31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (2017)

87. mál, einkasala á tóbaki

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal ekki vera langorður. Jeg get tekið það strax fram, að jeg get ekki verið fylgjandi þessu frv. Hv. flm. (JakM) gat þess, að jeg hefði búist við meiri tekjum af tóbakseinkasölunni en raun hafi á orðið. En jeg vil leyfa mjer að benda honum á, að frsm. hv. meirihl. fjhn. (SvÓ) gerði árið 1921 ráð fyrir 200 þús. kr. í tekjur, eins og orðið hefir. Hitt er satt, að í upphafi var gert ráð fyrir hærri tekjum, en þá var jafnframt gert ráð fyrir einkasölu á spíritus. (JakM: Þá var gert ráð fyrir, að tekjurnar yrðu hálf miljón.) Það má vel vera, en jeg gerði ráð fyrir, að tekjurnar af tóbakseinkasölunni yrðu um 300 þús. kr., og myndi það ekki hafa orðið fjarri sanni, ef gengið hefði haldist í sama horfi og þá var. Jeg þarf ekki að fjölyrða um, til hvers lögin voru sett. Þau voru sett til þess að afla ríkissjóði tekna. Það hefir verið sagt, að tóbakstollurinn hafi minkað. Það má vera, en mun stafa af því, að verslunin hefir gert að reglu að veita ekki lán, og því hafa færri keypt. Ef til vill er eitthvað eftir enn af hinum miklu birgðum, er innfluttar voru 1921. Jeg man þó ekki betur, en að tollurinn 1923 væri hærri en árið áður. Og mjer finst, að vjer megum ekki missa 200 þús. kr. úr ríkissjóði nú, svo mjög sem vjer berjumst í bökkum. Satt er það, að hverri verslun fylgir nokkur áhætta, en sú áhætta hlýtur að vera minni þar, sem ekki er lánað. Að vísu fylgir áhætta gengisfallinu. En úr því að gróði hefir orðið samt, hvað mun þá í góðu árunum. Hv. flm. mintist á launakjör starfsmannanna. Jeg býst við, að það mál verði tekið til meðferðar seinna, og sje því ekki ástæðu til að ræða það hjer. Satt er það, að samanborið við laun embættismanna eru launin við verslunina hærri. En hjer er líka um ótryggari stöður að ræða. Hjer mun líka vera til opinber stofnun, þar sem laun starfsmannanna munu vera svipuð og við tóbaksverslunina. Það er Landsbankinn.

Mjer finst yfirleitt, að ekki sje fengin nægileg reynsla um þessa verslun. Ef gallar þeir, er hv. flm. talaði um að á henni væru, væru til í raun og veru, skyldi jeg ekki leggja henni liðsyrði. En þeir gallar hafa ekki komið í ljós ennþá.

Hv. flm. talaði um leynilega reikninga. Það er satt, að þeir hafa ekki verið birtir í landsreikningunum, enda er ekki síður að birta reikninga opinberra fyrirtækja. En hitt er mjer óhætt að fullyrða, að eins nákvæmt eftirlit er haft við alla reikningsfærslu verslunarinnar og hægt er, og jeg veit ekki betur en að hverjum þingmanni sje hægt og heimilt að sjá þessa reikninga, þar sem þeir liggja fyrir þinginu. Ef það þætti heppilegra, væri heldur ekkert hægara en að birta þá, t. d. í Lögbirtingablaðinu.