27.03.1924
Efri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (1963)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Jónas Jónsson:

Jeg vil fyrst minnast nokkuð á ræðu hv. 1. þm. Rang. (EP). Hann fór algerlega villur vegar, þegar hann hjelt því fram, að það væri óviðeigandi að koma fram með nýjar brtt. nú, því að samkomulag hefði annars getað fengist um aðeins að fækka þingum. En þetta er gagnstætt sannleikanum. Í allshn. var því haldið til streitu af meirihl. nefndarinnar að fækka ráðherrum niður í einn og lengja kjörtímabilið í 6 og 12 ár. En þetta eru auðvitað aðeins „fleygar“, sem ætlaðir eru til að drepa frv., því að þessar breytingar hefir þjóðin alls ekki beðið um og víst má heita, að hv. Nd. fellir, og þá máske frv. með öllu, eins og í fyrra. En það hefði verið í lófa lagið að koma gegnum deildina frv. um fækkun þinga, ef meirihl. allshn. hefði ekki haldið til streitu lenging kjörtímabilsins, og að hafa aðeins einn ráðherra. Enda hefir það orðið til þess, að tveir háttv. þm. hafa neyðst til þess að bera fram brtt. þess efnis, að leggja niður landskjörna þm., til þess að losna við hið óhæfilega langa kjörtímabil, sem þeim er ætlað. Þá sagði sami hv. þm., að ábyrgðartilfinning stjórnarinnar yrði minni, ef ráðherrar væru fleiri en einn, og úr mismunandi flokkum. Það leit helst út eins og þetta ætti að vera ásökun til þeirrar stjórnar, sem sat að völdum frá 1917–1922, því það er eina eiginlega samsteypuráðuneytið, sem hjer hefir verið við völd. Jeg veit ekki, hvað hæstv. forsrh. kann að segja um þetta, því að það er hann, sem þessari ásökun helst getur verið beint til, og hann er líka manna kunnugastur þessum efnum, þar sem sökin bitnar þá mest á honum. Röksemdir hv. þm. um það, að á stríðsárunum hefði þurft að fjölga ráðherrum sökum þess, að stjórnarstörfin hefðu verið svo erfið, eiga enn við, þótt friðartímar sjeu. Ástandið er síst betra nú en á stríðsárunum, því að á stríðsárunum flaut hjer alt í peningum, en nú er sú versta fjárkreppa, sem komið hefir yfir þetta land.