28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (2063)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg þarf ekki að halda uppi svörum fyrir þessu frv. Það hefir háttv. þm. A.-Sk. gert vel. En jeg vildi minnast fáum orðum á till. minnihl. mentmn. um launaviðbætur kennara eftir þjónustualdri, að þær greiðist úr ríkissjóði og dýrtíðaruppbót á þær sömuleiðis. Ástæða háttv. minnihl. er sú, að því er mjer skilst, að hjeruðin eigi ekki að gjalda þess, þó að kennarinn sje gamall í þjónustunni, þegar hann er fluttur í hjeraðið. En jeg veit ekki, hvort háttv. minnihl. hefir athugað það, að ef kennari, sem áður hefir kent við barnaskóla, gerist kennari í farskólahjeraði, þá fær hann ekki aldurshækkun fyrir þann tíma, sem hann var kennari við fastan skóla. Sama er um farkennara, sem kemur að föstum skóla. Nú er það vitanlegt, að kennarar við barnaskólana eru löngum fastir í sessi og skifta lítið um stöður, svo þetta snertir þá lítið. Í sveitum aftur kemur það oft fyrir, að kennarar skifti, en þar er þessi uppbót svo lág, að það munar því nær engu í þessu efni þótt till. minnihl. sje samþ. En, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, þá er rjett hugsun í því, að þessi uppbót sje greidd af sömu aðiljum og í sömu hlutföllum og launin annars. Jeg skal taka það fram, að jeg geri engan ágreining út af þessari till. Hún hefir ekki svo mikla þýðingu.

Þá get jeg ekki felt mig við það, að 3. gr. frv. sje látin falla burt. Jeg álít einmitt, að hún sje bráðnauðsynleg. Um leið og sú breyting er gerð, sem í þeirri grein felst, þá er sveitunum og kaupstöðunum gefið tækifæri til þess að losa sig við þá kennara, sem ekki eru nauðsynlegir. Viðvíkjandi því, að rjett sje, að sami aðili leysi kennara frá stöðu og skipað hefir hann í stöðuna, þá er hægt að koma með brtt. um það, og er þá sá harmur bættur.

Þá er það atriði í tillögum minnihl., að skólar, sem starfa styttri tíma en 6 mánuði, skuli fá hlutfallslegan styrk úr ríkisjóði. Það mun vera rjett, að samþ. þá till., því að skólar munu stundum hafa verið látnir starfa lengur en þörf var á, til þess að geta náð í styrk úr ríkissjóði, af því að hann var bundinn við 6 mánaða kenslu.

Því hefir verið haldið á lofti, að enginn sparnaður mundi verða af þessu frv., því kostnaðinum við barnafræðsluna væri aðeins komið yfir á aðra aðilja. Háttv. þm. A.-Sk. hefir sýnt fram á það, að þetta er ekki rjett. Það má þá með sama rjetti segja, þegar fækkað er embættismönnum, að þá sje það enginn sparnaður, vegna þess, að hlutaðeigandi embættismaður þurfi að fá eitthvað sjer til lífsuppihalds annarsstaðar frá. Það sje því aðeins færsla milli vasa. En allir sjá, hversu fráleitur þessi hugsanagangur er.

Nei, hjer er hægt að spara, og jeg er sannfærður um það, að samkvæmt þessu frv. getur orðið talsverður sparnaður á fræðslumálakerfinu í heild sinni. Enda væri þetta frv. ekki fram komið að öðrum kosti. Hjer í Rvík er ýmislegt kent við barnaskólann, sem ekki er fyrirskipað í fræðslulögunum, svo sem matreiðsla, sem kend er 12–14 ára börnum. Meðan skólanefndir vissu, að ríkissjóður mundi borga, þá voru þær alveg ósparar á það að bæta við kennurum. Það hefir verið mjer þyrnir í augum frá byrjun, að launafyrirkomulagið skyldi vera þannig, að ríkissjóður væri látinn greiða alla dýrtíðaruppbótina af launum kennara, en aftur ekki nema 1/3 hinna föstu launa. Jeg hefi altaf verið þessu mótfallinn, enda flutti jeg till. um breyting á þessu á þingi 1919 og líka 1922, þó það fengi þá ekki framgang. Og það gleður mig, að nú skuli flestir vera á þeirri skoðun, að þetta sje rjett hugsun.