31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (2021)

87. mál, einkasala á tóbaki

Tryggvi Þórhallsson:

Það hefir einstöku sinnum komið fyrir, að hæstv. ráðherrar hafa þurft að mótmæla því, sem jeg hefi sagt. En jeg geri ekki ráð fyrir því að þessu sinni. Eins og hæstv. atvrh. (MG) hefir tekið fram, er jeg yfirlýstur stjórnarandstæðingur, og ef það því skylda mín að finna að því, sem miður fer hjá henni. En jafnsjálfsagt er að láta í ljósi gleði sína, ef eitthvað kemur frá stjórninni, sem mjer líkar vel. Jeg vil lifa eftir gamla málshættinum: Dignum lauda virum, hvort sem það eru andstæðingar mínir eða ekki, sem í hlut eiga. Jeg nota tækifærið til þess að þakka hæstv. fjrh. (JÞ) hinar góðu undirtektir hans við þetta mál, þó annað hafi hljóðið verið áður, og þykir vænt um, að hann ætlar ekki að fylgja því fast fram, að þessi stofnun verði lögð niður. Jeg vona, að þetta viti á annað meira, og að bilið styttist milli okkar, þegar að haftamálinu kemur.