28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (2066)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Jón Kjartansson:

Jeg ætla ekki að vera langorður um þetta mál, en jeg þykist þó verða að leggja nokkur orð í belg. Hæstv. atvrh. hefir tekið það fram hjer í deildinni, að það væri fyllilega rjettmætt, að skóla- og fræðsluhjeruð gyldu dýrtíðaruppbót eftir sama hlutfalli og launin sjálf. Þetta höfum við getað fallist á, meðan dýrtíðaruppbótin er lág. Þetta var einnig ætlunin, upprunalega í stjfrv. 1919, en þar sem dýrtíðaruppbótin var þá svo há, þótti þinginu varhugavert að leggja hana að nokkru á sveitirnar.

Okkur þótti hinsvegar ekki rjett að færa aldursuppbótina yfir á sveitirnar, því í því gæti orðið misrjetti, ef t. d. eldri kennari flytur í annað fræðslu- eða skólahjerað og fer að kenna þar, mundi þá aldursuppbótin koma öll ranglega niður á það fræðslu- eða skólahjerað, sem hann flytur í. Aldursuppbótin munar svo litlu fyrir ríkið, en getur komið ranglátt niður á hjeruðin; þótti okkur þessvegna rjett að gera þar enga breytingu frá því, er nú er. Jeg fyrir mitt leyti tel það sanngjarnt, að það verði samþykt, sem minnihl. mentmn. leggur til.