02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. meiri hl. samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er mestmegnis út af ræðu hv. þm. Borgf. (PO), að jeg stend upp Hann var meira en lítið vondur við samgöngumálanefnd. Reyndar eru það allir þm., sem gæta hagsmuna hjeraðs síns um styrk til flóabátaferða. Mjer skildist hans þykkja stafa mest af því, að nefndin gleymdi að setja Akranes sem viðkomustað í till. sína. Við tölum um hverja sýslu út af fyrir sig, en nefnum ekki hvern viðkomustað sjerstaklega. T. d. er talað um Ísafjarðarsýslu, en þar eru 14 viðkomustaðir. Hitt er satt, að háttv. þm. Mýra. (PÞ) var ekki nefndinni sammála, þó hann skrifaði undir nál. án fyrirvara. Honum þótti of skamt farið í till. nefndarinnar um styrk til Borgarnesbátsins. Hygg jeg, að allir, sem fá styrk til flóabáta, þyki sjer sýnt misrjetti. Að minsta kosti hefir nefndin nú fyrirfarandi aldrei getað komið sjer fyllilega saman um úthlutun þessa styrks. Hv. þm. sagði, að nefndin hefði síðan í þingbyrjun setið að úthlutun flóabátastyrksins. Nefndin hefir ekki enn afgreitt till. til stjórnarinnar. Jeg hygg, að fleirum en þeim, sem nú eru í samgmn., myndi veita það erfitt að veita öllum þeim, sem áður hafa styrks notið, styrk af einum 23 þús. kr. Hv. þm. Borgf. vildi, að nefndin fengi meira fje til umráða. Mátti skoða þetta sem bendingu um að flýja á náðir fjvn. og fá meðmæli hennar til fjárveitingar í fjáraukalögum. Þetta vill samgmn. ekki gera. Hún álítur till., sem fjvn. ein gerir, þó teknar sjeu til greina af stjórninni án þess þingið sje að spurt, hreinustu lögleysu. Ár eftir ár hefir þannig verið borgað út fje án samþykkis þingsins. Við viljum ekki leggja út á þessa braut. Stjórnin getur ekki komist hjá að halda uppi bátaferðum milli Borgarness og Reykjavíkur og um Ísafjarðardjúp, því að þar er póstflutninga að annast. Hv. þm. Borgf. vildi áætla, að póstflutningur milli Reykjavíkur og Borgarness mundi kosta 20 þús. kr. árlega. Póstflutningur um Ísafjarðardjúp mun kosta meira, ef farið væri eftir vegalengd og viðkomustöðum. Að Borgarnesbáturinn hafi ekki fengið tiltölulega hæstan styrk, held jeg að sje erfitt að mótmæla, þegar tillit er tekið til þess, að báturinn hefir aðeins einn viðkomustað. Flutningsgjöld og fargjöld eru á þeim bát miklu meiri en annarsstaðar. Annars er það ekki svo þægilegt fyrir samgmn. að meta þörf hvers hjeraðs, þar sem ekki liggja fyrir nákvæmar skýrslur um tilhögun bátaferða. Aðeins eru það Borgarnesbáturinn, Djúpbáturinn og að nokkru leyti Skaftfellingur og Hvalfjarðarbáturinn, sem hafa gefið skýrslu til hæstv. stjórnar. Um alla hina vantar upplýsingar, hvernig styrknum hefir verið varið.

Þá vildi jeg minnast örfáum orðum á till. mína á þskj. 291. Eftir að hafa talað við hv. frsm. fjvn. vildi jeg gjarnan mega bera upp skriflega tillögu í stað hinnar prentuðu og leggja til, að úr 12. gr. 13 b. mættu falla orðin: „og hlutaðeigandi sýslufjelag“; en orðin: „með því skilyrði, að bæjarfjelagið taki sjúkraskýlið“ standi áfram. Það var vissulega tilætlun Ísfirðinga að taka sjúkraskýlið að sjer, þegar það væri fullgert, og reka það fyrir eigin reikning, þó sýslan yrði ekki með. Sýslunefnd hefir óskað, að það yrði ekki sett að skilyrði, að hún tæki að sjer rekstur sjúkrahússins ásamt bænum. Gæti það valdið óþægindum við samninga milli sýslunnar og bæjarfjelagsins að viðhafa þetta orðalag, enda var það við frumfjárveitinguna ekki gert að skilyrði, að bærinn tæki sjúkrahúsið að sjer til rekstrar, heldur að sýslufjelag og bær sæju um byggingu þess, og því hefir sýslunefnd lofað.