28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (2064)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Magnús Jónsson:

Jeg þarf ekki að hlaupa í skarðið fyrir hv. frsm. meirihl. (SigurjJ). En jeg vil samt athuga dálítið ýms orð, sem fallið hafa við þessa umr. Afstöðu okkar meirihl. get jeg vel varið. Og jeg varð, sannast að segja, fyrir nokkrum vonbrigðum, er jeg heyrði undirtektir hæstv. fjrh. (JÞ). Jeg hafði vonað, að hann mundi geta veitt okkur sitt fylgi, eftir afstöðu hans til líkra mála fyr á þessu þingi. Hann sagði, að þessi lög væru ekki búin að fá á sig neina hefð. Jeg get ekki verið á því máli. Jeg held, að þau sjeu búin að fá á sig þá hefð, sem til stendur, að þau geti fengið. Fyrirkomulagið er alt ungt, en þessi gjaldsháttur, sem hjer ræðir um, er sá eini, sem tíðkast hefir. Eins og bent hefir verið á áður, er hjer raskað á óheppilegan hátt þeim grundvelli, sem bygt var á í upphafi. Einkum er jeg á móti aðferð fjvn. í þessu máli, sem mjer finst vera á takmörkum þess sæmilega í löggjöf. Það eru vitanlega skiftar skoðanir um það, hvað þetta fræðslukerfi, sem við búum nú við, sje gott og heppilegt. Það hafa komið fram raddir um það, að rjett sje að hverfa aftur frá þessu kerfi og taka upp hina eldri aðferð. En þá á auðvitað að gera það á opinskáan og hreinskilinn hátt. Jeg get nú ekki annað sjeð en að með þessu frv. sje beinlínis gerð tilraun til þess að koma aftan að fræðslulögunum og gera þau ónýt, án þess mikið beri á í fyrstu. Frá þessu sjónarmiði verður skiljanleg sú áhersla, sem meðhaldsmenn þessa frv. leggja á 3. gr. Hv. þm. Barð. (HK) hjelt því fram, eins og fleiri, að þetta væri sparnaðarfrv., því hjer á að spara á þann hátt að velta kostnaðinum af fræðslulögunum yfir á sveitarsjóði og bæjarsjóði. En um leið er gerð gloppa í lögin, til þess að menn geti velt kostnaðinum alveg af sjer. Jeg skil, hvað vakað hefir fyrir hæstv. atvrh. (MG), að hann skuli hafa borið þetta fram í þeirri trú, að það yrði til sparnaðar, en jeg viðurkenni ekki rjettmæti aðferðarinnar. Jeg álít, að rjettara hefði verið að bera þetta fram á hreinlegri hátt en gert er. Hjer er sagt við sveitarfjelögin: Nú skuluð þið taka við að halda uppi barnafræðslunni, en ef þið viljið það heldur, þá getið þið bara lagt hana niður. Þetta eru fjörráð við fræðslukerfið sjálft í heild sinni.

Viðvíkjandi brtt., sem fjvn. hefir gert á þskj. 232, þá er hún ekki annað en enn ein gríma utan yfir þann raunverulega tilgang frv., svo enn minna beri á honum. Þar er það tekið af skóla- og fræðslunefndum að segja barnakennurum upp stöðu sinni, en dóms- og kirkjumálaráðuneytið á að fara með það vald. En ástandið er raunar alveg óbreytt. Þetta er aðeins breyting á formi, „maskerað“ ögn betur. Eins og áður er það alveg á valdi skólanefnda að segja upp kennurum. Þær þurfa ekki annað en að segja við kenslumálaráðuneytið: Við þurfum ekki á þessum manni að halda! Þá segir ráðuneytið honum auðvitað strax upp. Eina efnisbreytingin, sem hjer er um að ræða, er sú, að uppsagnarfresturinn er styttur úr 6 mán. í 4 mánuði, og kveður þannig brtt. ríkar að en frv. gerir. Annars er jeg á móti frv. Jeg er yfirleitt á móti þeirri stefnu að velta gjaldabyrðinni af þrautpíndum ríkissjóði yfir á þrautpíndan almenning í bæjum og sveitum, eins og jeg sýndi við atkvgr. um fjárlögin. Jeg hugsa, að þær ágætu röksemdir hæstv. fjrh. viðvíkjandi líkum ráðstöfunum í fjárlögunum geti líka átt hjer við.

Háttv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) sagði, að alt yrði nú að spara, sem hægt væri að spara. Jeg veit nú ekki betur en að hjer sje á ferðinni í þesari háttv. deild frv. til vegalaga, þar sem stefnan er öfug, þannig, að viðhaldi veganna er velt af sýslunum yfir á ríkissjóð. Og þar er þó ólíku saman að jafna, þar sem fræðslulögin gera ráð fyrir útgjöldum, sem eru mjög ákveðin, svo að þar verður hvorki eytt nje sparað svo að neinu verulegu nemi með mismunandi framkvæmd, en hin lögin gefa þar margfalt víðari skeiðvöll, og væri því miklu meiri ástæða til að láta þau mál vera í höndum þess aðiljans, sem búast má við að haldi gætilegar á fjenu. Jeg á því erfitt með að skilja þá stefnu, sem stendur bak við þetta mál. Skil jeg það vel, að fjvn. vildi á sínum tíma ekki hleypa þessu máli til annarar nefndar og teldi það óvenjulega aðferð, að mentmn. fengi það til meðferðar. En nú hefir hv. fjvn. sjeð, að ekki hefir mentmn. haldið frv. það lengi hjá sjer, að verða þurfi til baga. Vil jeg nú mælast til þess við hv. deild, að hún felli frv. Í því er enginn sparnaður, heldur má búast við, að það leiði af sjer, að fræðslan verði vanrækt í mörgum hjeruðum. Ef fækka á óþörfum kennurum, þá er rjettara að gera það í öðru og tryggara formi.