28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (2059)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. meirihl. (Sigurjón Jónsson):

Mentamálanefnd hefir ekki getað orðið á eitt sátt um frv. þetta. Meirihluti hennar leggur til, að frv. nái ekki fram að ganga, en minnihlutinn er samþykkur aðallega 2. gr. þess.

Í frv. þessu felast aðallega þrjár efnisbreytingar frá núgildandi lögum. Tvær þeirra eru algerlega fjárhagsmál. Er farið fram á, að bæjar- eða sveitarsjóðir greiði framvegis dýrtíðaruppbót kennara í sama hlutfalli og laun þeirra. Hefir meirihlutinn lýst, í nál. á þskj. 208, ástæðum þeim, sem til þess liggja, að hann er því mótfallinn, að sú breyting komist á. Eins og nú standa sakir, stendur hagur bæjar- og sveitarfjelaga víðast hvar á fallanda fæti, og eru þau því illa fær um að taka á sig þessi auknu útgjöld. Er hjer heldur ekki um neinn raunverulegan sparnað að ræða, heldur aðeins það, að færa byrðarnar á aðrar herðar.

Önnur aðalástæðan gegn þessari breytingu er sú, að ríkissjóður innheimtir nú sínar aðaltekjur frá borgurunum með dýrtíðartollum. Sum af þeim gjöldum, svo sem útflutningsgjald, tekju- og eignaskatt og vörutoll o. fl., innheimtir hann nú og framvegis með gullgengi. Einnig af þessum ástæðum virðist sanngjarnast, að ríkið greiði líka þessa dýrtíðaruppbót. Þess ber líka að gæta, að það er þingið, sem skapað hefir dýrtíðaruppbótina, og bæjar- og sveitarfjelög eiga þar engan hlut að máli.

Sömuleiðis verðum við að telja mjög óheppilegt, að hjeruðin greiði launabætur eftir þjónustualdri. Ef svo væri, myndu hjeruðin veigra sjer við að taka eldri kennara, og órjettlátlega kæmi þetta líka niður fyrir þá sök, að eldri kennarar þyrftu ekki að hafa gegnt nema um stund starfi sínu í þeim sveitum eða bæjum, sem þó yrðu að gjalda þeim uppbótina.

Ennfremur erum vjer mótfallnir því, að skólanefndum og fræðslunefndum sje veitt heimild til að segja kennurum upp starfinu með 6 mánaða fyrirvara. Teljum vjer, að þetta verði ekki til annars en að skólanefndir fari að hugsa um að losna við kennara sína. Yfirleitt erum vjer þeirrar skoðunar, að meðan fræðslukerfið er í gildi, þá sje varla rjett að fara að hrófla við því.

Annars er mál þetta svo skýrt og óbrotið, að jeg tel ekki þörf á að ræða þetta frekar. Vil jeg heldur ekki stuðla að því, að umræðurnar fari að snúast um fræðslumálin yfirleitt.