02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

1. mál, fjárlög 1925

Þorleifur Jónsson:

Jeg hjelt, að jeg mundi ekki þurfa að taka aftur til máls við þessa umræðu. En út af fáeinum vinsemdarorðumn, sem hæstv. fjrh. sendi mjer og tveim öðrum þm. úr Framsóknarflokknum, finn jeg mig til knúðan að mæla nokkur orð.

Hæstv. fjrh. hefir þótt vel við eiga að halda hjer eldhúsdag yfir fráfarinni stjórn, fyrverandi þingum og Framsóknarflokknum og einstökum mönnum úr honum. Þessi eldhúsdagur hæstv. fjrh. er nokkuð óvenjulegur og verður líka æðitímafrekur. Jeg þykist sannfærður um, að þessi eldhúsverk hafi nú lengt þessa 3. umræðu fjárlaganna alt að helmingi.

Hæstv. fjrh. rjeðst í lok ræðu sinnar af miklum móði á okkur þrjá þm. úr Framsóknarflokknum, hv. þm. S.-Þ. (IngB), hv. þm. Mýra. (PÞ) og mig, fyrir þær sakir, að við hefðum verið því fylgjandi á þingi 1922 að fresta prentun Alþingistíðindanna en værum nú annars hugar. Jeg skal nú að vísu játa það, að jeg og þessir hv. þm., sem jeg nú nefndi, vorum því þá fylgjandi að fresta prentun Þingtíðindanna. En það voru sjerstakar ástæður, sem til þess lágu og jeg skal nú greina frá.

Þegar það kom í ljós á þinginu 1922 hvað prentunarkostnaður Þingtíðindanna hafði orðið gífurlega mikill 1921, þá fanst mörgum nauðsynlegt að gera tilraun til að færa þann kostnað eitthvað töluvert niður.

Það varð nefnilega augljóst þá, að prentun á umræðuparti Alþingistíðindanna 1921 kostaði sem hjer segir;

B-deild …. kr. 24552,50

C. — .… — 7397,50

D. - …. — 6429,95

Samtals kr. 45919,95

og allur kostnaður við Alþingistíðindin það ár varð kr. 103188,75. Nú þótti það allgeigvænlegt, ef þessi kostnaður hjeldi svona áfram, og því tóku allmargir þm. það ráð, þó sumum þætti það hálfgert neyðarúrræði, að koma með till. um það að fresta prentun á umræðunum, ef kostnaðurinn við prentunina þyrfti að vera svo gífurlegur. En frv. var jafnframt borið fram í þeim tilgangi að koma í veg fyrir það okur, sem mönnum þótti prentsmiðjurnar þá beita. Þetta frv. var samþykt í Nd., og fylgdi jeg því fyrir sparnaðarsakir, en líka meðfram til þess að sjá, hvort ekki mundi hægt að fá betri kjör hjá prentsmiðjunum, er þær sæju, að þinginu væri alvara með að taka svona í strenginn. Og þetta fór svo, að þótt frv. fjelli í þinginu, þá náðist samt sá árangur, að prentsmiðjurnar lækkuðu sínar kröfur um 20%. Og meðfram fyrir þessa lækkun feldi hv. Ed. frv., eða ljet það ekki ganga fram. Það fór líka svo, að 1922 varð allur kostnaður við prentun Alþingistíðindanna ekki nema 43554 kr., og þar af kostaði prentun umræðupartsins aðeins 18500 kr.

Þetta vanst þá á við meðferð málsins á þinginu 1922. Nú stendur öðruvísi á. Því er ekki til að dreifa, svo jeg viti, að prentsmiðjurnar hafi sýnt Alþingi að þessu sinni neina óbilgirni, og það verður ekki sjeð, að kostnaðurinn við prentun á umræðunum nú þurfi að fara fram úr því, sem var 1922. Þingið 1922 stóð lengur en búist er við, að þetta þing standi. Verða því umræðurnar að líkindum styttri, og þar með minni kostnaðurinn. Verði hann ekki yfir 20 þúsund, sje jeg alls ekki að brýn þörf sje á því að hætta prentun umræðnanna. Má líka búast við, að óhjákvæmileg vjelritun á nokkrum eintökum yrði nokkuð dýr, auk þess sem má taka það fram, að engum dettur í hug, að hjer sje um að ræða að fella alveg niður prentunina, heldur fresta henni aðeins um 2–3 ár, og verð jeg því að játa, að jeg sje ekki hvað er unnið. Enda verður að teljast vafasamt að varpa á seinni tímann svo og svo mörgum nauðsynlegum fjárgreiðslum, því að aldrei er með vissu hægt að segja, hvað framtíðin felur í skauti sínu. Jeg segi það því óhræddur, að jeg er af góðum og gildum ástæðum á öðru máli um þetta en áður. Og jeg hefi orðið var við það, að almenningur er víða mjög andstæður því, að prentun umræðnanna verði hætt. Þó blöðin kunni að flytja eitthvert hrafl af ræðum, þá halda fáir þeim saman og þau glatast, enda geta þau ekki tekið upp annað en þá sumar aðalræðurnar, en alls ekki gefið nægilegt heildaryfirlit. Eftir því, sem stjórnmálalegur þroski almennings eykst, verður áhuginn meiri og hvötin ríkari til að kynnast því, sem fram fer á þinginu.

Hæstv. fjrh. brá okkur um það, að við hefðum haft skoðanaskifti í þessu máli. Já, — þó svo væri, þá væri það ekki einsdæmi, þar sem mjer er óhætt að fullyrða að tveir af helstu flokksbræðrum hans, sem 1922 voru mjög andstæðir því að hætta prentun umræðnanna, fylgja því nú fast fram, að nú sje hætt að prenta, og það þótt kostnaðurinn verði meira en helmingi minni en 1921. Hæstv. fjrh. flytur nú um þetta brtt. við fjárlögin, þrátt fyrir það, þótt frv., sem fór í sömu átt. hafi verið felt hjer í deildinni. Og þó að eins vel sje búist við því, að till. hæstv. fjármálaráðherra verði vísað frá sem ólögmætri, þá vildi jeg þó gera hreint fyrir mínum dyrum og lýsa afstöðu minni til málsins í heild.

Jeg vil að endingu taka það ennþá fram, að jeg sje ekki neina ástæðu til að stimpla okkur fyrir skoðanaskifti. Það stóð alt öðruvísi á 1922. Þá var prentunin hreinasta okur. Nú er allur kostnaður miklu lægri, prentun sanngjörn og líklegt að umræður verði allmiklu styttri. Sjáum við því ekki neina ástæðu til, að það, sem þingið gerir 1925, verði hulið myrkri, einkum þar sem sparnaðurinn verður ekki eins mikill og látið er, þó að prentun umræðnanna verði hætt. Má þar benda á, að gert er ráð fyrir talsvert lengri og ítarlegri nefndarálitum og búast má við, að vjelrita þurfi 10–15 eintök. Og hjer er aðeins verið að tala um að slá prentun umræðnanna verði hætt. Má þar aðurinn er rjett á litið enginn.

Loks vildi jeg minnast á það, að þessi þriðja umræða fjárlaganna er orðin nokkuð löng; hefir staðið í tvo sólarhringa. Væri því æskilegast, að menn færu nú að verða fáorðir, svo að ekki þyrfti ennþá að eyða í umræðurnar einum degi í viðbót.