27.03.1924
Efri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (1961)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Guðmundur Ólafsson:

Jeg get ekki annað en álitið, að það hafi verið fremur til styrktar málstað okkar, flutningsmanna brtt. á þskj. 189, hvernig hv. 1. landsk. hóf mál sitt. Því að hann lagði ekki áherslu á það, eins og hæstv. forsrh., að þetta væri ofmikil breyting á skipulagi þingsins, heldur færði hann fram ýmis ennþá ljettvægari rök gegn brtt. Hv. 1. landsk. (SE) sagði sem sje, að landsk. þm. væru lausari frá öllu kjördæmajagi, og þyrftu ekki að taka tillit til neinna sjerstakra hjeraða eða hreppapólitíkur, og væru því yfirleitt víðsýnni en kjördæmakjörnir þingmenn. En mjer finst jeg ekki hafa orðið var við, að landskjörnu þingmennirnir bæru yfirleitt neitt af þeim kjördæmakjörnu, hvorki með víðsýni nje annað. Jeg get því ekki álitið þessa röksemdaleiðslu hv. 1. landsk. annað en fleipur. Ræða hans sýndi það yfirleitt, að hjer er ekki um neitt viðsjárvert stórmál að ræða. Hann álítur, að það sje rangt að vera að gera nokkrar verulegar breytingar á stjórnarskránni, og hann hjelt því sömuleiðis fram, að það væri ekki til neins að vera að ræða um svona lagaðar breytingar til sparnaðar, því að þær yrðu aldrei samþyktar, en hefðu aðeins kostnað í för með sjer, þann kostnað, sem leiðir af umræðunum um málin. Og hann sagði, að ef þetta næði fram að ganga, þá mundi það líta kynlega út, að þingið sjálft skapaði höfuð sitt.

Hv. 1. landsk. (SE) mælti einnig í móti aðalbreytingunni, um þing annaðhvert ár. Honum fanst ekki veita af stuttu þingi á hverju ári. Það er sama röksemdaleiðslan og notuð var, þegar rætt var um að koma þeirri breytingu á, að halda þing á hverju ári. Þá var því haldið fram, að ef þing væri á hverju ári, þá mætti hafa það mjög stutt, en reyndin hefir nú samt orðið sú, að þingin hafa alls ekki orðið styttri, heldur einmitt lengri, síðan tekið var að halda þing á hverju ári.

Hv. 1. landsk. tók grískudósentinn sem dæmi upp á það, hve illa gengi að koma fram sparnaðarmálum á þinginu, og hve litla þýðingu það hefði að bera slík mál fram.

Jeg er hv. þm. sammála um það, að það er ilt að eyða tíma og fje í að tala um sparnað, sem aldrei kemst í framkvæmd. En hvernig eigum við að fara að? Það er á svo mörgum sviðum, sem þörf er á að spara, og þjóðin heimtar sparnað. Og jeg vil benda hv. 1. landsk. (SE) á það, að honum hefir orðið það á, engu síður en öðrum, að bera fram sparnaðarfrumvörp, sem hafa fallið, og eyða þannig tíma og fje í árangurslausar sparnaðartilraunir. Hann bar fram á þinginu í fyrra stórt frv. um sýslumannaembætta-samsteypur, og það fjell. En þó að ýms sparnaðarmál falli, eins og t. d. afnám grískudósentsins og prófessorsins í hagnýtri sálarfræði, þá dugar ekki að leggja algerlega árar í bát, því að einhverntíma hlýtur þó að koma að því, að augu þingsins opnist og sjálfsagður sparnaður nái fram að ganga. Og jeg er fullviss um, að fyr verður grískudósentinn og prófessorinn í hagnýtri sálarfræði lagðir niður en sýslumannaembættasamsteypan nái fram að ganga, nema þá að mjög litlu leyti.

Hvað því viðvíkur, að þeir landsk. vinni mikið gagn að því er snertir íhald og festu í þinginu, fram yfir þá kjördæmakjörnu, vil jeg benda á það, að þeir hafa einmitt oft gengið mjög hart fram í því að gera nýmæli að lögum, þegar á fyrsta þingi, er þau hafa komið til umr., og sum þeirra ekki þörf. Hv. 1. landsk. gerðist mjög skáldlegur, er hann tók að tala um blóð stjórnarskrárinnar, er mundi lenda á stærstu flokkunum. En jeg vil benda hv. 1. landsk. á það, að hvorki hann eða hans flokkur mun verða laus við blóðbaðið, ef stjórnarskráin verður drepin. Og það er meira að segja hans flokki aðallega að kenna, ef allar brtt. við stjórnarskrána verða drepnar, því að mjer þykir líklegt, að Íhaldsflokknum sje, og er viss um, að Framsóknarflokksmönnum er það mikið áhugamál að bjarga þessum breytingum á stjórnarskránni gegnum þingið. Ef þeir flokkar væru einir um hituna, er því líklegt, að það tækist.

Hv. 1. þm. Rang. (EP) talaði um það, að eftir hans áliti væru aðeins tvær breytingar á stjórnarskránni, sem ættu rjett á sjer, og það var sú breyting, að hafa þing aðeins annaðhvert ár, og fækkun ráðherra. Og sami hv. þm. hjelt því fram, að ekki hefðu komið fram óskir um aðrar breytingar frá þjóðinni. Jeg veit vel, að það hafa komið fram óskir frá þjóðinni um þing annaðhvert ár, en alls ekki um fækkun ráðherra eða lenging kjörtímabilsins. Jeg veit líka, að það er almenn mótstaða móti því, meðal þjóðarinnar, að kjörtímabilið verði lengt. Og það var slík mótstaða, sem ýtti undir okkur flm. með að bera fram þessa brtt. Við vildum losna við hið gífurlega langa kjörtímabil hinna landsk. þm., með því hreint og beint að leggja landskjörið niður. Hv. þm. (EP) talaði ennfremur um það, hvað hann hefði áður hugsað viðvíkjandi skipulagi efri deildar, en mjer finst nú vera tómt mál að tala um það nú, úr því hann kemur þá ekki með brtt. í þá átt.

Jeg get alls ekki verið hv. 1. þm. Rang. (EP) sammála um, að það hafi nokkurn glundroða í för með sjer, þó að ráðherrar sjeu fleiri en einn, eða að þjóðin viti síður til hvers hún á að snúa sjer, ef ráðherrar eru fleiri. Jeg held, að þetta sje alls ekki rjett hjá hv. þm., því að forsrh. er höfuð stjórnarinnar, og því hægt að snúa sjer til hans með öll mikilvæg málefni. Jeg get því alls ekki fallst á, að það sje neitt einfaldara fyrirkomulag að hafa 1 ráðherra og landritara.

Hvað því viðvíkur, að frv. verði eigi komið í rjett form, þegar það fer út úr deildinni, ef brtt. verður samþykt, þá skal jeg taka það fram, að brtt. okkar háttv. 1. þm. Eyf. spillir því ekkert, og jeg get ekki sett þann galla, sem nú er á frv., neitt fyrir mig. Hv. neðri deild mun laga það, sem frv. er nú áfátt í því efni.

Hv. 1. þm. Rang. (EP) kom fram með þá mótbáru móti niðurlagningu landskjörsins, að það væri óheppilegt, að nýkosið þing smíðaði sjálft á sig höfuðið. Í því sambandi vil jeg benda hv. þm. á, að þingið gjörir það í raun og veru nú, því að það kýs meirihluta deildarinnar, því að þeir landskjörnu eru aðeins 6 af 14 deildarmönnum.

Hv. þm. talaði ennfremur um, að hann hefði helst kosið, að öll Ed. væri landskjörin, og jeg skal játa það, að ef svo væri, þá væri meira vit í þeim óhemjukostnaði, sem fer í landskjörið. En mjer finst hinsvegar, að landskjörnu þingmennirnir sjeu ekkert sjerstaklega nauðsynlegir fyrir þjóðina, og því megi vel leggja þá niður og losna þar með við þann mikla kostnað, sem þeir hafa í för með sjer fyrir þjóðina.