31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (2023)

87. mál, einkasala á tóbaki

Ágúst Flygenring:

Mín skoðun á tóbakseinkasölunni er sú að hana beri að leggja niður eins fljótt og unt er án verulegs taps fyrir ríkissjóð. En spurningin er sú, hvort frestur er nægur til næstu áramóta, því að landsverslunin liggur með miklar birgðir og er líklegt, að lengri tíma þurfi til þess að losna við þær, ef landið á ekki að tapa miklu fje á því. Kysi jeg því heldur að láta landsverslunina standa lengur, svo sem ½ ár eða máske heilt, ef með því móti væri betur hægt að losna við birgðirnar.

Jeg er ákveðinn andstæðingur einkasölu og álít, að þessi 200 þús. kr. hagur tóbakseinkasölunnar tilkomi þeirri stjett, sem með lögum hefir fengið verslunina í sínar hendur, kaupmönnum og kaupfjelögum. Má helst líkja þessu við rányrkju, sem á síðari árum er hrifsað af kaupmannastjettinni. Aðra ókosti hefir þetta einnig, að ein verslun hefir einkasölu á tóbaki. Eykur það mjög óleyfilega sölu, sem sagt er, að sje áberandi á Norður- og Austurlandi. Sökum stærðar landsins, verður eftirlitið erfitt og eiginlega ókleift. En bestu eftirlitsmennirnir gegn smyglun eru einmitt kaupmennirnir sjálfir, ef veslunin er frjáls. Mitt álit er, að sala tóbaks hafi minkað mjög, vegna óleyfilegs innflutnings. Einnig tel jeg eðlilegt, að sala minki vegna þess, hve fáir vilja versla með tóbak með þessum kjörum í fyrirframborgun og lágum umboðslaunum. Hygg jeg einnig, að skoðun almennings sje á móti einkasölu. Þegar jeg hefi sjeð, hvernig birgðum landsverslunarinnar er varið, tek jeg ákvörðun um, hvernig jeg ver atkv. mínu. Jeg veit, að forstjóri landsverslunarinnar hefir ekki farið leynt með reikninga verslunarinnar. Hann hefir sent Alþingi reikning og yfirlit yfir hag fyrirtækisins, svo það hlýtur að vera hægt að vita nánar um birgðirnar, þegar vill.