27.03.1924
Efri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (1959)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Forsætisráðherra (JM):

Jeg man nú reyndar ekki eftir því, að jeg hafi nokkurn tíma látið í ljósi þá ósk, að hv. 5. landsk. (JJ) hyrfi hjeðan af þingi, enda sæti það illa á mjer, þar sem mitt ljós skín miklu bjartar meðan hann er hjer en ella. Þó að jeg hafi ekki sókst eftir því, þá hefir nú ekki hjá því orðið komist, að jeg hefi oft fengið tækifæri til þess að sýna þingmannsyfirburði mína yfir þenna hv. þm. (JJ).

Þar sem hv. 5. landsk. (JJ) talaði um, að jeg hafi ekki aftur farið að verja hin einstöku atriði í frv. mínu, þá vil jeg benda honum á það, að þetta er 3. umr. málsins, og á því ekki við að ræða önnur atriði þess en þau, er brtt. hafa komið fram við, og svo frv. í heild, en það er óleyfilegt, skv. þingsköpum, að taka af handahófi einstök atriði frv. og ræða þau við þessa umr. Og nú, þegar ríður á að flýta þingstörfum, þá dettur mjer ekki í hug að fara að ræða um ársgömul mál, sem þessu frv. koma ekkert við. Það er ómögulegt að ætlast til slíks. Sjerstaklega vil jeg ekki úr þessu sæti taka þátt í þeirri óreglu að blanda saman öllum hugsanlegum málum við það mál, sem er til umr.

Það er leiðinlegt að þurfa sífelt að vera að jagast um sömu atriðin, eins og hv. 5. landsk. (JJ) vill vera láta — og jeg geri það ekki. Það verður að fara sem fara vill um þetta mál. En það sýnist mjer vesöl ástæða fyrir að fella niður landskjörið, þó að það kunni að hafa mistekist með einstaka þingmann. Það blandast víst engum hugur um það, að kjör kjördæmakosinna þm. hafi oft og tíðum engu síður mistekist, og enda miklu fremur ástæða til að ætla, að svo geti orðið. Þó er enginn kominn til að segja, að þar fyrir skuli fella niður kjördæmakosningar, sem væri álíka rökrjett.