31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í C-deild Alþingistíðinda. (2020)

87. mál, einkasala á tóbaki

Flm. (Jakob Möller):

Jeg hefi verið að hugsa um það, hvað jeg ætti að gera í þessu máli, þegar hæstv. fjrh. (JÞ), þessi mikla stoð og stytta allrar fríverslunar, hefir orðið til þess að leggjast á móti því. Væri þá ekki rjettast, að jeg tæki frv. aftur? Ónei, — jeg ætla nú ekki að gera það. Jeg hefi hugsað mjer að gefa hæstv. rh. tækifæri til þess að nota þetta óbundna atkvæði sitt um málið. Mjer er ekki grunlaust um það, að þessi mótbára hans gegn frv., sem sje, að í það vanti ákvæði um tollhækkun, sje aðeins aum undanfærsla. Því það, að í frv. þurfi slíkt ákvæði, er í alla staði hlægilegt. Hæstv. rh. er með þessu aðeins að reyna að klóra yfir það, að hann hefir nú gengið frá fyrri stefnu sinni í þessu máli. En — drottinn minn dýri! — af hverju gengur ekki hæstv. rh. hreint og beint í Framsóknarflokkinn? Af hverju að vera að reyna að villa landsmönnum og þingi sýn á sjer? „Hvers vegna eru ekki þeir menn, sem kosnir eru á móti Tímanum og sósíalistum í sama flokki ?“ Þetta kvað við fyrst hjer á þingi í vetur. Já — hví skyldi jeg vera á móti hæstv. fjrh. (JÞ)? Það, sem gildir, er að ná í völdin og hanga við þau með einhverju móti. Það væri ekkert hægara en að afla þessara 200 þús. kr. með tóbakstollinum. Nú hefir tóbakstollurinn þegar verið hækkaður um ¼. Sú hækkun ætti að vera nægileg. En þó að frekari hækkunar þyrfti, þá ætti frv. um hana vitanlega að koma fram sem frv. um breyting á tolllögunum. Og það er enginn vafi á því, að tollurinn verður meiri undir eins og verslunin er gefin frjáls, án þess þó að þurfi að hækka hann, aðeins af því, að þá verða minni undanbrögð um innflutninginn.

Þá vildi jeg víkja nokkrum orðum að hæstv. atvrh. (MG). Hann hjelt því fram, að gengið hefði orðið til þess að minka verslunartekjurnar. Þetta er ekki rjett. Það, sem veldur þessu, er það, að kostnaðurinn við verslunarreksturinn er margfaldur við það, sem áður var, og að kjör þau, sem verslanirnar út um land fá hjá einkasölunni, eru svo vond, að salan hefir minkað mjög mikið, svo að verslunin er blátt áfram miklu minni en gert var ráð fyrir. Kveður svo mjög að þessu, að það eru stór svæði á landinu, þar sem tóbak er alls ekki verslunarvara. Er því eigi nema eðlilegt, að ágóðinn sje ekki mikill. Það var spurt um það á fundi nýlega, þar sem forstjóri landsverslunarinnar var viðstaddur, hvort landið hefði tapað á tóbakseinkasölunni vegna gengismismunar. Kvað hann það vera um 7 þús. kr., svo að það getur ekki haft nein veruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs af fyrirtækinu. Nú vita það allir, að tóbak er sú eina vara, sem ekki hefir lækkað í verði hjer á landi síðan ófriðnum lauk. Þó er ágóðinn ekki meiri, og hefir álagningin verið meiri hjá landsversluninni en hún hefir nokkurntíma áður verið. Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að það hefði verið tekin upp sú regla við verslunina að veita ekki lán. Þess vegna ætti salan að hafa minkað. Þetta er ekki rjett. Jeg þekki sjálfur til þess, að menn hafa fengið þar lán, og ekki neinir stórburgeisar. Jeg verð því að leyfa mjer að segja það, að þetta eru rangar upplýsingar hjá hæstv. atvrh. (MG). Hæstv. rh. sagði, að lækkunin á tekjunum stafaði af því, hversu mikið hefði verið flutt inn 1921. Þetta er heldur ekki rjett, því að innflutningurinn var minni þá en hann hafði verið stundum áður. Ber og að gæta þess, að einhvern hluta þess árs munu hafa verið innflutningshöft á tóbaki, og að þá voru töluverðir erfiðleikar á yfirfærslu peninga, sem eðlilega hefir verkað á innflutninginn. Þá segir hæstv. atvrh. (MG), að ágóðinn hafi numið 1923 200 þús. kr., og neitar því jafnframt, að gert hafi verið ráð fyrir meira. Skal jeg í því efni aðeins leyfa mjer að vísa til nál. fjhn. 1921. Í því er sagt, að nefndin leggi til, að álagningin sje hækkuð úr 15–50% upp í 25–75%, í því skyni að vinna með því upp þær tekjur, sem upphaflega var ætlast til, að ríkissjóður hefði af vínsölunni. En í frv. stjórnarinnar voru tekjur af vínverslun áætlaðar um 400 þús. kr. Tekjur af tóbaki voru áætlaðar 200 þús. kr. í stjórnarfrv., og er óhugsandi, að það hafi verið meining frsm. nefndarinnar, að tekjurnar yrðu þær sömu og áður, þrátt fyrir þessa hækkun á álagningunni. — Nema þá að þetta hafi verið reikningsskekkja hjá ráðherranum, og frsm. hafi ekki viljað koma því upp En jeg var ekki alveg eins mildur við ráðherrann, því jeg benti á þá skekju, sem var í áætlun stjórnarinnar um tekjur af vínversluninni, en svo mikil var hún þó ekki, að þessar 400 þús. kr. yrðu að engu.

Þá sagði hæstv. atvrh. (MG), í sambandi við launakjör þessarar stofnunar, að stöður þessar væru ekki eins tryggar og stöður við aðrar stofnanir ríkisins. En þetta er ekki rjett. Stöður þessar eru engu ótyggari en til dæmis stöður við pósthúsið eða sjerstaklega háskólann, þar sem nú er verið að reka menn frá fyrirvaralaust. Hygg jeg, að stöður við verslunarfyrirtækin verði jafnvel öllu tryggari. En á það eitt ber heldur ekki að líta, því að spurningin verður eðlilega um það, hve há laun ríkið hafi efni á að borga fyrir nauðsynleg störf, án tillits til þess, hvort þau eru unnin við verslun eða mentastofnanir. Svo er að meta störfin, hver þýðingarmest sje.

Jeg veit, að margir starfsmenn ríkisins, sem í mörg ár hafa orðið að búa sig undir starf sitt, hafa minni laun en nýgræðingar við verslanirnar. Jafnvel sendlarnir við verslanirnar hafa hærri laun en fullkomnir starfsmenn við aðrar stofnanir. Hlýtur þetta að hafa þau áhrif, að laun embættismanna færist upp, í hlutfalli við þessi laun. Hv. atvrh. (MG) kvað það ekkert sjerlegt, þótt reikningar verslunarinnar væru ekki birtir, og bar hana saman við opinbera sjóði. Er þetta tvent ólíkt og ekki sambærilegt, og er verslunarfyrirtæki ekki eins sjálfstætt og sjóður. Það er að vísu rjett, að reikningar landsverslunarinnar voru lagðir fyrir þingið í fyrra. Hæstv. atvrh. (MG) og jeg áttum þá báðir sæti í sömu nefnd, og man jeg, að þegar nefndinni höfðu verið sýndir reikningarnir, vildi forstjóri verslunarinnar helst halda á þeim heim heim aftur. — í Frakklandi hefir ríkiseinkasalan komið ár sinni svo vel fyrir borð, að hún ekki einu sinni þarf að sýna þinginu reikninga sína. En nú spyr jeg: Hví hefir hæstv. atvrh. (MG) ekki látið birta reikninga verslunarinnar? (MG: Jeg hefi ekki kvartað yfir því, að reikningarnir voru ekki birtir.) Nei, jeg veit vel, að hæstv. atvrh. (MG) er af sjerstökum ástæðum kunnugur reikningum verslunarinnar.