31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (2031)

87. mál, einkasala á tóbaki

Ásgeir Ásgeirsson:

Hv. þm. N.-Ísf. hefir afsakað tóbakseinkasöluna í Frakklandi og Svíþjóð með því, að þar sje tóbakið einnig ræktað og unnið af ríkinu. Er það að vísu vart meira en hálfur sannleikur, en þó satt væri, gerir það sökina aðeins tvöfalda í augum þeirra, sem fjandskapast gegn öllum ríkisrekstri, að ríkið rekur þarna atvinnuveg, sem ella væri í höndum einstaklinganna. Annars skal jeg benda á það, að t. d. með Þjóðverjum kaupir ríkiseinkasalan brendu vínin af áfengisverksmiðjum einstakra manna.

Hv. þm. Ak. vildi jeg svara því, að ef það er svo að skilja, að það tap, sem landið hafi af tóbakseinkasölunni, eigi að vera fræðslustyrkur handa hv. þm., þá virðist mjer svo sem sá styrkur hafi til þessa borið heldur lítinn ávöxt. Væri þess því að vænta, að menn færu brátt að gefast upp á slíkri fræðsluaðferð, ef dæma skal eftir öðrum fræðslumálaáhuga hv. deildar. Hitt má vera, að jeg hafi gert hv. þm. rangt til áðan, er jeg svaraði aðeins annari af þessum tveimur andstæðu skoðunum, sem hann hjelt fram í ræðu sinni. En jeg gerði það af góðum hug að sleppa hinni. Sómir það sjer betur af guðfræðingi að færa þannig til betri vegar, en af lögfræðingi að halda fram tveim gagnstæðum skoðunum í fjögra mínútna ræðu. Hefi jeg og gert gott verk á honum, með því að reka út af honum þá skoðunina, sem verri var.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hjelt því fram, að Íhaldsflokkarnir fylgdu ekki fríverslun, heldur þeir frjálslyndu. Þetta fer eftir því, hvaða merking er á hverjum stað lögð í það, sem á ensku er nefnt „free trade“. Er það nefnt „free trade“, að hafa verslunina tollfrjálsa, en þar fylgja íhaldsmenn tollastefnu. Er svo og um íhaldsmenn hjer, þó þeir vilji sem ákafast kenna sig við frjálsa verslun. Einkasala á nokkrum vörutegundum kemur ekki baráttunni um „free trade“ við, þó reynt sje hjer að hylja hagsmuni tóbakskaupmanna undir huliðshjálmi frelsishugsjónarinnar. Hjer er ekki um frelsi að ræða, sem þjóðin heimti sjer til handa, heldur um kröfur þeirra sjálfra til ágóðans af tóbakssölu, sem þykjast hafa einokun á allri verslun landsmanna. „Frelsi“ er of göfugt orð til að vera lagt við þann hjegóma.