21.03.1924
Neðri deild: 29. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (2042)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Ásgeir Ásgeirsson:

Það heyrist oft nefnt nú í seinni tíð að barnakennararnir sjeu best launaðir allra manna, og er launum þeirra oft lýst á þann hátt, að ætla mætti, að þeir gengju allra manna best til fara, byggju í höllum og lifðu í vellystingum dag hvern. Það þekki jeg nú ekki. En hitt þekki jeg, að einhleypingar í þeirri stjett, eins og í öllum öðrum stjettum, komast sæmilega af, en hinir, sem eiga fyrir fjölskyldu að sjá, eiga við mjög þröngan kost að búa. Svo þröngan kost eiga þeir við að búa, að maður hlýtur að finna til vorkunnsemi við að hugsa um það, að þessir menn, sem verja æfi sinni í þjónustu eins merks máls og uppfræðslan er, skuli ekki njóta betri kjara. Þurfa menn ekki annað en líta á það, hvernig barnakennarar yfirleitt lifa og hversu glæsilegt líf þeirra er hið ytra, til þess að sannfærast um, að þetta skraf, um að laun þeirra sjeu of há, er bábylja ein. Hitt er sönnu nær, að þeir sjeu verst launaðir, og ætti í sparnaðarskyni að skafa launin af embættismönnum þjóðarinnar, þá ætti seinast að koma að barnakennurunum. Það er fjarri því, að svo sje komið, að menn sækist eftir þessum stöðum vegna launanna einna, enda sjest það glögt á því, að ekki hefir kennaraskólinn dregið neina menn frá mentaskólanum, verslunarskólanum eða öðrum slíkum stofnunum. Hitt er aftur á móti rjett, að launin munu nú fæla færri menn frá að halda inn á þessa braut heldur en áður. Launin fæla nú ekki lengur þá menn, sem starfið lokkar og hafa sterka löngun til þess að gegna andlegum störfum, án þess að líta á launin.

Hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) lagði mikla áherslu á það, að mentuninni hefði farið hnignandi í landinu síðan hún komst í hendur kennarastjettarinnar. Jeg held að þetta sje þveröfugt. Áður fyrri var það ekkert einsdæmi, að barn fengi ekki að læra hið allra nauðsynlegasta. En með núverandi fræðslufyrirkomulagi hefir þjóðfjelagið trygt það, að hver unglingur fái þá uppfræðslu, sem nauðsynleg er hverjum manni, sem lifir í siðuðu þjóðfjelagi. Var þetta fyrir stríðið komið í sæmilegt horf, en á síðustu árum hafa margir falsspámenn komið fram og viljað klípa af og kippa öllu í gamla farið, þegar þeir einir fengu að læra eitthvað, sem höfðu ómótstæðilega löngun til þess og vildu leggja mjög hart að sjer í þá átt. Jeg skal játa, að með því móti fengu þeir staðgóða mentun, en jeg vil líka leggja áherslu á það, að ef nú á að fara að byggja á því einu, sem heimilin geta veitt, þá fer helmingur barnanna á mis við það, sem enginn má fara á mis við. Og nóg er nú misrjettið í þjóðfjelaginu, þó ekki sjeu börnin látin gjalda þess, að þau sjeu fædd í fátækt og strjálbýli. Misrjetti kemur nógu snemma inn í líf mannanna, þó reynt sje að draga úr því meðal barnanna. Þetta kemur að vísu ekki við frv. því, sem hjer liggur fyrir, en hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) gáfu tilefni til þess, að rætt yrði um fræðslulögin alment. Skal jeg svo ekki fara langt út í þá sálma, því væntanlega gefst tækifæri til þess síðar.

Jeg vil leiðrjetta það, sem háttv. þm. Borgf. sagði, er hann kvað núgildandi fræðslukerfi vort tekið frá alóskildum þjóðum. Líkt fræðslukerfi á sjer stað meðal flestra menningarþjóða, og þar á meðal sumra, sem eiga við mjög lík kjör að búa og við Íslendingar. Nægir að nefna Norður-Noreg og Norður-Svíþjóð. Hefi jeg ekki heyrt, að þar ríki óánægja með fyrirkomulagið, nje að þess væri óskað, að því yrði breytt.

Hvað viðvíkur hinni dæmafáu umhyggju hv. þm. (PO) fyrir börnum, sem sitja verða 8–12 vikur á ári á skólabekkjum í 4 ár og áhyggjur hans af heilsufari þeirra, þá er því til að svara, að hv. þm. ætti heldur að gerast spámaður með öðrum þjóðum, ef hann ber það svo mjög fyrir brjósti. Hann ætti að gerast spámaður hjá stórþjóðunum, þar sem börnin verða að sitja á skólabekkjunum 6 tíma á dag í 10 mánuði um 7 ára skeið. Hjá þeim þjóðum ætti háttv. þm. að halda fyrirlestra fyrir kennurum og prófessorum, til að vekja þá til umhugsunar um það, hve hættulegt þetta sje fyrir börnin. (PO: Þeir eru farnir að opna augun fyrir því).

Ennfremur má geta þess, að vilji menn efla unglingafræðsluna, þá er fyrsta sporið til þess, að vel sje annast um barnafræðsluna, en ekki að henni sje kipt í burtu, eins og hv. þm. Borgf. vill. Það er ekki fyrsta sporið að rífa kjallarann, þegar byggja á húsið ofan á hann, heldur hitt, að treysta hann sem best.

Undarlegt var það, hvernig hv. þm. Borgf. endaði ræðu sína. Hann kvaðst hugsa sjer að greiða frv. þessu atkv. sitt, enda þótt hann sýndi með ræðu sinni, að hann væri á móti frv., þó það væri af alt öðrum ástæðum en þeim, sem jeg hefi gegn því.

Ástæða hv. þm. Borgf. fyrir því að greiða atkv. með frv. hygg jeg að fáa tæli eða hæni; hún er sú, að honum finst sem í 1. gr. frv. sje opnaður möguleiki fyrir sveitar- og hreppstjórnir til þess að losna við alla kennarana. Þessi ástæða hygg jeg að lokki ekki fleiri, því eins og hæstv. forsrh. (SE) hefir upplýst, er nógu opinn vegur til þess að losna við óþarfa kennara. Þarf ekki annað en sannfæra veitingarvaldið um, að kennararnir sjeu óþarfir, og fellur þá embættið niður. Sá vegur er nógu breiður og þarf ekki að gerast breiðari.

Jeg tel frv. þetta mjög óheppilegt og fæ ekki skýrt það fyrir mjer, hvernig á því stendur, að það er fram komið. Sparnaðarfrv. er það ekki, nema ætlast sje til að fræðsla sje látin niður falla, en því hafa hv. nefndarmenn veigrað sjer við að halda fram, því það fer ekki fram á annað en að fje, sem greiða þarf hvort sem er, sje greitt úr öðrum sjóðum en ríkissjóði. Finst mjer það sjerstök og helsti mikil eigingirni fyrir hönd ríkissjóðs. Gjaldendum má á sama standa, hvort þeir greiða fje sitt í sveitar- eða ríkissjóð. En ríkissjóður hefir betra færi til að innheimta þessar tekjur en aðrir sjóðir, þar sem hann hefir um marga skattstofna að velja. Einnig hefir ríkissjóður lagt á mikil útgjöld í máli þessu, þar sem dýrtíðaruppbótin er, og virðist ekki. sanngjarnt að hann, eftir að hafa ákveðið að hún standi í vissan tíma, velti henni yfir á sveitarsjóðina, heldur gegni skyldu sinni til að greiða hana meðan hún er.

Jeg veit, að það er mikið rjett í þeim skilningi hv. þm. Borgf., að ef Alþingi samþykkir frv. þetta, þá myndi kensla víða verða lögð niður í afskektum og fátækum hjeruðum, þó nauðsyn beri til að halda henni uppi. En nú eru fræðslulögin einmitt bygð á því, að þeir, sem betur eru efnum búnir, hjálpi hinum, sem ver eru staddir og geta ekki af eigin dáð mentað börn sín. Einmitt til þessa eru lögin sett, og jeg skal meira segja játa það, að væru þau úr gildi numin, þá gæti það orðið börnum á efnuðum heimilum til góðs, því þau kynnu að fá betri fræðslu með því að njóta eins manns fá í hóp. En fræðslulögin hafa verið sett til þess að vernda þá, sem þjóðfjelaginu er skylt að vernda, til þess að hjálpa þeim, sem illa eru settir.

Jeg minnist þess ávalt, þegar jeg í fyrsta sinn heyrði fræðslulaganna getið. Það var áður en jeg fór að hugsa um þau mál eða þingmensku. óðalsbóndi nokkur ræddi um þau við ungling einn. Síðasta röksemd bóndans var sú, að hann segir við unglinginn: „Hvernig heldur þú að hún mamma þín hefði farið að því, með alla ykkur krakkana, að standast þau útgjöld, sem þarf til þess að annast þessa skyldu?“ Jeg hefi aldrei heyrt betur setta fram ástæðuna fyrir því, að fræðslulögin voru sett. Fræðslulögin voru sett í þeim tilgangi, að þeir, sem betur eru efnum búnir, hjálpi þeim, sem verri ástæður hafa. Og þjóðfjelagið hefir þessa skyldu gagnvart börnum sínum. Það hefir fleiri skyldur gagnvart þegnunum en þær að útvega þeim, sem sjúkir eru, læknishjálp og setja þá í tugthúsið, sem brotið hafa lögin. Og alveg á sama hátt og einstaklingarnir hjálpa hver öðrum, eins er það rjettmætt, að sveitar- og bæjarfjelögin styðji hvert annað á þann hátt, að þau sjái ekki fyrir fræðslukostnaðinum hvert út af fyrir sig, heldur sje hann greiddur úr einum sjóði.

Munurinn er sá, að ef frv. nær samþykki háttv. Alþingis, þá líkist gjaldið meira nefskatti, í stað þess sem nú er, að það má kallast greitt eftir efnum og ástæðum, og er það miklu rjettlátara.

Jeg gæti hugsað, að sá misskilningur stæði að sumu leyti á bak við frv. þetta, að meira af dýrtíðaruppbótinni rennur til kaupstaðanna heldur en til sveitanna. Er von, að mönnum sárni það, hve oft sveitunum blæðir fyrir kauptúnin. En til að bæta úr ólaginu í þessu efni hefði frv. heldur átt að ganga í þá átt að bæta kjörin til sveita heldur en taka alt af bæði kaupstöðum og sveitahjeruðum.