31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (2027)

87. mál, einkasala á tóbaki

Ásgeir Ásgeirsson:

Hv. þm. Ak. (BL) vill hafa einkasölu á tóbaki enn í eitt ár, til þess að landið tapi enn meir á henni en þegar sje orðið. Hann kvað hana vera til ills eins, en vildi þó láta hana standa. Mjer þykir hv. þm. vilja eiga mikið á hættu, og ekki ber honum vel saman við hæstv. fjrh. (JÞ), formann Íhaldsflokksins, sem vildi ekki sleppa einkasölunni, af því, að hann taldi ekki annað fært vegna ríkissjóðs. Jeg vil lýsa ánægju minni yfir því, að hæstv. fjrh. hefir lagt sjerstaka áherslu á, að hjer sje aðallega um fjárhagsatriði fyrir ríkissjóðinn að ræða. Jeg lít eins á þetta og hæstv. ráðherra, að hjer sje um að ræða talsverða tekjulind, og á meðan ekki eru færðar neinar sönnur á hitt, að ríkissjóður myndi græða meira á tóbakinu með öðru fyrirkomulagi, þá getur ekki komið til nokkurra mála, að frv. verði samþ.

Mjer er ekki kunnugt, að neitt hafi komið fram þess efnis. Það er þýðingarlaust að vera að blanda frelsi og frjálsri verslun inn í þetta mál, því frelsi kemur þessu máli ekkert við. Í Frakklandi og Svíþjóð er einkasala á tóbaki, og í Þýskalandi á brendum vínum, en þó dettur engum manni annað í hug, en að það sje fríverslun með þessum þjóðum. Jeg hefi dvalið í Svíþjóð, og man jeg ekki til, að nein hreyfing væri á að afnema einkasöluna þar. Þar situr þó íhaldsstjórn við völd, og hún styður að öðru leyti frjálsa verslun. Nei, það er ekki vert að blanda frelsi neitt í þetta mál.

Það eru annars sorglegar fregnir, sem berast nú af ástandinu í Frakklandi. Það er sorglegt að heyra, að Frakkar skuli nú vera búnir að búa við einkasölu á tóbaki í 100 ár, og altaf hafa stórtapað á henni. Það er síst að furða, þótt hv. þm. Ak. vilji láta einkasöluna hjer standa eitt árið enn, ef hann væntir þess að geta öðlast sömu reynsluna og Frakkar! En væri hitt ekki rjettara að senda hjeðan einhverja af þessum tóbaksseljandi frelsishetjum til Frakklands, til þess að reyna að koma vitinu fyrir frönsku stjórnina. Reyndar eru þessir menn ekki aðeins frelsishetjur. Þeir telja það stórhættulegt að reka tóbaksverslun, en eru þó reiðubúnir til þess að taka þann kross á sínar herðar. Ef þetta er ekki aðdáunarvert, þá veit jeg ekki að greina kosti. Þess eru ekki mörg dæmi, nú á tuttugustu öldinni, að menn sjeu þannig reiðubúnir til að gerast píslarvottar þjóðfjelagsins.

Jeg verð einnig að láta aðdáun mína í ljós fyrir hv. deild, ef hún samþ. þetta frv. Hún hefir nú nýlega samþ. frv. um að flytja dýrtíðaruppbót barnakennara að hálfu yfir á fátæka bæja- og sveitarsjóði, og væri það því viðeigandi endir á hennar dagsverki, ef hún færði þessar tekjur ríkissjóðsins yfir á tóbakskaupmenn landsins. Væri þá skift upp tekjum og gjöldum ríkissjóðs, svo ekki þyrfti framvegis að hafa áhyggjur af öðru en því, að ríkið sæti eftir með skuldirnar.