21.03.1924
Neðri deild: 29. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (2044)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Halldór Stefánsson:

Jeg skal vera stuttorður um þetta frv. og halda mjer við þann umræðugrundvöll, sem fyrir liggur, en ekki vaða elginn um hitt og þetta, sem ekkert kemur málinu við, eins og sumir þingmenn gera. Að því leyti sem ræða háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) snerti málið, er jeg honum sammála, og get vísað til orða hans, en að öðru leyti lýsi jeg engu fylgi við þær skoðanir, sem fram komu í ræðu hans. Jeg get ekki sjeð, að þetta frv. feli í sjer nokkurn sparnað. Útgjöldin eru aðeins flutt af ríkissjóði yfir á sveitarsjóðina. Í því get jeg ekki sjeð neina sanngirni, þar sem ríkisvaldið sjálft hefir ákveðið fræðsluformið og kostnað við það. Sveitarfjelögin hafa færri gjaldstofna en ríkið, hafa minna íhlutunarvald og færri úrræði. Ef ríkisvaldið ljeti af hendi jafnframt skattstofna að tilsvarandi hluta til sveitar- og bæjarfjelaganna, þá mætti að þessu ganga. Og síst finst mjer ástæða til þess nú, þegar ríkisvaldið samtímis hyggst að áþyngja almenningi enn á ný með sköttum og gjöldum, að varpa þá jafnframt byrðinni af ríkissjóði yfir á sveitarfjelögin. Jeg sje mjer því ekki fært að vera með frv.