31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (2035)

87. mál, einkasala á tóbaki

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er rjett, sem samþm. minn (JakM) sagði, að jeg hefi haldið því fram, að eitt hið fyrsta, sem gera þyrfti til þess að komast úr kreppunni, væri það, að „realisera“ verslunarfyrirtæki ríkissjóðs og nota fjeð, sem þannig er bundið, til þess að greiða skuldir landsins. Jeg taldi, að þetta fje mundi nema um 3 miljónum kr. En jeg veit ekki, hvort hv. þm. (JakM) hefir gleymt því, að jeg tók það altaf skýrt fram, að að því leyti sem ríkissjóður hefði tekjur af einkasölu á tóbaki, þá yrði að athuga það sjerstaklega, hvort ríkisjóður mætti við því að missa þann spón strax úr aski sínum.

Mín afstaða til þessa máls er hin sama nú og þá. Ef háttv. samþm. mínum (JakM) finst þetta hjegóma-ástæða, þá hefði hann átt að segja það strax á kjósendafundunum. Hann veit annars fullvel, að jeg segi altaf það sama hjer í þingsalnum og frammi fyrir kjósendum.

Raunar hygg jeg, að lítið af þessu umrædda fje liggi í tóbaksversluninni.