21.03.1924
Neðri deild: 29. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (2045)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Sveinn Ólafsson:

Mjer er ekki ljúft að lengja umr. um þetta mál, en sje mjer þó ekki fært að láta það fara fram hjá mjer afskiftalaust. Jeg hefi verið að velta því fyrir mjer, undir umræðunum, hvernig hv. fjvn. ætlaði að fóðra fjársparnaðinn eftir þessu frv. Jeg sje ekki, að að því sje nein bót, að byrðarnar sjeu fluttar af þeim máttarmeiri yfir á þá, sem minni máttar eru, en svo má það teljast að flytja gjöldin af ríkissjóði á hreppana. Mjer virðist þetta svipað bjargráð og ef maður, sem hefði rekið nagla upp í fótinn á sjer, ljeti dæla vatni inn í eyrað, til lækningar meiðslinu. Mjer finst því þessi sparnaðartillaga nefndarinnar ekkert annað en vindhögg. Reynist það svo, að vjer höfum ekki efni á að halda skólunum í viðunandi horfi, þá verð jeg að fallast á það, að rjett sje að leggja þá niður í bili, eins og hv. þm. Borgf. o. fl. hafa bent á. Og ætti þá ekki aðeins að leggja niður barnaskóla, heldur og unglingaskóla og sjerskóla og ýmsa fleiri skóla. Get jeg ekki sjeð, að af því stafaði neitt menningarböl. Og þá yrði þó sparnaður að mun og ekki aðeins til málamynda. Þetta vildi jeg taka fram, en ætla hinsvegar ekki að fara út í samanburð á fortíð og nútíð um mentamálin og alþýðufræðsluna, svo sem aðrir hafa hjer gert. Þess skal jeg þó geta, að jeg er á sama máli og ýmsir aðrir hv. þm. um það, að tjón sje að því, að heimilsfræðslan forna var að miklu upprætt með fræðslufyrirkomulaginu nýja. En það liggur utan við umræður um þetta frv., svo að jeg ætla ekki lengra út í þá sálma. En af greindum ástæðum sje jeg mjer ekki fært að greiða frv. atkv.