri mállaus, svo að hvorki við, nje stuðningsmenn hans, vissu, hvað bak við athafnir hans lægi.

Þegar þm. greiða atkv., sem jafnvel gefa smyglurum og öðrum stórglæpamönnum meðhald, þá er gott fyrir landsmenn að vita, hvað felst á bak við þá atkvgr. Og af því að hæstv. forsrh. (JM) er svo lærður í „parlamentarisma“, þá vil jeg spyrja hann, hvort hann viti þess nokkur dæmi, að ráðherra í nokkru landi hafi verið mállaus.

Hæstv. forsrh. (JM) hefir ekki nægilega skýrt, hvaða samræmi er í því að vilja spara á Þingtíðindunum, en ekki hinu, að hafa ráðherra aðeins 2, eða þá því, að fella niður umboð hinna landsk. þm. Því að nú hefi jeg oft skilið hann svo, að hann teldi ekki illa farið, og jafnvel æskilegt, að jeg hyrfi af þingi, og ætti hann þá að vera feginn að geta gripið tækifærið, sem nú býðst, til þess að losna við mig. Jeg mun taka það sem „kompliment“, ef hann nú snýst á móti þessari till., því að þá verð jeg að líta svo á, að hann telji ekki svo mikla nauðsyn á, að jeg fari, að hann vilji þar fyrir fórna bæði sjálfum sjer og sínu nánasta vandafólki, t. d. hv. 3. og 6. landsk.