02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

1. mál, fjárlög 1925

Magnús Torfason:

Háttv. frsm. fjvn. (ÞórJ) vildi gera lítið úr þeim upplýsingum, sem jeg gaf um hagnað þann, er Grímsnesbúar hefðu haft af Geysishúsinu. Og vildi hann í því efni vefengja endurskoðaða reikninga. En þegar það er gert, þá er ekki hægt annað en að athuga, hversu miklu ódýrara það var selt en vera bar, og þá ekki síst fyrir það, að maður sá, er beitti sjer fyrir sölu hússins, hefir orðið fyrir miklum árásum út af því, og því var skýrsla mín nauðsynleg. Jeg vil í þessu sambandi minna á það atriði, sem átti að vera til þess að fella till. hv. 2. þm. Árn. (JörB) um að fá hækkaðan styrkinn, sem sje að í fyrra bar Eiríkur Einarsson, þáv. 1. þm. Árnesinga, fram tillögu um aðeins 3000 kr. styrk. Í símtali hefir hann sagt mjer, að sjer hafi þótt 3000 kr. betra en ekki neitt, og því ekki farið fram á meira. Annars mun jeg koma að því seinna. — Þá vildi jeg minnast lítið eitt á Eyrarbakkabryggjuna. Því er svo varið, að ef ekki fæst styrkur til hennar, þá verður fyrirtækið að hætta, og er það illa farið, þar eð margir menn hafa lagt fje í það, en eru ekki megnugir að halda fyrirtækinu áfram hjálparlaust. Þetta er endurveiting, sem talið hefir verið sjálfsagt að endurnýja, ef verkið er hafið. Að taka upp nýja reglu fyrirvaralaust er því brot gegn rjettmætum vonum manna. Sama er að segja um Hreppamenn. Þeir eru narraðir með styrk í fjárlögum til þess að byggja smjörbú, en síðan eru samþykt lög, sem banna það. Er jeg ekki í nokkrum vafa um það, að ef þeir færu í mál við stjórnina, þá mundu þeir vinna það. — Þá vildi jeg minnast á styrkinn til Þórdísar Símonardóttur júbil-ljósmóður. Fanst mjer leggjast lítið fyrir hv. fjvn. að leggjast á hana. Hún er orðin háöldruð kona, yfir sjötugt, og hefir gegnt ljósmóðurstörfum um 30 ár. Skildist mjer á hv. frsm. fjvn., að nefndin hefði ekki verið sammála um þetta frekar en ýms önnur mál, en þó hefir það orðið úr, að nefndarmenn stæðu sem einn maður á móti þessari konu. Er það ill regla og ómannleg, að launa svo langa og dygga starfsemi í þjónustu landsins. — Þá vildi jeg taka undir með hv. 2. þm. Rang. (KlJ) hvað snertir 60 þús. kr. styrkinn til Eimskipafjelags Íslands, að það er mjög hættulegt að ganga inn á þá braut. Því að moka þannig í það fje er hið sama sem að segja við það, að það þurfi ekkert að hugsa um hag sinn; það geti í því efni syndgað rólegt upp á náðir þingsins. Vona jeg, að hv. fjvn., sem er svo sparsöm í öllu smáu, verði mjer samdóma um þetta. — Þá hefi jeg ástæðu til að minnast á till. hæstv. fjrh. um landhelgisgæsluna. Eins og sjá má af frv. því, er jeg kom með, þá er jeg því meðmæltur, sem hæstv. fjrh. leggur til, en get þó ekki fylgt till. hans eins og hún liggur fyrir. Mun jeg því hallast að till. hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Sú regla, að breyta almennum lögum með fjárlögum, getur haft glæfralegar afleiðingar. En sem sagt, jeg vil ekki áfellast hæstv. fjrh.; tel ekki nema eðlilegt, að hann hafi ekki tekið eftir þessu. Það hefir verið sagt, að þetta væri frestun eða afnám laganna aðeins um eins árs skeið, eða eitt fjárhagstímabil. En það er af því, að fjárlögin gilda ekki nema eitt ár. Giltu þau tvö ár, væri þessum lögum þar með frestað um tvö ár. Einmitt af þessu, að fjárveitingarvaldið getur breytt því, sem löggjafarvaldið hefir ákveðið, mundi stafa einstakur glundroði, og það situr síst á formanni Íhaldsflokksins að ganga á undan í þessu efni. Íhaldsmenn í öðrum löndum hafa einmitt haldið hart fram minni skoðun. Vonast jeg því til, að hv. þdm. fallist á till. hv. 3. þm. Reykv.