31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (2034)

87. mál, einkasala á tóbaki

Flm. (Jakob Möller):

Jeg vil minna hæstv. fjrh. (JÞ) á það, að þegar kosningabaráttan stóð hjer í haust, þá taldi hann jafnan á kjósendafundunum, að það væri fyrsta og fremsta fjárhagsbjargráðið, að „realisera“ verslunarfyrirtæki ríkisins, og nota það fje, sem þannig losnaði, til þess að greiða af skuldum landsins. Nú hefir hann hvarflað frá þessu. Hann hefir ef til vill ekki fundið svo mikið til þess að „realisera“. En þá hefir hann líka sagt á kjósendafundunum eitthvað annað en hann vissi, því þá taldi hann, að þetta mundi nema ca. 3 miljónum. En þó hítin sje stór og mikið þurfi til þess að fylla hana, þá eru þrjár miljónir samt góður biti í svanginn.

Viðvíkjandi þeim orðum hæstv. fjrh. (JÞ), að láta tollhækkun á tóbaki fylgja frv. þessu, þá hefi jeg áður mint hann á, að þegar er búið að hækka þann toll um Og þar sem jeg býst við því, að tóbaksverslunin muni vaxa við það að vera gefin frjáls, þá mun hún gefa ríkissjóði líkar tekjur og ráð er gert fyrir með núverandi fyrirkomulagi, þó þetta frv. verði samþ. án frekari tollhækkunar. Þetta er því tómt „blöff“ hjá hæstv. fjrh. Aðeins hjegómaviðbára. En aðstaða fjármálaráðherra er vitanlega góð, ef hann þarf að hafa skoðanaskifti, að bera því við, að því miður verði hann nú að hverfa frá stefnu sinni af því að ríkissjóður megi ekki missa tekjur. En þær tekjur, sem hjer um ræðir, eru hvorki meiri nje minni nú en á kosningafundum í haust, og þá þótti hæstv. fjrh. ekki mikið í þær varið.